*

laugardagur, 19. september 2020
Elvar Orri Hreinsson
29. október 2016 12:32

Íbúðamarkaður í uppsveiflu

„Við spáum því að verð íbúðarhúsnæðis á landsvísu muni hækka um 9,3% í ár, 11,4% á næsta ári og 6,6% á árinu 2018.“

Haraldur Guðjónsson

Í nýútgefinni skýrslu okkar um íbúðamarkaðinn á Íslandi kemur í ljós hve margbreytilegur sá markaður er. Á það við um þróun á milli landsvæða, innan hvers landsvæðis og jafnvel innan ákveðinna sveitarfélaga. Ræðst þetta að miklu leyti af staðbundnum áhrifaþáttum sem ráða, öðru fremur, ólíkri verðþróun á milli svæða.

Fjölgun ferðamanna er dæmi um þátt sem hefur haft meiri áhrif á íbúðamarkaðinn í miðbæ Reykjavíkur en á öðrum svæðum en þar voru ein af hverjum átta íbúðum í útleigu til ferðamanna síðastlið- inn júlí. Skerðir það framboð íbúða til innlendra aðila í miðbænum sem því nemur til hækkunar á íbúðaverði á svæðinu. Við spáum því að verð íbúðarhúsnæðis á landsvísu muni hækka um 9,3% í ár, 11,4% á næsta ári og 6,6% á árinu 2018. Vöxturinn er m.a. drifinn áfram af bættum fjárhag heimilanna, uppgangi ferðaþjónustunnar og fólksfjölgun.

Lesa má skort á smærri íbúðum á höfuðborgarsvæðinu úr verðþróun eftir stærð íbúða. Fermetraverð íbúða undir 70m2 er að jafnaði 60% hærra en íbúða sem eru stærri en 210m2. Þessi munur á fermetraverði smærri og stærri íbúða hefur þrefaldast síðan íbúðaverð var í hæstu hæðum fyrir efnahagsáfallið.

Lýðfræðileg þróun hefur gert það að verkum að þörf á smáum íbúðum hefur að öllum líkindum aldrei verið meiri en nú. Þá hefur einnig verið byggt hlutfallslega meira af stærri íbúðum frá árinu 2000 sem hefur kynt enn frekar undir skort á smærri íbúðum. Þegar stærðarskipting íbúða í byggingu er skoðuð er jafnframt útlit fyrir að þeirri þróun verði ekki snúið við í bráð. Er því útlit fyrir að smærri íbúðir muni áfram hækka umfram þær stærri á komandi árum. 

Höfundur er sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Stikkorð: Íbúðarverð greining spá
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.