*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Huginn og muninn
24. október 2020 10:04

Í vari fyrir Covid-storminum

Akstursgreiðslur til ríkisstarfsmanna hækka en fæðispeningar lækka um heilar 200 krónur.

Haraldur Jónasson

Fjárhagslegar afleiðingar heimsfaraldursins hafa komið hart niður á fjöldamörgum á almenna launamarkaðnum. Sem fyrr eru opinberir starfsmenn í vari fyrir Covid-storminum og gott betur en það því fyrir þremur vikum, í miðri þriðju bylgjunni, var tilkynnt að akstursgreiðslur til ríkisstarfsmanna hefðu verið hækkaðar.

Hrafnarnir klóra sér eðlilega í höfðinu yfir þessari fordæmalausu ákvörðunartöku en skilja hana betur þegar haft er í huga að ríkisstarfsmenn hafa auðvitað lítið getað ferðast til útlanda síðan faraldurinn skall á og þá er ágætt að fá smá aukapening fyrir akstur innanlands. Er þessi ákvörðun tekin af svokallaðri ferðakostnaðarnefnd, sem í sitja fulltrúar frá BSRB, BHM og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Kannski hafa þessir fulltrúar verið uppi í sveit í golfi og ekki náð að fylgjast með fréttum um stóraukið atvinnuleysi og yfirvofandi gjaldþrot margra fyrirtækja. Í ljósi ástandsins áttu þeir auðvitað að sýna gott fordæmi og lækka akstursgreiðslur en ekki hækka.

Til þess að allri sanngirni sé gætt þá ákvað ferðakostnaðarnefnd að lækka dagpeninga vegna gistingar á ferðalögum. Fá ríkisstarfsmenn nú 25.700 krónur á sólarhring til þess að kaupa sér gistingu og mat en áður fengu þeir 29.400 krónur. Það er auðvitað ansi hart að þurfa að redda sér gistingu og mat á þessum prís. Þeir gætu þurft að sætta sig við að gista á KEA-hótelinu á Akureyri. Þar er hægt að fá gistingu fyrir tvo í tvær nætur með morgunverði á 54.900 krónur. Innifalið í verðinu er ferð í Bjórböðin með kynningu í Kalda brugghúsi, bjórsmökkun, sauna, útipottum og kvöldverði á glæsilegum veitingastað bjórbaðanna.

Þótt dagpeningar fyrir gistingar hafi lækkað nokkuð þá gekk lækkunin ekki hlutfallslega niður allan stigann því dagpeningar fyrir fæði hvern heilan dag (minnst 10 tíma ferðalag) lækkaði úr 12.600 krónum í 12.400. Hvað ætli það hafi kostað ríkið mikið að komast að þessari niðurstöðu, að lækka gjaldið um 200 kall. Hvaða útreikningar lágu að baki? Þarf ríkisstarfsmaðurinn nú að sleppa rjómanum út í kaffið og gera sér mjólkina að góðu eftir góða máltíð?

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.