*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Óðinn
15. september 2020 07:07

Icelandair og fjárfestingakostirnir

Ríkissjóður er versti hugsanlegi fjárfestirinn, því það mun aldrei viðurkenna ósigur. Tæki örfáa mánuði að stofna nýtt félag.

Aðrir ljósmyndarar

Hlutafjárútboð Icelandair hefst á morgun miðvikudag 16. september. Óðinn skynjar mikinn áhuga á útboðinu meðal fjárfesta.

                                                        ***

Auðvitað sýnist sitt hverjum og öllum er ljós sú mikla áhætta sem felst í flugrekstri í venjulegu árferði en í óvenjulegu árferði er áhættan enn meiri. Spurningin er bara sú hvort gengið 1, auk áskriftarréttinda, nægir.

                                                        ***

Vöntun á vöxtum

Allir fjárfestar eiga við sama vandann að etja þessa dagana. Að finna vexti. Þetta hefur snarbreytt viðhorfi fjárfesta til ýmissa fjárfestinga. Það er til að mynda líklegt að margir muni sakna Heimavalla fyrr en seinna þrátt fyrir að félagið hafi vissulega verið vanbúið til skráningar á sínum tíma - aðallega á skuldahliðinni.

Stóru fasteignafélögin þrjú, Reitir, Reginn og Eik, eru ágætis dæmi um góða fjárfestingakosti - en þó ekki fyrr en þau eru búin að útskýra fyrir fjárfestum hver raunveruleg staða þeirra er og framtíðarhorfur.

                                                        ***

Óvissa

Óðinn telur fullvíst að leigutekjur hótela og skrifstofa muni gefa eftir. Ferðaþjónustan mun þurfa tíma til að ná sér og nýting hótela verður ekki eins og hún var fyrir Covid næstu misserin. Gríðarlegt offramboð á skrifstofuhúsnæði af völdum ríkisins mun að öllum líkindum rústa skrifstofumarkaðnum í mörg ár.

Óðinn spáir því að sá hluti atvinnuhúsnæðismarkaðarins muni ekki ná sér fyrr en eftir 5-10 ár. Fjárfestar munu ekki verða rólegir fyrr en þetta kemst á hreint. Þá fyrst munu félögin ná að spyrna sér frá botninum.

                                                        ***

Tvö af þremur þessara félaga ætla að gefa út nýtt hlutafé því þau telja sig sjá tækifæri á markaðnum. Óðinn sér þessi tækifæri ekki enda kaldur vetur framundan í íslensku efnahagslífi. Ef lánveitendur framlengja ekki frystingu lána gætu orðið einhver tækifæri á markaðnum. Það er hins vegar svo að ef húsnæði er í útleigu ætti eigandinn að þola veturinn. Og fasteignafélögin þrjú hafa lítið sem ekkert keypt af óútleigðu húsnæði. Sjáum hvað setur.

                                                        ***

Þessu tengt þá vakti viðtal við forstjóra Reita í Fréttablaðinu í lok ágúst áhuga Óðins. Þar kom fram að stjórnendur hefðu kannað hvort áhugi væri á þátttöku í hlutafjárútboðinu.

„Menn renna kannski ekki alveg blint í sjóinn með það hvort það sé áhugi fyrir þessu. Einhver símtöl og einhver samtöl hafa átt sér stað en þau voru með óformlegum hætti og án skuldbindinga," sagði forstjórinn.

Eru þetta áhugaverð ummæli í því ljósi að hlutabréf félagsins lækkuðu nokkuð í aðdraganda tilkynningar um hlutafjárhækkun. Hverjir fengu símtölin og hverjir seldu?

                                                        ***

Hvað sem þessu líður þá eru fjárfestingakostirnir ekki margir sem stendur, bankarnir eru fullir af peningum og lífeyrissjóðirnir sömuleiðis. Að auki hefur Óðinn enga trú á að lífeyrissjóðir skipti krónum í erlenda mynt á næstunni þótt þeir hafi sagt upp samningi sínum við Seðlabankann - gengi krónunnar mun styrkjast hratt þegar Covid lýkur.

