Orkuskipti í vöruflutningum eru á fleygiferð þessa dagana. Sífellt fleiri bílaframleiðendur eru að kynna til sögunnar rafdrifna flutningabíla sem vonir standa til að verði komnir á götur heimsins í náinni framtíð. Til að mynda tilkynnti Brimborg á dögunum að fyrirtækið muni flytja inn 23 rafdrifna flutningabíla frá Volvo sem verða afhentir viðskiptavinum á næstu 4 til 12 mánuðum.

Við Íslendingar erum með metnaðarfull áform í orkuskiptum, ekki bara út af loftslagssjónarmiðum heldur jafnframt á efnahagslegum forsendum. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 og hætti þar með að nota um milljón tonn af olíu á ári, sem kostar um 100 milljarða króna árlega. Hluti þessarar olíu er notaður til að knýja áfram vöruflutninga á landi og ljóst að til mikils er að vinna ef okkur tekst að færa okkur yfir í umhverfisvænni orkugjafa í vöruflutningum.

Hindranir sem þarf að ryðja úr vegi

Það verður samt ekki þrautalaust að keyra þessar breytingar áfram, eins og við hjá N1 höfum rekið okkur á. Fyrir það fyrsta munu orkuskipti í samgöngum krefjast mikillar og kostnaðarsamrar innviðauppbyggingar. Þrátt fyrir að flestir vilji hefja orkuskiptavegferðina, þá er raunveruleg nýting þessara innviða oft ekki góð og erfitt getur verið fyrir einstaklinga og fyrirtæki að réttlæta fjárfestinguna.

Að sama skapi þarf að takast á við hinar ýmsu takmarkanir á flutningi raforku á milli svæða og margt ógert í uppbyggingu dreifikerfisins. Þrátt fyrir að efling kerfisins sé bráðnauðsynleg þá verður ekki horft hjá því að hún mun að sama skapi kosta töluverðan tíma og peninga. Við stöndum t.d. frammi fyrir því að við margar þjónustustöðvar okkar, ekki síst á landsbyggðinni, hefur oft reynst erfitt að fá nægjanlegt afl til að reka stærri og öflugri hleðslustöðvar.

Svo er auðvitað stóra spurningin, er rafvæðing rétta lausnin fyrir þungaflutninga?

Þá getur verið mjög löng bið eftir því að fá aukið afl inn þar sem það er í boði, biðtíminn getur verið 5-8 mánuðir og biðtími eftir hleðslustöðvunum sjálfum getur verið enn lengri. Þessi tækni er í stöðugri þróun og því miður er ekki mikið framboð af hentugum hraðhleðslustöðvum fyrir stærri farartæki. Margir framleiðendur eru komnir langt í þróun þessara lausna en oftar en ekki er einhver bið eftir því að fjöldaframleiðsla hefjist.

1 af hverjum 10 í vandræðum

Einnig bætir ekki úr skák að um er að ræða nýja tækni og því er mikið um bæði notendavandamál og bilanir í búnaði. Notendavandamál ætti að vera nokkuð auðvelt að leysa með aukinni fræðslu til fólks um þessa tækni og notkun hennar. Bilanir geta hins vegar orðið töluverður hausverkur þar sem hérlendis er takmörkuð tæknileg þekking og þjónusta til staðar og oft erfitt að fá skjóta þjónustu frá útlöndum þegar þess er virkilega þörf. Til hliðsjónar er einnig rétt að nefna að erlendis telst eðlilegt og gott að hleðsla takist í bara 90% tilvika. Það er auðvitað erfitt að sætta sig við að 1 af hverjum 10 lendi í vandræðum með hleðsluna, en það er engu að síður mjög lýsandi fyrir stöðuna.

Svo er auðvitað stóra spurningin, er rafvæðing rétta lausnin fyrir þungaflutninga? Mun það duga til vöruflutninga á lengri vegalengdum? Verðum við að leita annara leiða, eins og með rafeldsneyti?

Við hjá N1 erum tilbúin að taka þátt í slíkri uppbyggingu en til þess þarf margt að vera fyrir hendi; það þurfa að vera til staðar notendur, það þarf framboð af rafeldsneyti og fleira til að fjárfestingin gangi upp, sem óhætt er að ætla að verði gríðarlega kostnaðarsöm. Ekki verður annað séð en að aðkoma stjórnvalda að rafvæðingunni og rafeldsneytisverkefnum verði nauðsynleg – annars verður mjög á brattann að sækja.

Hækkum hlutfallið

Eins og sjá má eru úrlausnarefnin mörg en það þýðir ekki að leggja skuli árar í bát. Þvert á móti ætlar N1 ekki að láta sitt eftir liggja. Við stefnum á að verða leiðandi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi og vinna þétt með viðskiptavinum okkar til að gera þeim auðveldara að skipta yfir í umhverfisvænni orku. Við höfum einnig ráðist í margvíslegar fjárfestingar víða um land til að auðvelda fólki að færa sig yfir í grænni orkugjafa. Í stað þess að vera olíufélag sem berst gegn þessari þróun ætlum við okkur þvert á móti að ýta undir hana og stefnum hraðbyri að því að verða fjölorkufélag.

Við höfum nú þegar sett upp 8 öflugar hraðhleðslustöðvar við Staðarskála og erum að vinna í því að setja upp stöðvar í Borgarnesi, Akureyri, Höfuðborgarsvæðinu, Hvolsvelli, Höfn, Egilsstöðum og svo mætti lengi telja. Nú er svo komið að fimmtungur allrar orku sem N1 selur er græn orka – og við ætlum að sjá til þess að þetta hlutfall hækki enn frekar. Við ætlum að halda áfram að flýta fyrir orkuskiptum á Íslandi og viljum fá alla í lið með okkur.

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.