Ef janúarmánuður gefur einhver fyrirheit um fréttaárið 2012 þá þurfa fréttafíklar ekki að örvænta. Hvert stórmálið á fætur öðru hefur lagt undir sig netmiðla, fréttatíma og dagblöðin. Mest hefur farið fyrir þarfri umræðu um iðnað af ýmsu tagi.

Hagsmunasamtök hafa einmitt kvartað undan skorti á slíkri umræðu eftir hrun.

Eftir að í ljós kom að nokkrir lýtalæknar notuðust við iðnaðarsílikon til brjóstafyllinga hefur samfélagið logað. Einn læknir er hættur vegna málsins en skýrði sitt mál nokkuð vel í Kastljósi. Fjölmargar konur með iðnaðarpúða ætla í mál. Enn er þó óút kljáð hvort ríkið muni greiða fyrir að fjarlægja púðana. Öll kurl eru því ekki komin til grafar og sílikonið áfram í fjölmiðlunum, nú síðast í vikunni á forsíðu Fréttablaðsins.

Annað iðnaðartengt hefur verið áberandi í umræðunni. Ölgerð Egils Skallagrímssonar hefur flutt inn og selt iðnaðarsalt til íslenskra matvælafyrirtækja í 13 ár. Meðal fyrirtækja sem notuðu saltið voru hin ýmsu bakarí. Þau elska Íslendingar og því gefið að nær allir landsmenn hafa einhvern tímann á síðustu þrettán árum innbyrt iðnaðarsalt.

Munur á iðnaðarsalti annars vegar og vottuðu salti hins vegar er ýmist sagður mikill eða enginn. Margir virðast trúa því að þarna sé á ferð götusalt, nýtilegt af starfsmönnum svæðisstöðva Reykjavíkuborgar.

Engin veikindi hafa verið rakin til saltsins, í þrettán ár.

Feminísk sjónarmið hafa notið sín vel á nýju ári. Emmessís setti á markað tvær nýjar ístegundir, Strákaís og Stelpuís. Kyngreindar matarumbúðir féllu í grýttan jarðveg og Emmess-ís tók ákvörðun um að hætta að selja ísinn. Það er leiðinlegt að ísinn er ekki lengur fáanlegur, en heimildir herma að Stelpuísinn hafi verið fínn.

Pistill Höllu Tryggvadóttur, formanns femínistafélags HÍ, á Vefritinu vakti mikla athygli í mánuðinum. Pistillinn fjallaði um skapaháratísku kvenna. Líkt og alltaf þegar femínisti tjáir sig um femínísk málefni létu viðbrögðin ekki á sér standa. Íslenskir femínistar hafa gert ýmislegt róttækt í gegnum tíðina. Þær ættu að vera enn háværari og fyrirferðarmeiri en þær eru í dag, því það sem á eftir kemur er eitthvað það besta sem völ er á í dægurmálaumræðunni. Að einhverju leyti hlýtur það að vera tilgangurinn.

Það er ekki hægt að biðja um meira en að umræðan snúist um iðnað og stelpur, sérstaklega þegar þetta samtvinnast eins og í einu málinu. Hver nennir að karpa um landsdóm þegar slík mál eru tæk?

Fjölmiðlapistillinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 26. janúar 2012.