Hafið þið tekið eftir því á göngu um náttúruna hvernig tré vaxa? Þau þurfa að komast upp fyrir lúpínuna til að ná að vaxa og dafna svo trjákrónan verði sem stærst og fallegust. Það er oftast mælikvarðinn á stærð trés, hversu stór og víðfeðm trjákrónan er. En ef maður veitir því athygli hvað heldur trjákrónunni uppi, þ.e. trjástofninum, kemur önnur staðreynd í ljós. Stofninn er alltaf í ákveðnu hlutfalli við krónuna. Því stærri trjákróna, því stærri og gildari stofn heldur henni uppi.

Stórt og fallegt tré getur verið myndlíking við stórt og farsælt fyrirtæki. Stjórnendur vinna að því alla daga að passa að sitt tré, þ.e. fyrirtæki, sé að ná að vaxa og dafna eins vel og hægt er. Allir vilja að sitt tré komist upp fyrir lúpínuna og að trjákrónan dreifi sem mest úr sér og skapi sem mestar tekjur og virði. En því markmiði verður ekki náð án þess að huga að því að stofninn fylgi með og sé í eðlilegu samræmi við heildarstærð trésins. Trjákrónan eru semsagt tekjueiningar fyrirtækisins og stofninn eru stoðeiningar þess. Það er tilhneiging til að hugsa sem svo að þar sem peningur kemur inn í fyrirtækið, hjá tekjueiningunum, sé grundvöllur rekstrarins. Það er að sjálfsögðu rétt að vissu leyti, en markmiði um tekjur verður ekki náð nema stoðeiningar fyrirtækisins fái tækifæri til að vaxa í takt við tekjueiningarnar. Það að stoðeiningarnar fylgi ekki með vaxandi umsvifum fyrirtækisins er ein algengasta ástæða þess að fyrirtæki lenda í vandræðum við að stækka og ná stærri markaðshlutdeild. Sumir stjórnendur leggja minni áherslu á stoðeiningar, þær eru hreinn kostnaður í bókhaldinu, skapa ekki beinar tekjur og eru yfirhöfuð ekki í sviðsljósinu þegar verið er að móta framtíðarsýn og stefnu fyrirtækis um að vaxa ákveðið mikið og ná ákveðinni markaðshlutdeild eða forskoti í samkeppni með nýrri vöru og því er tilhneiging hjá stjórnendum til að gleyma að huga að þeim eða jafnvel markvisst að halda stærð þeirra í lágmarki.

Innri endurskoðendur vinna við að gera innri úttektir hjá fyrirtækjum og í stuttu máli væri hægt að segja að tilgangur þessara úttekta væri að staðfesta að þau viðskiptamarkmið sem stjórn hefur sett fram sé í réttum farvegi og að stjórnendur séu á markvissan hátt að ná þessum markmiðum. Á þeim u.þ.b. 17 árum sem undirrituð hefur unnið við innri endurskoðun víðs vegar í atvinnulífinu hefur það verið mín reynsla að á meðal algengustu mistaka stjórnenda við að ná viðskiptamarkmiðum á markvissan hátt er að ekki var gætt að því að stoðeiningar fengju að vaxa í takt við aukin umsvif tekjueininganna. Ætlar bílaleiga í ferðaþjónustu að auka við bílaflotann án þess að bæta við bifvélavirkjum og fólki í þrif og standsetningu á bílunum? Er vænlegt fyrir fjármálafyrirtæki að auka við vöruframboð eða umsvif á núverandi vörum án þess að huga að því að nægilegur fjöldi starfsmanna í stoð- og bakeiningum sé til staðar fyrir aukin umsvif í uppgjörum og frágangi viðskiptanna? Getur framleiðslufyrirtæki vænst þess að auka framleiðslugetu sína án þess að huga að því að nægilega margt tæknifólk sé til staðar til að halda framleiðslulínum og tölvubúnaði gangandi?

Það segir sig sjálft að tré í vaxtakipp sem ekki hefur nógu styrkan stofn til að halda uppi trjákrónunni, brotnar eða brestur í næsta stormi. Þess vegna er mikilvægt að stjórnendur séu meðvitaðir um að til að þeirra fyrirtæki nái að vaxa til fulls og ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að þarf að huga að því að innviðir þess hafi bolmagn til að styðja við þessi markmið. Stoðeiningar eru ekki bara kostnaður í bókhaldinu heldur mikilvægur grundvöllur þess að ná fram þeim vexti sem stefnt er að.

Höfundur er sérfræðingur í innri endurskoðun hjá Kviku banka.