*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Leiðari
24. september 2020 13:52

Útboð Icelandair og VR

Hvurslags stjórnarhættir eru þetta og hvar liggur lýðræðið hjá þessu rótgróna stéttarfélagi?

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Augljóst er að mikil átök hafa verið innan stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair fyrir viku. Sem kunnugt er tók sjóðurinn ekki þátt í útboðinu en upplýst hefur verið að atkvæði innan stjórnar féllu á jöfnu. Fjórir stjórnarmenn vildu taka þátt en fjórir voru því mótfallnir.

VR á fjóra fulltrúa í stjórn sjóðsins. Nú eru það þau Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR en hann er formaður stjórnar, Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR, sem og þau Bjarni Þór Sigurðsson og Helga Ingólfsdóttir, sem jafnframt sitja í stjórn VR. Í stjórn lífeyrissjóðsins sitja einnig Jón Ólafur Halldórsson, tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, Guðný Rósa Þorvarðardóttir, tilnefnd af Félagi atvinnurekenda, Guðrún Hafsteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins að fengnu áliti Samtaka atvinnulífsins og Árni Stefánsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins að fengnu áliti Viðskiptaráðs Íslands.

Upplýst hefur verið, og það á ekki að koma á óvart, að fulltrúar VR kusu á móti því að taka þátt í útboðinu og fulltrúar samtaka atvinnulífsins með. Ástæðan fyrir því að þetta kemur ekki á óvart er að í júlí beindi stjórn VR þeim tilmælum til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í sjóðinn „að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair“. Var þetta vegna framgöngu stjórnenda Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur. Hótaði Ragnar Þór Ingólfssson, formaður VR, því að þeim stjórnarmönnum, sem ekki færu að tilmælunum, yrði skipt út.

Eftir harða gagnrýni voru tilmælin dregin tilbaka en skaðinn skeður. Niðurstaða fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins um að hafna því að taka þátt í útboðinu vekur upp áleitnar spurningar um sjálfstæði og ákvarðanatöku stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og lífeyrissjóða almennt. Í raun vekur hún einnig upp spurningar um lýðræðið. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að horfa rúmlega ár aftur í tímann. Í júní í fyrra taldi stjórn VR að lífeyrissjóðurinn hefði brotið trúnað með því að hækka breytilega vexti á verðtryggðum lánum. Gerðist það á svipuðum tíma og Seðlabankinn hafði lækkað stýrivexti. Í kjölfarið á þessu var öllum fulltrúum VR í stjórn lífeyrissjóðsins skipt út og inn komu starfsmenn á skrifstofu VR og stjórnarmenn VR.

Hvurslags stjórnarhættir eru þetta og hvar liggur lýðræðið hjá þessu rótgróna stéttarfélagi? Miðað við tilmæli stjórnar í sumar vegna hlutfjárútboðsins, útskiptingu stjórnarmanna vegna vaxtahækkana í fyrra og síðast en ekki síst orðræðu formanns VR, virðist lýðræðið hverfast um hans persónu. Ef eitthvað er gert sem honum mislíkar þá hikar hann ekki við að beita sér. Ætli það sé auðveldara að hafa taumhald á stjórnarmönnum lífeyrissjóðsins ef þeir starfa á sömu skrifstofu þú og sitja með þér í stjórn?

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur undanfarin ár lagt aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð við fjárfestingar. Er sjóðurinn aðili að UN-PRI, samtökum á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem og FESTU-Samfélagsábyrgð fyrirtækja. Einhverjir myndu ætla að útfrá samfélagslegri ábyrgð hefði sjóðurinn einmitt átt að taka þátt í hlutafjárútboðinu, þar stór hluti starfsmanna stéttarfélagsins hefur í gegnum árin starfað hjá Icelandair. Sú spurning hlýtur að vakna hvort fulltrúar VR í stjórn lífeyrissjóðsins hafi, með ákvörðun sinni um að hafna þátttöku í útboðinu, beinlínis verði að vinna gegn stórum hluta félagsmanna stéttarfélagsins? Sýndi sjóðurinn samfélagslega ábyrgð með þessari ákvörðun? Hvaða hagsmunir réðu ákvörðun fjórmenninganna um að hafna þátttöku í útboðinu?

„Við fórum í gegnum mjög ítarlega greiningu og fengum til okkar ráðgjafa m.a. til þess. Eftir mjög ítarlega greiningu sáum við að áhættan væri töluverð í þessu og ávöxtunin væri ekki að vega upp þá áhættu sem verið væri að taka,“ sagði Stefán Sveinbjörnsson, stjórnarformaður sjóðsins í viðtali við RÚV á föstudaginn. Fyrst niðurstaðan úr þessari ítarlegu greiningu var svona afgerandi, hvers vegna greiddu einungis fulltrúar VR í stjórn sjóðsins atkvæði gegn því að taka þátt í útboðinu? Afhverju voru fulltrúar samtaka atvinnulífsins ósammála og greiddu atkvæði með þátttöku? Í þessu samhengi má líka benda á að lífeyrissjóðir eru með 3,5% ávöxtunarkröfu. Sú ávöxtun næst ekki með skuldabréfakaupum, það verður að taka einhverja áhættu.

Stefán hefur raunar líka sagt að sjóðurinn hafi tapað 1,3 milljarði króna á því að fjárfesta í Icelandair. Skautar hann þá framhjá 1,5 milljarða arðgreiðslu sem og 2,3 milljarða hagnaði sjóðsins af fjárfestingu í Icelandair í gegnum Framtakssjóð Íslands.

Nýjustu vendingar í málum tengdum lífeyrissjóðum urðu í gærmorgun þegar seðlabankastjóri lýsti áhyggjum af því að stjórnir lífeyrissjóða væru skipaðar hagsmunaaðilum, sem væru að taka ákvarðanir um fjárfestingar, sem að hans mati ættu að vera teknar annarsstaðar. Benti hann jafnframt á að í lífskjarasamningunum væri gert ráð fyrir endurskoðun á lagaumgjörð sjóðanna og telur hann tilefni til þess að ráðist sé í þá vinnu. Ummæli seðlabankastjórans koma alls ekki á óvart því í fyrra sendi Fjármálaeftirlitið, sem nú heyrir undir Seðlabanka Íslands, bréf á lífeyrissjóðina, þar sem fram kom sú skoðun að eftirlitið teldi samþykktir sjóðanna ekki tryggja sjálfstæði stjórnarmanna. Hefur þetta bréf nú verið ítrekað

Í gær lýsti Ragnars Þór, formaður VR, yfir vantrausti á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformann Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Guðrún hefur sagt opinberlega að hún harmi að sjóðurinn hafi ekki tekið þátt í útboðinu og gagnrýndi hún einnig reikningskúnstir stjórnarformanns sjóðsins, sem eins og áður sagði horfði framhjá arðgreiðslum og fleiru þegar hann tjáði sig um fjárfestingu sjóðsins í Icelandair. Nú sakar formaður VR hana um dylgjur og ásakanir í tengslum við málið. Vill hann að fjármálaeftirlitið beiti sér. Líklega verður honum að ósk sinni en kannski ekki alveg á þann hátt sem hann vill.

Við þetta má bæti að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var einnig mótfallinn því að lífeyrissjóðir fjárfestu í Icelandair. Hafði formaðurinn ekki erindi sem erfiði því Gildi tók þátt í útboðinu. Ólíkt VR á Efling einungis tvo fulltrúa af átta í stjórn Gildi. Fulltrúar Eflingar eru Stefán Ólafsson prófessor, sem starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu og Ingibjörg Ólafsdóttir, sviðsstjóri hjá Eflingu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.