*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Óðinn
1. janúar 2019 11:01

Hvítbók, Blöndal og kreppur

Formaður Sjálfstæðisflokksins minnkaði fylgið um 10 prósentustig með því að hlusta á formann starfshóps Hvítbókarinnar.

Lárus Blöndal formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins var formaður starfshópsins um umgjörð fjármálakerfisins.
Haraldur Guðjónsson

Í byrjun desember var hvítbók um fjármálakerfið birt en þar má finna stefnu núverandi ríkisstjórnar um umgjörð kerfisins.                                                             

                                                           ***

Eðlilega þá eiga stjórnarflokkarnir sína fulltrúa í slíkri nefnd. Má þar nefna Guðrúnu Ögmundsdóttur, dóttur Ögmunds Jónassonar, sem er starfsmaður Seðlabankans. Lárus Blöndal var formaður starfshópsins en hann er jafnframt formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, skipaður af Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins.                                                       

                                                           ***

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 35-39% þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var við völd. Allt þar til Bjarni Benediktsson ákvað að styðja Icesave-samninginn þann síðasta. Með þeirri ákvörðun má segja að formaðurinn hafi varanlega minnkað fylgi flokksins um 10 prósentustig. Í það minnsta varir það enn. Í dag er fylgið samkvæmt Gallup 23,5% og hefur hæst farið í 29% í kosningunum, árið 2016.                                                             

                                                           ***

Icesave og Sjálfstæðisflokkur

Margir reyndu að hafa áhrif á Bjarna Benediktsson dagana og helgina áður en hann tók ákvörðun um hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætti að samþykkja síðasta Icesave-samninginn eða ekki. Fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna, alþingismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, var eindreginn andstæðingur þess að samþykkja samninginn.

Birgir Ármannsson, sem var og er áhrifamaður innan þingflokksins, var einnig á móti rétt eins og Pétur Blöndal. Margir utan þingflokksins höfðu áhyggjur að Bjarni myndi samþykkja samninginn en þeirra voru Björn Bjarnason, náfrændi Bjarna, og Davíð Oddsson.

Hann, ásamt Haraldi Johannessen, breytti stefnu blaðsins í Icesave og var það mjög andsnúið kröfum Breta og Hollendinga. Morgunblaðið og Viðskiptablaðið voru einu íslensku fjölmiðlarnir sem voru andvígir Icesavesamningnum en fengu óvænta hjálp að utan, sérstaklega frá Financial Times í Bretlandi.                                                             

                                                           ***

Slök dómgreind

Einum manni helst hefur verið eignað að hafa sannfært Bjarna Benediktsson um þessa röngu og afdrifaríku ákvörðun. Sá maður heitir Lárus Blöndal. Fleiri stukku á þann vagn. Fyrrverandi formennirnir Þorsteinn Pálsson og Geir Haarde eru þeirra á meðal en sá síðarnefndi var verðlaunaður með sendiherratign í Washington.                                                             

                                                           ***

Það er einkennilegt og ekki líklegt til árangurs að minna þá reglulega á sem voru staðfastir gegn löglausum kröfum Breta og Hollendinga, og höfðu rétt fyrir sér um afleiðingar þess ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja Icesave, að tefla fram mönnum með svo slaka dómgreind fyrir hönd flokksins.                                                             

                                                           ***

Mikilvæg skref

En aftur að hvítbókinni. Þar er margt ágætt að finna og sumt síðra. Þar er lagt til að eignarhald ríkisins á bönkum verði takmarkað við þriðjungshlut í einum banka. Það er reyndar þriðjungshlut of mikið en mun skárra en tveir af þremur stóru viðskiptabönkunum, eins og nú er.

Reyndar gæti þetta breyst hratt þótt ríkið selji ekki hluti sína í bönkunum. Mjög hröð þróun er í fjártækni og þrátt fyrir yfirburðastöðu ríkisbankanna Landsbanka og Íslandsbanka og einkabankans Arion banka, þá gætu markaðsaðstæður breyst hratt. Þá gæti eins farið fyrir ríkisbönkunum og Íslandspósti.                                                             

                                                           ***

13.789 blaðsíður

Eitt af meginstefjunum í bókinni er gott regluverk. Það er alveg rétt. En sumir telja að eftir því sem reglurnar eru fleiri sé regluverkið betra. Eftir kreppuna miklu sem hófst 1929 voru sett lög, sem nefnd voru í höfuðið á demókrötunum Carter Glass og Henry Steagall. Glass-Steagalllögin voru sett árið 1933 og voru 37 blaðsíður að lengd með lögskýringargögnum. Þeim var ætlað að koma í veg fyrir heimskreppu.                                                             

                                                           ***

Sjötíu og fimm árum eftir að lögin voru sett kom kreppa. Heimskreppa. Til að varna heimskreppu setti Bandaríkjaþing lög árið 2010. Þau nefndust Dodd-Frank í höfuðið á demókrötunum Chris Dodd og Barney Frank. Dodd-Frank-lögin eru 13.789 blaðsíður að lengd með lögskýringargögnum eða 372 falt lengri en Glass-Steagall.                                                             

                                                           ***

Þetta er einhver stærsta markaðshindrun fyrir smærri fyrirtæki sem nokkurn tímann hefur verið komið á fót. Stóru bankarnir fjölga mönnum í lögfræðideildum sínum sem vinna dag og nótt í að komast í kringum lögin. Óvíst er hvort kreppa kemur ekki fyrr en eftir 75 ár. En þó er víst að hún kemur.                                                             

                                                           ***

Kreppur

Um áramót er ástæða til að líta til baka og og horfa fram á við. Útlit er fyrir hörðum átökum á vinnumarkaði. Það er líklegt að allir muni tapa á þeim átökum. Launþegar og atvinnurekendur, heilbrigðir og sjúkir, ríkir og fátækir. Það mun því ríkja kreppa í nokkra mánuði. Lengur munu þau ekki standa því almenningur hefur aldrei haft það betra á Íslandi þó að ýmislegt þurfi og megi breyta. Því er Óðinn bjartsýnn fyrir komandi ári. 

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.