Kjarasamningarnir sem nú eru í gildi á almenna markaðnum voru gerðir við aðstæður óvissu. Flugfélagið WOW var nýfarið á hausinn og óljóst hvaða efnahagslegar afleiðingar það hefði í för með sér. Því var lögð gríðarleg áhersla á að stjórnvöld kæmu sterkt inn til að liðka fyrir samningum. Aðgerðir í yfirlýsingu stjórnvalda lúta meðal annars að húsnæðismálum, baráttunni gegn félagslegum undirboðum, skattabreytingum í þágu jöfnuðar og fleira.

Með þessari aðkomu féllst verkalýðshreyfingin á að semja um hóflegar krónutöluhækkanir og að auki var settur inn svokallaður hagvaxtarauki sem felur í sér að launafólk njóti góðs af hugsanlegum hagvexti. Þetta síðastnefnda var samið um að frumkvæði atvinnurekenda, sem jafnframt útfærðu tillöguna.

Í september síðastliðnum komust ASÍ og SA að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að forsendur lífskjarasamninganna væru brostnar en þó eingöngu þar sem stjórnvöld höfðu ekki uppfyllt sinn hluta af samningnum, þ.e. ekki staðið að fullu við yfirlýsingu sína sem var eitt af grundvallaratriðum samningsins. Vegna forsendubrestsins höfðu bæði launafólk og atvinnurekendur möguleika á að segja upp samningunum en hvorugur aðilinn ákvað að nýta það tækifæri.

Það kom því launafólki í opna skjöldu þegar talsmenn atvinnurekenda mættu í fjölmiðla skömmu síðar og börmuðu sér yfir hagvaxtaraukanum og lögðu jafnvel til að hann skyldi ekki efndur á vormánuðum 2022. Undir þetta tóku bæði embættismenn og stjórnmálamenn svo grátkórinn varð nokkuð hávær á tímabili.

Korteri eftir að atvinnurekendur ákváðu að standa við samninga fóru þeir að véfengja innihaldið – sérstaklega ákvæði sem var runnið undan þeirra rifjum. Til að halda friði á vinnumarkaði þurfa samningsaðilar að sýna ábyrgð og úthald og þessi tónn atvinnurekenda er áhyggjuefni fyrir misserin framundan þegar efnahagskerfið þarf að rétta úr sér.

En það eru fleiri kunnuglegir þræðir í upptakti kjaraviðræðna. Söngurinn um ábyrgð vinnumarkaðarins er hafinn og að ekki megi semja umfram aukna verðmætasköpun. Því er síðan fylgt eftir með fullyrðingunni sem er uppáhald sumra: Það kemur launafólki verst að semja um of miklar hækkanir.

Þessi söngur hefur hljómað í upptakti allra kjaraviðræðna undanfarna áratugi. Aldrei hafa embættismenn, ráðandi stjórnmálaöfl eða atvinnurekendur stigið fram og sagt að nú sé rétti tíminn til að bæta kjör vinnandi fólks. Verkalýðshreyfingin hefur þurft að sækja launahækkanir og aðrar kjarabætur úr krepptum hnefa, oft með átökum og harðfylgi.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað velferðarþjóðfélagi og því að launafólk hefur fengið sinn hluta í framleiðniaukningu síðustu áratuga ólíkt mörgum öðrum löndum. Víða hafa stjórnmálamenn sett það á oddinn að endurheimta velferðina úr höndum fjármagnseigenda, að vinda ofan af nýfrjálshyggju síðustu áratuga sem hefur reynst skaðleg almenningi og samfélaginu öllu – líka atvinnurekendum.

Það hlýtur að vera atvinnurekendum í hag að starfsfólk, konur sem karlar geti tekið þátt á vinnumarkaði í stað þess að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum gagnvart börnum eða eldra fólki. Það er líka atvinnurekendum í hag að fólk hafi efni á húsnæði, geti komist til og frá vinnu, hafi aðgang að heilsugæslu og veikist ekki vegna skorts á forvörnum. Það er atvinnurekendum í hag að fólk hafi efni á að fara til tannlæknis og sé almennt ekki þjakað af framfærsluótta. Fyrir þessu hefur verkalýðshreyfingin barist árum saman og mun halda því áfram.

Í dag fer húsnæðismarkaðurinn og hækkun nauðsynja langt með að éta upp árangur síðustu kjarasamninga. Við erum óralangt frá þeirri stefnu Alþýðusambandsins að fólk greiði ekki nema 25% tekna sinna í húsnæðiskostnað. Sumir greiða svo mikið sem 80% tekna í húsaleigu og vextir fara nú hækkandi sem þýðir bara eitt: Kjararýrnun þeirra verst stöddu og þeirra sem hafa þurft að spenna bogann hátt til að koma þaki yfir höfuð.

Sú stefna sem rekin hefur verið, að láta hinn ósýnilega markað tryggja húsnæðisöryggi er gjaldþrota. Húsnæðismarkaðurinn á ekki að vera tækifæri fyrir fjárfesta eða verktaka og hann á ekki að vera undirstaða ofsahagnaðar í útlánum. Húsnæðismarkaðurinn á að tryggja húsnæðisöryggi – að fólk búi við góðar aðstæður á viðráðanlegum kjörum. Til þess að svo megi verða þarf margt að koma til.

Skilja þarf á milli viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi og styrkja þarf óhagnaðardrifin leigufélög. Koma þarf böndum á verðtrygginguna og dreifa ábyrgðinni á afborganaflökti á milli lánveitenda og lántaka. Það þarf að koma reglum á útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna svo sú þjónusta gangi ekki freklega á húsnæðisöryggi. Nýta þarf tilfærslukerfin, vaxtabætur og húsaleigubætur til að draga úr húsnæðiskostnaði þeirra tekjulægri og svo þarf að sjálfsögðu að gera stórátak í húsnæðisuppbyggingu með félagslega hugsun að leiðarljósi.

Húsnæðismálin eru órofa hluti af lífskjörum fólks og því mun það skipta öllu máli í aðdraganda kjaraviðræðna að stjórnvöld hafi þá þegar sýnt að þau muni beita sér fyrir lækkun húsnæðiskostnaðar. Það þýðir ekki að koma með endurunnin loforð inn í kjaraviðræður. Ábyrgð stjórnmálanna og þeirra sem fara með stjórn peningamála er mikil. Við munum sækja fram fyrir almenning og halda áfram að byggja upp gott land til hagsbóta fyrir okkur öll.

Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands.