*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Óðinn
9. febrúar 2018 12:15

Íbúðaævintýri Ragnars Þórs

Hugmyndir Ragnars Þórs um stofnun leigufélags afhjúpa óeðlilega afstöðu til sjóða félagsmanna VR og takmarkaðan skilning á eðli markaðarins.

Ein alvarlegasta, en um leið algengasta, hugsanavilla sem stjórnmálamenn gera er að líta á fé annarra sem sitt eigið leikfang. Það er í raun ótrúlegt hvað stjórnmálamenn nálgast almannafé oft af mikilli léttúð og vanvirðingu og álíta sameiginlega sjóði skattgreiðenda sem botnlausa uppsprettu auðs til að fjármagna þeirra persónulegu gæluverkefni. 

                                            ***

Hægt er að finna slíka stjórnmálamenn víðar en á Alþingi og í sveitarstjórnum víða um land. Þeir hafa einnig fundið sér samastað í félagasamtökum, eins og stéttarfélögunum. Ragnar Þór Ingólfsson braust til valda í VR með miklum látum og sagðist ætla að breyta vinnubrögðum innan félagsins, almennum félagsmönnum til hagsbóta. Talað var um grasrótarbyltingu, sem Ragnar er nú önnum kafinn við að breiða út til annarra, óskyldra stéttarfélaga. 

                                            ***

Þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að hans hlutverk væri að vera talsmaður og baráttumaður lítilmagnans í VR, þá virðist heimsmynd Ragnars miklu fremur mótast af neikvæðni og heift. Heift í garð fyrirtækjanna sem greiða félagsmönnum hans laun og heift í garð hins kapítalíska frjálsa markaðar. 

                                            ***

Fyrirtækin eru vond 

Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um hugmyndir Ragnars Þórs um að „nýta digra sjóði stéttarfélagsins til að koma á fót leigufélagi, sem myndi leigja íbúðir á 15-30 prósenta lægra verði en gengur og gerist á almennum leigumarkaði“. 

                                            ***

Fram kemur í fréttinni að VR eigi eignir upp á tólf milljarða króna sem ávaxtaðar séu meðal annars í verðbréfum. Eignirnar standa undir sjóðum félagsins, svo sem sjúkrasjóði, varasjóði og starfsmenntasjóði. Ragnar vill selja verðbréfin og kaupa steypu fyrir andvirðið. 

                                            ***

Í viðtali við Fréttablaðið kemur fram að markmiðið sé ekki síður að minnka verðbréfaeignina en að koma á leigufélaginu. „Eigum við frekar að kaupa hlutabréf í smásölufyrirtæki? Eigum við þannig að vera í mótsögn við sjálf okkur, sem stéttarfélag, þar sem við erum að semja um betri kjör og hærri laun, og eiga hlutabréf þar sem ávöxtunarkrafan er hærri álagning og lægra kaupgjald? Hvar eiga mörk sjóðasöfnunar og stéttabaráttunnar að liggja þegar við getum ekki nýtt sjóðina okkar í góða ávöxtun?” 

                                            ***

Hann lítur sem sé á smásölufyrirtæki sem slíka óvini stéttarfélagsins og launþega að ekki sé verjandi að fjárfesta í félaginu. Þetta er stórmerkileg afstaða hjá forsvarsmanni félags eins og VR. 

                                            *** 

Hvert er hlutverk sjóðanna? 

En ummæli Ragnars Þórs afhjúpa einnig mjög óeðlilega afstöðu hans til sjóða félagsmanna VR og takmarkaðan skilning á eðli markaðarins. 

                                            ***

Í fyrsta lagi er rétt að skoða betur hvaða sjóði Ragnar vill strípa til að koma þessu fasteignaverkefni á koppinn. Sjúkrasjóður hefur það hlutverk að „veita félagsmönnum fjárhagsaðstoð í veikinda-, slysa- og dánartilvikum, svo og í elli- og örorkutilvikum“. Orlofssjóður á að „auðvelda félagsfólki að njóta orlofs og hvíldar“ og hlutverk vinnudeilusjóðs segir sig sjálft. 

                                            ***

Enn á þó eftir að nefna einn sjóðinn, en það er Varasjóðurinn. Sá sjóður er „upplýsingakerfi um sérgreindan rétt félagsmanna“. Með öðrum orðum er hlutur hvers félagsmanns hans séreign, sem hann má nýta þegar hann þarf á að halda. 

                                            ***

Hlutverk sjóðanna eru skýr og afmörkuð. Að hafa áhrif á verðlag á húsaleigumarkaði er ekki hluti af verkefnum sjóðanna. 

                                            ***

Ragnar Þór gæti hér sagt að aðeins sé um að ræða fjárfestingu, sem skila eigi sjóðunum ávöxtun, sem þeir geta svo nýtt til sinna verkefna. Jú, það er nokkuð til í því, en skoðum þá betur hvaða fjárfestingarheimildir eru til staðar. 

                                            ***

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir með eftirfarandi hætti: 

• a) í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs, 

• b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum, 

• c) á banka- eða sparisjóðsreikningum, 

• d) í fasteignum tengdum starfsemi og markmiðum sjóðanna, 

• e) á annan þann hátt er stjórn og trúnaðarráð meta tryggan. 

