„Efnahagsmál snúast um daglegt líf okkar allra. Og við sjáum aftur mynd sem við þekkjum. Íslandsbanki spáir því að stýrivextir hækki um 2 prósentustig á næstu tveim árum. Það hækkar mánaðarlegar greiðslur af óverðtryggðu 40 m.kr. láni um 75.000 kr. Vextir eru margfalt hærri en á Norðurlöndunum. Þessi staða er hins vegar ekki lögmál heldur afleiðing af pólitískri stefnu. Viðreisn vill tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert. Það mun færa stöðugleika sem hér vantar og það mun lækka kostnað fólks við að eignast heimili og að reka það."

Úr aðsendri grein í Morgunblaðinu 25. september 2021.

Flestir húsnæðiseigendur í Danmörku taka fasta vexti á lán sín til langs tíma. Vextirnir voru að meðaltali 1,9% í upphafi ársins. Í dag eru þeir 4,9%.

Því er spáð að vextirnir muni hækka mun meira í haust og vetur. Bjartsýnir menn segja 7%, þeir svartsýnu allt að 9%. Hæst fóru húsnæðisvextirnir í Danmörku í 8,2% í júlí árið 2000.

En þá er ekki sagan öll. Danskir bankar spá því að húsnæðisverð muni lækka um 10-15% í Danmörku til loka árs 2023. Að nafnverði. Raunverðslækkanir gætu orðið mun meiri þar sem verðbólga í Danmörku mældist 8,9% í ágúst.

***

Gjaldþrota efnahagsstefna

Þessi tilvitnuðu orð eru úr grein Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar frá því fyrir rétt um ári síðan. Það má segja að þau hafi elst alveg sérstaklega illa.

Það er einfaldlega alrangt að tenging íslensku krónunnar við evru tryggi stöðugleika. Það sýna vaxtahækkanir í Danmörku og það sýna húsnæðisverðslækkanir í Danmörku einnig.

***

Ófær leið

Þess utan þá jarðaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þetta kosningamál Viðreisnar fyrir ári. Ásgeir mætti á Reikningsskiladag Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) sem fór fram rúmri viku fyrir kosningarnar.

Þar var hann spurður út í kosningastefnu Viðreisnar. Ásgeir benti á að árið 1989 var krónan tengd við reiknieininguna ECU, körfu gjaldmiðla, sem var síðar skipt út fyrir evruna. Þetta fyrirkomulag gekk á þeim tíma þar sem fjármagnshöft voru þá við lýði á Íslandi en aðstæður væru aðrar í dag.

„Það er í rauninni ómögulegt fyrir Seðlabankann að halda fastgengi við evru,“ sagði Ásgeir og bætti við að hann þyrfti þá að heita öllum gjaldeyrisforðanum til að viðhalda fastgenginu. Algjört samkomulag þyrfti að ríkja við verkalýðsfélögin um að heimta ekki meiri launahækkanir en gerist í Evrópu. Einnig yrði ríkisstjórn að byggja fjárlög út frá því að halda jafnvægi á genginu. Jafnvel þó þessir þættir næðust, þá yrði enn óöruggt hvort fastgengisstefnan myndi ganga upp, meðal annars vegna hættunnar á að spákaupmenn ráðist á gengið.

Ásgeir endaði þessa umræðu á þennan veg:

Það er alls ekki víst að við fengjum sömu vexti, við gætum fengið hærri vexti, við myndum þurfa að hækka vexti til þess að verja gengið. Ég held að það sé að einhverju leyti vanhugsað að fara úr verðbólgumarkmiði sem við erum búin að vera með í 20 ár yfir í þetta [fyrirkomulag].“

Þetta eru bara tvær leiðir: evran, og þá innganga í ESB, eða þá að reka sjálfstæða peningastefnu þar sem við verðum áfram með gjaldmiðilinn okkar.

