*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Leiðari
9. ágúst 2018 13:50

Innanlandsflug í lausu lofti

Það er eitthvað bogið við innanlandsflugið sem réttlætir ekki að skattgreiðendur séu látnir ausa æ meira fé til þess.

Haraldur Guðjónsson

Ferðamannabyltingin hefur haft gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf á undanförnum árum og sumir segja að áhrifin séu í raun ekki minni á þjóðlífið, bæði til góðs og ills. Þegar horft er til einstakra þátta greina menn margvísleg áhrif, róma veitingahúsaflóruna en sýta að mestöll fjölgun íbúða í höfuðborginni hafi orðið til þess að skjóta þaki yfir viðskiptavini Airbnb fremur en þá sem hér búa að staðaldri. Víða um land hefur orðið mikil atvinnuuppbygging í kringum ferðamennsku, en að sama skapi hefur átroðningur landsins vakið réttmætar áhyggjur.

Hvað ferðaiðnaðinn sjálfan áhrærir hafa einnig vaknað ýmsar spurningar. Stefnumótun og stýring á þeim vettvangi hefur um margt verið handahófskennd og iðulega einkennst af viðbrögðum við orðnum hlut. Nýlegar fréttir af afkomu Icelandair hafa veikt tiltrú á stjórnarhættina þar, gagnrýni á Isavia þekkja allir, horfur um olíuverð vekja ugg og tölfræði um fjölda ferðamanna bendir til þess að vöxtur síðastliðinna ára sé liðin tíð.

Það er þó ástæðulaust að fyllast skelfingu um það. Ferðamönnum er enn að fjölga, þótt vöxturinn sé ekki sá sami. Eins er rétt að hafa í huga að vöxtur ferðageirans á undanförnum árum var sennilega skjótari en ákjósanlegt væri, kappið kappnóg en forsjáin oft minni. Nú þegar hægist um munu vafalaust eiga sér stað ýmsar leiðréttingar, sumar vafalaust sársaukafullar en flestar nauðsynlegar. Um leið er kjörið tækifæri til þess að fara yfir stöðuna og marka stefnuna, huga að gæðum ekki síður en magni, hagræða og búa í haginn.

Líkt og fram kemur í úttekt um innanlandsflug í blaðinu í dag er það einn þeirra þátta, sem verður að gefa betri gaum. Þrátt fyrir gegndarlausa fjölgun erlendra ferðamanna hafa þeir ekki skilað sér í sama mæli í innanlandsflug. Það munar vissulega um þá, því þeir eru nú um 10-20% farþega í innanlandsflugi. Þrátt fyrir það var fjöldi farþega í innanlandsflugi á fyrri hluta ársins undir meðaltali aldarinnar.

Flugvélarnar eru litlar og fáir með hverju flugi, svo þau eru mun óhagkvæmari en millilandaflugið, þrátt fyrir verulegar niðurgreiðslur. Það segir sína sögu að launakostnaður getur numið allt að 60% af tekjum í innanlandsflugi, samanborið við um 30% í millilandaflugi, sem þó er með því hæsta sem gerist í heiminum.

Nú þegar dregur úr fjölgun ferðamanna hefur orðið samdráttur í innanlandsfluginu. Meðal hagsmunaaðila og stjórnmálamanna heyrast þær hugmyndir helstar að auka framlög skattgreiðenda til innanlandsflugsins. Það kann að vera hin auðvelda leið, en það er ekki þar með sagt að það sé eina leiðin, hvað þá hin rétta.

Það blasir við að það er eitthvað bogið við innanlandsflugið, þegar það er ekki beysnara en raun ber vitni eftir ferðamannabylgju undanfarinna ára. Það á sér að ýmsu leyti augljósar skýringar í fámennu og strjálbýlu landi, en það réttlætir ekki að skattgreiðendur séu látnir ausa æ meira fé til þess að halda fargjöldum almennra ferðamanna niðri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.