*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Þorkell Sigurlaugsson
28. maí 2018 10:01

ICELANDIC aldrei sterkara

Jón Ingvarsson, fyrrverandi stjórnarformaður SH, bar ómaklegar ásakanir á Ásgeir Jónsson hagfræðing í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands og forseti hagfræðideildarinnar, með bókina Framtak við endurreisn.
Haraldur Guðjónsson

Jón Ingvarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH) (1984-1999), skrifar grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku. Þar eru ómaklegar ásakanir bornar á dr. Ásgeir Jónsson, deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, vegna úttektar og sögu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), en Icelandic Group, áður SH kemur þar talsvert við sögu. Lítið er gert úr aðgerðum FSÍ eftir kaup á félaginu 2010 og talað um að sjóðurinn hafi gefist upp á að endurskipuleggja reksturinn og reka félagið sem heildstætt íslenskt félag.

Framtakssjóðurinn fól Ásgeiri að gera úttekt á starfsemi sjóðsins, þegar leið að starfslokum í lok síðasta árs. Hann vann sjálfstætt án afskipta FSÍ að því verkefni. Auðfræðisetur Háskóla Íslands gaf síðan samantekt Ásgeirs út í bók í tengslum við starfslok sjóðsins í apríl s.l.

Jón gerir lítið úr viðtali við Ásgeir í Viðskiptablaðinu þann 15. mars sl. og skrifum Ásgeirs og telur hann hafa lagt heiður og virðingu Háskóla Íslands að veði við gerð þessarar bókar. Þessir sleggjudómar eru Jóni ekki sæmandi og ekki málefnalegt að telja mig og aðra stjórnarmenn hafa óskað eftir gerð þessarar skýrslu til að réttlæta okkar gerðir eftir á.

Ekkert er minnst á Jón Ingvarsson í þessari bók og ekki heldur fjallað um það almennt farsæla tímabil sem Jón var stjórnarformaður SH og Friðrik Pálsson forstjóri, nema aðeins í langtímasamhengi. Það sem fram kemur í bók Ásgeirs er m.a. byggt á umfjöllun í nýrri bók: „Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900-2010“ sem kom út í lok síðasta árs og er rituð af nokkrum sagnfræðingum. Þar segir m.a. að sölusamtökin í sjávarútvegi hafi smám saman misst hlutverk sitt upp úr 1990 í kjölfar þess að útflutningur fiskafurða var gefinn frjáls og frjálst framsal aflakvóta varð til þess sjávarútvegsfyrirtæki urðu færri og stærri – og vildu í því framhaldi sjá sjálf um sín sölumál. Varð það til þess að söluhlutdeild sölusamtakanna minnkaði og þau lentu í einhvers konar tilvistarkreppu þegar kom að aldarlokum.

Eftir aldamót voru uppi deilur um málefni félagsins og það fjarlægðist smátt og smátt upprunalegan tilgang sinn enda var Icelandic Group eftir hlutafjárvæðingu ekki lengur í eigu eða á ábyrgð stærstu viðskiptavina (fiskframleiðenda) félagsins. Þetta var staðan þegar FSÍ kom að félaginu árið 2010, sem var þá fjárhagslega og rekstrarlega illa statt. Nánast engin samlegðaráhrif voru á milli fjölmargra rekstrareininga og enginn áhugi fjárfesta á að kaupa félagið í heilu lagi. Eftir ítarlega skoðun var ákveðið að selja einstaka rekstrareiningar, enda áætlað söluverð þeirra í sitt hvoru lagi talsvert hærra en félagsins í heilu lagi. Var þess ætíð gætt að fara í opið söluferli og áttu þannig íslensk fyrirtæki og þá ekki síst sjávarútvegsfyrirtækin möguleika á að kaupa einstaka einingar.

Jón Ingvarsson talar um að mikið hafi verið um gagnrýni á störf Framtakssjóðsins varðandi málefni Icelandic Group. Ekki varð ég mikið var við það, en það var einkum frá aðilum sem söknuðu fyrri tíma er félagið var alvöru sölusamtök eða álitu að Icelandic vörumerkið hafi verið selt sem er fjarri sanni. Niðurstaðan er sú að Icelandic félögin hafa öll verið keypt að stórum hluta af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum fyrir utan eitt, Seachill í Bretlandi, sem var selt til erlends aðila, án þess að hafa nokkur áhrif hér á landi, enda kaupir það félag lítið sem ekkert sjávarfang frá Íslandi.

Vörumerkið Icelandic stendur sterkt eftir sem þjóðareign og nýtist íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og reyndar fyrirtækjum í öðrum greinum. Sú regla hefur nú verið sett að eingöngu íslenskur fiskur, þ.e. fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum, er seldur undir merki Icelandic og Icelandic Seafood. Stífar gæðakröfur og – eftirlit tryggir sterkari markaðsstöðu og vonandi betra verð.

Jón skrifar þessa ergilegu grein í einhverju óðagoti og ég hef ekki áður kynnst þessari hlið á honum. Ég átti almennt jákvæð samskipti við hann í öll þau tæplega 20 ár sem hann var formaður SH og stjórnarmaður í Eimskip. Á þeim tíma starfaði ég hjá Eimskip og var vissulega var við það hve vel Jón gætti hagsmuna viðskiptavina SH. Ég hef ástæðu til að ætla að Jón hafi ekki lesið bókina og umfjöllun um Icelandic Group í henni, heldur stutta umfjöllun fjölmiðla. Þetta er ágætt tækifæri að vekja athygli á bókinni og sjálfsagt að senda áhugasömum aðilum eintak af henni í póstkröfu, en nokkur eintök eru eftir hjá FSÍ. Einnig má nálgast bókina á rafrænu formi á heimasíðu Auðfræðaseturs á www. audfraedi.is.

Höfundur er stjórnarformaður Icelandic Group ehf. og Framtakssjóðs Íslands hf.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.