***

Íbúðaverðið lækkar

Í þarsíðustu viku fullyrti Óðinn að húsnæðisverð á Íslandi myndi lækka, rétt eins og í Danmörku og Svíþjóð. Í gær tilkynnti Hagstofan að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,4% í ágúst.

Þetta er auðvitað bara byrjunin því Seðlabankinn hefur þrengt mjög möguleika þeirra sem eru að fara inn á fasteignamarkaðinn og hækkað vexti hraðar en flestir bjuggust við – og meira.

Óðinn er reyndar þeirrar skoðunar að aðgerðir Seðlabankans séu yfirskot. Það verður þó að viðurkenna að þessi línudans er vandasamur.

***

Lækkun fasteignaverðs mun kæla verðbólguna og það mun sjást í tölunum í haust, en fasteignaverðið hefur suma mánuði síðasta árið verið næstum helmingurinn af vísitöluhækkuninni.

En sú hækkun var auðvitað óþörf ef byggðar hefðu verið nægilega margar íbúðir.

Ætli Ríkisútvarpið muni spyrja Þorgerði um þetta skipbrot efnahagsstefnu Viðreisnar? Varla, enda Þorgerður óformlegur formaður hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins.

Og ætli Ríkisútvarpið muni spyrja Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa um þátt Viðreisnar í verðbólgu og óstöðugleika í íslensku efnahagslífi. Varla.

***

Verðbólgufjárlög

Eins og Óðinn hefur benti á þá eru fjárlög ríkisstjórnarinnar ömurleg. Þau munu valda aukinni verðbólgu enda ætla stjórnarflokkarnir þrír að eyða 129 milljörðum meira á næsta ári en í ár.

Fyrir næstum 12 árum, þann 19 október 2010, skrifaði Ívar Páll Jónsson þá blaðamaður á grein í Morgunblaðið.

Það var þess vegna einkennilegt – og sorglegt – að fylgjast með viðtali Svavars Gestssonar við fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformann [Sjálfstæðis}flokksins á sjónvarpsstöðinni ÍNN á dögunum. Þessi fánaberi hrunstefnunnar, sósíalisma ríkisábyrgða og ríkisútgjalda, virtist ekkert hafa lært af reynslunni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taldi upp „afrek“ Sjálfstæðisflokksins; aukin útgjöld ríkisins til samgöngumála, menntakerfisins, menningarmála, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu. Hún taldi það flokknum til tekna, að hafa blásið út ríkisútgjöld til þessara málaflokka, á tímum þegar erlent lánsfé flæddi yfir landið í skjóli ríkisábyrgðar á rekstri viðskiptabanka, sem Sjálfstæðisflokkurinn taldi vera í gildi.

Þorgerður Katrín talaði um að nú væri ekki tími frjálshyggju. Nú væri ekki tími „öfganna“ til vinstri eða hægri. En hvað með öfgar miðjumoðsins? Hvað með öfgar miðjusækninnar, sem hún er svo stolt af? Er núna tími fyrir öfgar þeirrar stefnu, sem hún fylgdi og keyrði okkur í þrot? Er núna tími þess, að skattgreiðendur beri ábyrgð á skuldbindingum einkaaðila? Er núna tími öfgafullra ríkisútgjalda, sem fjármagna verður með lántökum, skattahækkunum eða peningaprentun og verðbólgu?

Er ekki kominn tími til þess að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og þau ráðandi öfl, sem jarðað hafa trúverðugleika Sjálfstæðisflokksins á síðustu árum, líti í eigin barm?

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar jók ríkisgjöldin samkvæmt fjárlögum um 20%. Þorgerður var ein helsta klappstýra þess að Sjálfstæðisflokkurinn færi í þá stjórn.

Það er ekki nokkur von að Þorgerður Katrín muni leggja fram niðurskurðartillögur sem máli skipta í umræðum um fjárlögin.

Þvert á móti.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 22. september 2022.