*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Týr
6. nóvember 2017 10:04

Íhaldið

Af samsetningu þingsins má heita vonlaust að ríkisstjórn verði mynduð án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.

Haraldur Guðjónsson

Gárungarnir höfðu verið að grínast með það að BDSM-stjórn væri í kortunum, en engan óraði þó fyrir því að Sigmundur Davíð kæmi á Bessastaði með Ingu Sæland bundna og keflaða í skottinu. Týr skal þó ekki útiloka að hann hafi misskilið þessar fréttir af Álftanesi eitthvað, þær voru ekki allar nákvæmar.

Ekki að það þurfi að koma á óvart, fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum eru í eðli sínu einstaklega ónákvæmar og þokukenndar, meira og minna byggðar á umli og svipbrigðum fólks, sem vill sem minnst segja. Sem er ekkert skrýtið, því fæst veit það mikið meira en næsti maður um hvernig úr getur spilast og framtíðin ber í skauti sér. Það myndi hins vegar allt komast upp ef leiðtogarnir skyldu svara of miklu og tala of lengi við fjölmiðlamúginn í forstofunni. Fyrir nú utan hitt, að það gæti truflað viðræðurnar, stuðað makkerana, espað upp andstæðingana, valdið óróleika hjá grasösnum flokkanna og skapað óraunhæfar og villandi væntingar hjá aumingja þjóðinni, sem þarf að lifa við ósköpin.

Svo frekar en ekki fara fjölmiðlungarnir að geta í eyðurnar með mjög misjöfnum árangri. Stundum eru þær vangaveltur alltof litaðar vonum viðkomandi. Nú er vel skiljanlegt að sumir geti ekki hamið sig af tilhlökkun yfir því að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra, en þegar því fylgja lærðar lýsingar á því að það sé nú bara ekkert víst um að það sé erfitt að líma saman sex flokka stjórn og ekkert náttúrulögmál um að þær endist verr en aðrar stjórnir, þá er verið að reyna um of á trúgirni almennings.

Fyrir nú utan hið augljósa: Jafnvel þó svo Sigurður Ingi vildi fara í slíkt feigðarflan, hverjar eru líkurnar á því að Lilja Alfreðsdóttir vilji það? Eða miðstjórn flokksins? Kaupfélagsstjórinn?

Nei, þetta er tómt þvaður, byggt á óljósri óskhyggju um ófyrirsjáanleg tíðindi. Svona álíka ábyggilegt og ódauðlegt dróttkvæði Ingva Hrafns Jónssonar um hurðarhúninn á Höfða forðum tíð.

Af samsetningu þingsins má heita vonlaust að ríkisstjórn verði mynduð án aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Og það er hann sem getur valið um að mynda íhaldssama íhaldsstjórn með Framsóknarflokkunum tveimur og Flokki fólksins eða að mynda róttæka íhaldsstjórn með Vinstri grænum og Framsókn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.