                                            ***

Liður e) er vissulega mjög opinn og hægt er að troða alls konar vitleysu undir þann hatt, en þegar hann er lesinn með hliðsjón af hinum fjórum liðunum má vera ljóst að tilgangurinn er ekki sá að gefa stjórn VR algerlega lausan tauminn þegar kemur að fjárfestingum. T.d. má ætla að fyrst tekið er fram að verðbréf verði að vera markaðsskráð þá megi ekki fjárfesta í óskráðum hlutabréfum. Það þýðir að ekki er hægt að fjárfesta í óskráðu leigufélagi, eins og Ragnar hefur þó talað um. 

                                            ***

Hófleg og ásættanleg ávöxtun 

Skyldur stjórnar VR þegar kemur að ávöxtun sjóðanna eru mjög svipaðar skyldum stjórna lífeyrissjóða. Markmiðið er viðhald og vöxtur sjóðanna. Sjóðirnir, en ekki fjárfestingarnar sem slíkar eru það sem máli skiptir. 

                                            ***

Ragnar virðist viðurkenna það í viðtalinu að íbúðaævintýrið gæti skilað lægri ávöxtun er fjárfesting í verðbréfum. „Við erum fremur að tala um að fá góða, hóflega og ásættanlega ávöxtun fyrir félagssjóði okkar í stað þess að fara með peningana okkar á hlutabréfamarkað og vera þannig í mótsögn við tilgang okkar.“ 

                                            ***

Þegar Ragnar segist vilja „hóflega og ásættanlega“ ávöxtun þá er hann að segja að ávöxtunin verði ekki mjög mikil. Í tilvitnuninni kemur svo aftur fram þessi stórmerkilega afstaða hans að það stríði gegn tilgangi félagsins að fjárfesta í fyrirtækjum sem greiða félagsmönnum laun! 

                                            ***

En þótt ekkert af ofangreindu ætti við þá er hugmynd hans engu að síður fáránleg. Yfirlýst markmið er að bjóða íbúðir á leigu undir markaðsverði. Tilgangurinn er væntanlega sá að reyna að ýta niður leiguverði, en forsenda hugsunarinnar virðist vera sú að hátt leiguverð skýrist einkum af græðgi leigusala. 

                                            ***

Ragnar Þór segir í viðtalinu að hann vilji setja 1,5 til 2 milljarða króna í verkefnið. Takist honum að fá aðra fjárfesta með þá væri hægt að kaupa 160 til 200 íbúðir, en ef VR standi eitt að þessu yrðu íbúðirnar líklega um 80-100 talsins. 

                                            ***

Hærra íbúðaverð 

Hafa ber í huga að frá árinu 2010 hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um ein 93% og á síðustu þremur árum hefur hækkunin numið 40%. Miðað við þann fjölda íbúða sem á markaði er þá mun innkoma VR ekki valda hækkunum upp á tugi prósenta, en nýr aðili sem ætlar að kaupa upp allt að 200 íbúðir á tiltölulega stuttum tíma mun a.m.k. ekki leiða til verðlækkana á  húsnæðismarkaði. Fjöldi kaupsamninga á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur verið á bilinu 420-640 á mánuði undanfarna mánuði. Það er Ragnars sjálfs að útskýra fyrir sínum félagsmönnum af hverju hann vill að VR fari í samkeppni við þá um íbúðarhúsnæði. 

                                            ***

Nokkrir milljarðar í viðbót á kauphlið íbúðamarkarins á stuttum tíma mun að öðru óbreyttu ýta verði upp, en þegar haft er í huga að heimili í leiguhúsnæði eru nú um 35.000 talsins er ekki að sjá að það að leigja út 200 íbúðir á slikk muni hafa nokkur áhrif á leiguverð. 

                                            ***

Einu áhrif þessa ævintýris Ragnars Þórs eru því líklega þau að þrýsta húsnæðisverði eitthvað upp – tímabundið að minnsta kosti – og ná fram verri ávöxtun fyrir sjóði félagsmanna. 

                                            ***

Vissulega er pottur brotinn í húsnæðismálum og það er ekkert athugavert við það að formaður eins stærsta stéttarfélags landsins geri þau mál að umfjöllunarefni. Hann ætti hins vegar að vita að ástæða hækkana síðustu ára og missera er annars vegar framboðsskortur á íbúðum og hins vegar aukin kaupgeta almennings. Framboð á húsnæði eykst ekki við það að VR kaupi íbúðir, sem þegar er búið að byggja, og setji í útleigu. 

                                            ***

Markmiðum Ragnars væri miklu fremur náð með byggingu nýrra íbúða, en það er svo langt frá tilgangi stéttarfélagsins að það nær engri átt. 

                                            ***

Ragnar Þór hefur frá upphafi sýnt að hann hefur miklu meiri áhuga á slagsmálum en því að vinna raunverulega að bættum hag félagsmanna sinna. Hann vill slást við forystu Alþýðusambandsins, hann vill slást við stjórnir annarra stéttarfélaga, hann vill slást við fyrirtækin í landinu. 

                                            ***

Forystumenn stéttarfélaga þurfa vissulega að hafa bein í nefinu og vera tilbúnir að taka hart á í kjaraviðræðum, en markmiðið á alltaf að vera hagur félagsmanna, en ekki slagurinn sjálfur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.