*

mánudagur, 1. mars 2021
Huginn og muninn
20. febrúar 2021 10:02

Íbúðalánasjóður undir nýju flaggi?

Nú er verið að skoða möguleikann á því að færa fasteignaskrá yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Fjöldi stofnana hefur aðsetur í Borgartúni 21.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir eru mjög hlynntir hagræðingu í stjórnsýslunni enda af nógu að taka á þeim bænum. Þeir klóra sér samt í höfðinu yfir umræðunni um mögulegan flutning verkefna frá Þjóðskrá Íslands til nýstofnaðrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Hefur Samband íslenskra sveitarfélaga meðal annars beitt sér í málinu en Karl Björnsson, framkvæmdastjóri þess, situr í stjórn HMS. Óskaði sambandið eftir því að kostir þess að færa fasteignaskrá til HMS yrðu kannaðir og hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, orðið við þeirri ósk. Rök sambandsins fyrir þessu eru meðal annars þau að sveitarfélögin hafi samtals þurft að greiða 300 milljónir króna fyrir rekstur fasteignaskrár hjá Þjóðskrá. Hrafnarnir sjá í fljótu bragði ekki hvaða tilgangi þetta þjónar fyrir utan að spara sveitarfélögunum pening og færa starfsfólk á milli hæða í Borgartúni 21. Það myndi ekki koma hröfnunum á óvart ef næsta hugmynd myndi lúta að því að færa fasteignamatið frá Þjóðskrá til HMS eða nei, freistnivandinn yrði of mikill þar sem HMS stendur nú þegar í lánveitingum og getur ekki líka metið fasteignir.

HMS varð til við sameiningu Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar. Óttast hrafnarnir að einhvers staðar undir niðri kraumi nú draumar framsóknarmanna um að endurreisa Íbúðalánasjóð undir þessu nýja flaggi, sem getur bara endað á einn veg. Fyrir þá sem ekki muna þá er saga Íbúðalánasjóðs þyrnum stráð. Sjóðurinn var um tíma stærsti lánveitandi á húsnæðismarkaði en eftir að bankar og lífeyrissjóðir fóru inn á þann markað fór staðan hríðversnandi. Fyrir um áratug síðan þurfti ríkið að leggja honum til 52 milljarða króna. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kom út árið 2010 var gengið svo langt að segja að heildartap sjóðsins á þeim tíma hefði numið 270 milljörðum. En þetta er útúrdúr. Hrafnarnir eru með betri hugmynd að hagræðingu en hún er að sameina Þjóðskrá, HMS og Hagstofuna í eina stofnun. Fækka starfsfólki um helming og hafa einn forstjóra.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.