*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
19. janúar 2020 17:34

Íhaldsmaður deyr

Sir Roger Scruton, sennilegast fremsti heimspekingur íhaldsstefnunnar síðan Edmund Burke var og hét, lést síðastliðinn sunnudag.

Sir Roger Scruton var heiðraður fyrir framlag sitt til menningarinnar oftsinnis á sinni ævi, þar á meðal í byrjun desember síðastliðinn en hann lést í byrjun ársins eftir stutta baráttu við krabbamein.
epa

Sir Roger Scruton, sennilegast fremsti heimspekingur íhaldsstefnunnar síðan Edmund Burke var og hét, lést síðastliðinn sunnudag eftir stutta baráttu við krabbamein, 75 ára að aldri. Hann var fæddur í verkalýðsstétt, en í krafti afbragðsgáfna braust hann til mennta og fékk skólastyrk til Cambridgeháskóla. Hann var ekki ýkja pólitískur fyrr en hann varð vitni að stúdentabyltingunni í París 1968, en hann hryllti svo við upplausninni og niðurrifinu að hann varð bjargfastur íhaldsmaður það sem eftir var.

* * *

Hann orðaði það síðar svo að í sínum huga væri íhaldssemi reist á skoðun sem öllu þroskuðu fólki væri af reynslunni ljós: að það er auðvelt að brjóta og eyðileggja það sem er gott og nytsamlegt, en að það væri mikill vandi að búa það til og láta það standa.

* * *

Scruton var fátt óviðkomandi og eftir hann liggur ógrynni ritverka, sem flest eiga það sameiginlegt að vera aðgengileg leikum sem lærðum. Hann fjallaði um allt frá fegurð lífsins til unaðs ástarinnar, frá arkitektúrs til tónlistar, frá víndrykkju til frelsis andans, en flest laut það að því að rækta hið góða í manninum, að halda í það sem vel reyndist en leita nýrra leiða um hitt og njóta þeirrar gjafar sem lífið er.

* * *

Íhaldssamir hugsuðir hafa flestir dálæti á frjálsum markaði og Scruton var hrifinn af hinni ósýnilegu hönd Adams Smith og hinni sjálfsprottnu reglu Friedrichs von Hayek. En hann varaði við því að menn litu á markaðsvirðið eitt og sagði traust skipta meiru máli en eignarhald í samfélagi manna. Eins hefðu markaðir takmarkað hlutverk í menntun, menningu, trú, hjónabandi eða fjölskyldu, sem íhaldsmönnum væri umhugað um. „Það fæst ekki með því að kaupa og selja, heldur með því að ala önn fyrir því sem ekki verður keypt og selt: ást, tryggð, list og þekkingu, sem eru ekki leiðir að markmiðum, heldur markmið í sjálfum sér.“

* * *

Scruton var spurður að því hvernig stæði þá á því að mönnum kæmi svona illa saman og hinar pólitísku skotgrafir aldrei dýpri. „Vinstrafólk á mjög erfitt með að láta sér lynda við hægrisinnað fólk, af því að það heldur að það sé illt í eðli sínu. Ég á aftur í engum vandræðum með að umgangast vinstrisinnað fólk, af því ég held aðeins að því skjátlist.“

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.