*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Leiðari
29. mars 2018 11:29

Hversu söluvænir eru bankarnir?

Hafi íslensk stjórnvöld einhvern áhuga á að erlendir bankar eignist hlut í íslenskum bönkum þurfa þau að senda skýr skilaboð út á markaðinn.

vb.is

Eins og flestum er í fersku minni voru íslensku bankarnir einkavæddir í byrjun aldarinnar. Í hruninu fékk ríkið bankana aftur í fangið. Að loknum slitameðferðum gömlu bankanna og í kjölfar staðfestingar á nauðasamningum slitabúanna árið 2015 stóð ríkið uppi með um 75% af bankakerfinu í sinni eigu.

Um nokkurt skeið hefur það verið stefna stjórnvalda að minnka umsvif ríkisins í fjármálakerfinu. Einkavæðing bankanna hin síðari hófst í mars á síðasta ári, tæplega áratug eftir bankahrun. Hún hófst nokkrum dögum eftir afnám fjármagnshafta þegar erlendir fjárfestar keyptu tæplega 30% hlut í Arion banka í lokuðu útboði. Af stóru bönkunum þremur átti ríkið minnstan hlut í Arion banka eða rétt um 13%. Í febrúar síðastliðnum urðu frekari breytingar á eignarhaldi bankans. Þá nýttu Kaupskil sér meðal annars kauprétt á hlut ríkisins í Arion banka.

Með sölu ríkisins á 13% hlut í Arion banka er það samt sem áður eigandi að 64,7% hlut í bókfærðu eigin fé stóru bankanna þriggja. Ríkið á 98,2% hlut í Landsbankanum og Íslandsbanka að fullu.

Nú er unnið að sölu á hlut Kaupþings í Arion banka í gegnum útboð og skráningu. Stefnt er að tvískráningu bankans á markað í Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Svíþjóð á næstu mánuðum.

Samkvæmt stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar liggur fyrir að annar banki verður seldur. Hingað til hefur þótt líklegast að það verði Íslandsbanki. „Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því,“ segir í sáttmálanum. „Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.“

En hversu söluvænir eru íslensku bankarnir? Frá endurreisn bankakerfisins árið 2008 hafa stóru bankarnir þrír samtals hagnast um tæplega 575 milljarða króna. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að hagnaður bankanna frá hruni endurspeglar ekki afkomu af undirliggjandi rekstri. Stór hluti hagnaðarins er tilkominn vegna óreglulegra þátta sem tengjast hruninu og eftirmálum þess, svo sem endurmats á útlánasafni bankanna og sölu á yfirteknum eignum.

Á síðasta ári nam hagnaður bankanna samtals 47,4 milljörðum króna. Á sama tíma voru þeir með 653 milljarða bundna í eigið fé í lok desember. Arðsemi þess fjármagns var 7,3% að meðaltali og hefur farið þverrandi, en almenn krafa á markaði var rúmlega 11%. Arðsemin var því um það bil 4 prósentustigum undir eðlilegri kröfu fjárfesta. Þessu til viðbótar eru kostnaðarhlutföll íslensku bankanna hærri en hjá erlendum bönkum vegna hærri launakostnaðar, opinberra gjalda og skatta.

Það er með ólíkindum að ríkið sé enn að innheimta bankaskatt. Þessi skattur, sem nemur 0,376% af skuldum bankanna, var lagður á árið 2010 til þess að afla tekna vegna kostnaðar sem hlaust af fjármálakreppunni og til þess að draga úr áhættusækni innlánsstofnana. Frá árinu 2010 hafa bankarnir samtals greitt 50 milljarða króna í bankaskatt. Á sama tímabili hafa bankarnir greitt rúmlega 121 milljarð í tekjuskatt. Þá hafa bankarnir greitt milljarða í ríkissjóð til viðbótar í tryggingagjald og fjársýsluskatt.

Það leikur ekki nokkur vafi á því að þessi mikla skattheimta og sú séríslenska kvöð sem bankaskatturinn er rýrir söluvirði bankanna og dregur úr samkeppnishæfni þeirra á lánamarkaði.

Töluvert hefur rætt um mikilvægi þess að fá öfluga erlenda banka til að fjárfesta í íslenskum bönkum þegar og ef þeir fara á markað. Það er hins vegar ólíklegt að erlendir bankar muni hafa nokkurn áhuga á því miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Erlendir bankar eru nú þegar starfandi á íslenska lánamarkaðnum. Kjörin sem þeir bjóða íslenskum fyrirtækjum taka mið af allt öðru rekstrarumhverfi en íslensku bankarnir starfa í. Af hverju ættu þeir að vilja fjárfesta í íslenskum bönkum og gangast þar með undir allar þær séríslensku kvaðir sem því fylgir. Samkeppnishæfni þeirra á lánamarkaði er betur borgið með því að standa alfarið fyrir utan íslenska fjármálakerfið.

Hafi íslensk stjórnvöld einhvern áhuga á að erlendir bankar eignist hlut í íslenskum bönkum þurfa þau að senda skýr skilaboð út á markaðinn. Skilaboð um að bankaskatturinn verði aflagður, sem og önnur íþyngjandi skattheimta. Það væri allavega ágætis byrjun. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.