*

mánudagur, 25. október 2021
Pétur Gunnarsson
2. desember 2016 11:37

Illskilgreinanlegur popúlismi

Hvað er popúlismi og hvað er ekki popúlismi? Það er spurningin.

Sumir hafa kallað Donald Trump popúlista.
epa

Skilgreiningarvandi virðist sumpart hafa einkennt fjölmiðlun á síðustu misserum, sér í lagi þegar að kemur umfjöllun á svokölluðum „popúlistum.“ Það er hugtakið sem hefur farið oftast forgörðum að mínu mati í íslenskri þjóðfélagsumræðu. Það er ekki einfaldlega hægt að skella þeim stimpli á þann sem er ósammála þér — eða er „vondur.“ En hins vegar er hægt að mynda vel skilgreint hugtak og nota það. Þar geta til að mynda fræðin hjálpa.

Áður en lengra er haldið verð ég samt að viðurkenna eitt— ég er stjórnmálafræðingur og fjölmiðlamaður. Aðhlátursefni alheimsins eftir að allar skoðanakannanir og greiningar misstu marks í kjölfar forsetakosninga í Bandaríkjunum og útgöngu Breta úr ESB. En ég ætla samt að reyna að halda áfram að gera gagn og stíga mín fyrstu skref í átt að því að reyna að bæta fyrir vanmat og mistök kollega minna. Fyrir þá sem eru áhugasamir ætla ég að reyna í mjög stuttu máli að skilgreina popúlisma. Hann skiptir máli, vegna þess að hann er á hraðri leið að verða birtingarmynd þess hvernig við nálgumst stjórnmál.

Sú skilgreining á popúlisma sem hefur notið hvað mestrar hylli er skilgreining Cas Mudde, hollensks stjórnmálafræðings, sem skilgreinir popúlisma í sinni víðustu mynd sem; Hugmyndafræði þar sem að þjóðfélagið skiptast í tvo einsleita hópa sem séu í andstöðu hvorn við annan: „Hinn saklausi almenningur“ gegn „hinni spilltu valdaklíku.“ Það hlýtur að klingja bjöllum lesenda. Þar er „kjarni þjóðfélagsins“ sem rís upp gegn spilltum elítuklíkum - sem gætu til að mynda verið fjármálaelítur, menntaelítur og jafnvel bara blaðamenn.

Svo geta popúlistar bæði verið til vinstri, hægri eða jafnvel á miðjunni. Það er ekkert neikvætt í sjálfu sér að vera á móti spilltri elítu. En þó er hægt að færa rök fyrir því að slíkur málflutningur dregur úr lögmæti stofnanna sem lagt hefur verið mikil vinna í að fínstilla. En aftur að skilgreiningavandanum. Það er til að mynda ekki hægt að kalla einhvern popúlista fyrir að vera öfga-hægrimaður eða fyrir að vera sósíalisti. Fólk getur vissulega verið öfgahægrimenn eða vinstrimenn og popúlistar. En það er ekki sjálfgefið.

Ágætis dæmi um umfjöllun um popúlista er að finna í forsetakosningunum vestanhafs og í aðdraganda Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Þar var hægt að heyra skilmerkilega, Donald Trump og Nigel Farage ýta undir andúð á spilltum elítum, blaðamönnum og menntaelítu, sem að voru öll í einhvers konar samkurli.

Hér á landi hefur umræðan oft snúist um andúð á „fjórflokknum,“ sem að Vilmundur Gylfason heitinn, þingmaður Bandalags jafnaðarmanna skilgreindi á níunda áratugnum. Grasrót Pírata hefur verið hvað ötulust í andúð á ríkjandi valdastrúktúr og hinni spilltu elítu, þó að beri nokkuð á þeirri umræðu annars staðar. Það er í sjálfum sér ekki endilega merki um hvað sé rétt eða rangt í þeirri umræðu. En mér, sem stjórnmálafræðingi, brennur það helst á hjarta að hugtök sem notuð eru í umræðunni séu skýr, rétt skilgreind og rétt notuð. Ekki bara níðyrði um þá sem eru ósammála þér.

Stikkorð: pistill skilgreining Popúlismi
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.