

Hrafnarnir hafa mætur á Ara Fenger, forstjóra 1912 og nýkjörnum formanni Viðskiptaráðs. Ari var í viðtali í Markaðnum í gær þar sem hann sagði meðal annars: „Ég hef í gegnum árin sagt að fleiri í atvinnulífinu ættu að tjá sig opinberlega. Orðræðan hefur verið óvægin og því hafa margir veigrað sér við því. Ég ákvað því að stíga fram.“
Hrafnarnir eru hjartanlega sammála Ara hvað þetta varðar en klóruðu sér samt í höfðinu þegar þeir lásu áfram og rákust á þetta: „Ég hef lagt höfuðáherslu á að reka mitt fyrirtæki og ekki haft þörf fyrir að vera mikið í fjölmiðlum. Það hefur ekki þjónað rekstri fyrirtækisins neitt sérstaklega á síðustu árum að sá sem stýrir skútunni sé áberandi í þjóðfélagsumræðunni.“ Það er ekki oft sem menn deila við sjálfa sig í viðtölum.
Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.