                                                        ***

Lífeyrissjóðirnir stórir

En aftur að Icelandair. Lífeyrissjóðir eiga 42,76% hlutafjár í félaginu samkvæmt lista yfir 20 stærstu eigendur sem gefinn var út á mánudaginn.

                                                        ***

Óðinn öfundar forsvarsmenn lífeyrissjóðanna ekki af stöðunni sem þeir eru í. Ef allt gengur vel þá, og það getur sannarlega gengið vel, þá yrði þetta góð fjárfesting - jafnvel frábær. Ef hins vegar Covid dregst á langinn þá gæti þetta orðið skelfileg fjárfesting og sjóðirnir búnir að henda góðum peningum á eftir slæmum.

                                                        ***

Síðasta haust ræddi Gylfi Magnússon um lífeyrissjóðina. Á Fésbókarsíðu sinni sagði hann í október 2019:

Lykilatriði er auðvitað að velja vel svo að sem oftast verði ávinningur [!] en það er ekki gæfuleg fjárfestingarstefna að taka aldrei áhættu. Þess vegna er eðlilegt, raunar óhjákvæmilegt, að sumar fjárfestingar sjóðanna skili tapi.

                                                        ***

Þetta er grundvallaratriði. Í lífeyrissjóðina verður að veljast fólk sem getur tekið ákvarðanir og fólk sem getur tekið hóflega áhættu. Sú eftiráspeki sem viðhöfð var eftir hrunið var engum til gagns, þó að mikilvægt hafi verið að draga lærdóm af mörgu.

                                                        ***

Það kom Óðni nokkuð á óvart að sami Gylfi Magnússon telji það skynsamlegra að ríkið kaupi hlutabréf í Icelandair en lífeyrissjóðir. Þetta kom fram á málþingi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðuna á flugmarkaði á mánudag.

                                                        ***

Samkvæmt frétt á vb.is sagði Gylfi um útboð Icelandair:

Þetta er gríðarleg áhætta og algjör óvissa hvað kemur út úr þessu.

Þetta er áhætta, á því er ekki nokkur vafi. En er þetta gríðarleg áhætta? Hvernig metur Gylfi það svo? Er ekki rétt að treysta lífeyrissjóðunum til þess að meta þessa áhættu? Þeir hafa undanfarnar vikur og mánuði setið með stjórnendum og ráðgjöfum Icelandair á fundum og farið rækilega yfir rekstur félagsins, skammtímahorfur og langtímahorfur.

Gylfi er enginn sérfræðingur í fjárfestingum og hefur að því er Óðinn best veit aldrei fjárfest svo nokkru nemur. Það er auðvelt að tala um fjárfestingar annarra en erfiðara að fjárfesta sjálfur. Fyrir allt sæmilega innréttað fólk er enn erfiðara að fjárfesta fyrir aðra og þurfa að horfast í augu við þá ef illa fer.

                                                        ***

Ríkið versti eigandinn

Hvernig sem á málið er litið er ríkissjóður versti hugsanlegi fjárfestirinn í Icelandair. Innan stofnana ríkisins er engin þekking á fjárfestingum líkt og hjá stofnanafjárfestum og einkafjárfestum. Það sem er enn verra er að ríkið mun aldrei viðurkenna ósigur.

Mikil hætta er á því að embættismennirnir myndu halda áfram að ausa peningum inn í flugfélagið hversu illa sem gengi enda hafa stjórnvöld sett félagið í flokkinn „kerfislega mikilvægt fyrirtæki". Sem er auðvitað fullkomin della. Það myndi nefnilega taka örfáa mánuði að stofna nýtt flugfélag á grunni þrotabúsins ef illa færi.

                                                        ***

Þar sem landinu hefur verið lokað þá myndi það bara engu máli skipta þó að flugvélar Icelandair væru á jörðu niðri í nokkra mánuði því héðan fer enginn og hingað kemur enginn. Guð blessi Kára Stefánsson og hina svokölluðu ríkisstjórn Íslands.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.