*

mánudagur, 18. janúar 2021
Heiðrún Lind Marteinsdót
26. nóvember 2020 16:33

Hvert skal halda?

„Ekki verður séð að ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafi velt upp þeirri spurningu hvert beri að stefna með sjávarútveg og hvaða hlutverki honum er ætlað til að tryggja hagsæld þjóðar.“

Haraldur Guðjónsson

Rekstrarskilyrði sem stjórnvöld skapa atvinnulífi ráða að miklu leyti hvaða verðmæti verða leyst úr læðingi. Skýr sýn á það hver þessi skilyrði skuli vera til framtíðar er jafnframt nauðsynleg svo fyrirtæki þekki til hvers er ætlast af þeim. Þá er hún ekki síður mikilvæg fyrir stjórnvöld, sem geta þá gert áætlanir um hvernig það verðmæti sem til verður styður best við efnahagslega og félagslega þróun þjóðar.

Íslenskur sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein. Þegar spurt er; hvert stefna stjórnvöld með íslenskan sjávarútveg og af hverju, virðist svarið ekki blasa við. Þegar svarið liggur ekki á lausu eykst óöryggi við rekstur fyrirtækja. Það er sérlega bagalegt í rekstri fyrirtækja sem fjárfesta í framleiðslueiningum sem ætlaðar eru til langs tíma, jafnvel áratuga.

Ekki verður séð að ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafi velt upp þeirri spurningu hvert beri að stefna með sjávarútveg og hvaða hlutverki honum er ætlað til að tryggja hagsæld þjóðar. Það hefur í raun ekki verið sett neitt markmið, engin stefna verið mörkuð. Vissulega má segja að aflamarkskerfi sé í grófum dráttum stefna og einnig gjaldtaka af nýtingu auðlindarinnar – þó vonandi megi stefna að öðrum og uppbyggilegri þáttum en skattheimtunni einni. En hvað mun sjávarútvegur leggja til hagsældar á næstu árum og áratugum?

Norðmenn settu sér markmið árið 2018 að tvöfalda virði sjávarútvegstengdra útflutningsgreina til ársins 2030. Sú leið hefur síðan verið vörðuð með einstökum aðgerðum. Þetta mætti íhuga hér á landi. Það er ekki einkamál sjávarútvegs hvert beri að stefna, það kemur öllum við hvernig tekst að gera sem mest verðmæti úr takmarkaðri auðlind. Því er rétt að spyrja; ættum við að setja markmið fyrir sjávarútveg fram til ársins 2030 og vinna síðan eftir þeirri línu, eða bara ganga út frá því að þetta reddist?

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.