*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Týr
22. nóvember 2020 13:09

Is Iceland open for business?

Huga mætti að því hvernig hægt er að laða að heilu fyrirtækin hingað til lands, ekki bara tekjuháa einstaklinga.

Úr markaðsherferðinni Let it out.
Aðsend mynd

Íslandsstofa mun í lok mánaðarins standa fyrir netráðstefnu um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Titill ráðstefnunnar er Hvernig á að fjárfesta á Íslandi? (e. How to invest in Iceland?). Fjallað verður um alþjóðlega viðskipta- og tollasamninga, skattkerfið og í hverju erlendir aðilar hafa fjárfest í hér á landi.

                                                    ***

Það er vissulega jákvætt að stofnun á borð við Íslandsstofu, hvers rekstur er fjármagnaður af ríkisfjármagni og hluta af tryggingagjaldi, skuli standa fyrir slíkum fundi – enda hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að laða að erlent fjármagn til landsins. Öll erlend fjárfesting skapar störf og verðmæti, stækkar kökuna eins og sagt er og stuðlar að frekari hagvexti. Þá færir erlend fjárfesting aukna reynslu og þekkingu til landsins, fjölbreyttari nálgun og þannig mætti áfram telja.

                                                    ***

Það vakti þó athygli Týs að ekkert verður fjallað um íslenska stjórnkerfið eða íslenska stjórnsýslu á ráðstefnunni. Staðreyndin er sú að Ísland er ekkert sérstaklega aðgengilegt fyrir erlenda fjárfesta eða erlenda aðila sem hér vilja stunda viðskipti. Týr þekkir fjöldamörg dæmi þess að erlendir aðilar hafi sýnt því áhuga að fjárfesta á Íslandi, reisa hér verksmiðjur eða starfstöðvar en hætt við eftir að hafa kannað aðstæður og rekist á stórar hindranir innan íslenska stjórnkerfisins. Það er nógu flókið fyrir Íslendinga að fara í gegnum stjórnsýsluna sem hreyfist á hraða snigilsins.

                                                    ***

Það var ekki til þess að einfalda hlutina þegar Alþingi samþykkti síðastliðið vor frumvarp forsætisráðherra sem takmarkar heimildir um kaup og sölu á jörðum. Frumvarpið felur þannig í sér takmörkun á eignarrétti og var samþykkt án nokkurra mótmæla frá Sjálfstæðisflokknum, sem lengi vel leit á það sem grundvallaratriði að standa vörð um eignarréttinn. Sá erlendi aðili sem vill nú kaupa jörð og reisa hótel þarf að fara á hnjánum til ráðherra og fá til þess sérstakt leyfi, svo alþjóðavædd erum við.

                                                    ***

Nokkrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins kynntu nýlega að til stæði að liðka til við landvistarleyfi og skattaleg úrræði fyrir tekjuháa útlendinga sem hér vilja starfa. Það er jákvætt en Týr á eftir að sjá hversu margir nýta sér þessi liðlegheit stjórnvalda. Næst mætti huga að því hvernig hægt er að laða að heilu fyrirtækin hingað til lands. Á ráðstefnu Íslandsstofu mætti ef til vill svara einfaldri spurningu: Is Iceland open for business? Týr er ekki endilega viss um að svo sé.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.