Heimildin, nýr fjölmiðill sem varð til með sameiningu vefmiðilsins Kjarnans og Stundarinnar leit dagsins ljós föstudaginn fyrir rúmri viku. Í fyrsta leiðara hins sameiginlega miðils státa leiðarahöfundar sig af því að samanlögð reynsla ritstjórnar blaðsins sé tæplega tvö hundruð ár. Þetta er frumleg framsetning og minnir um margt þegar lítið íslenskt verðbréfafyrirtæki státaði sig af því að starfsmenn þess hefðu samanlagt um sjö hundruð ára starfsreynslu á fjármálamörkuðum. Með öðrum orðum mátti skilja af þessu að íslensk verðbréfasjoppa hafði verið í nokkur hundruð ár áður en fyrsti meðlimur Rothschild-fjölskyldunnar fór að láta til sín taka á fjármálamarkaði.

En hvað um það. Nýr miðill fékk óskipta athygli Ríkisútvarpsins. Á föstudag mættu ritstjórar blaðsins, þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Þórður Snær Júlíusson, í morgunútvarp Rásar 2 til að fara yfir fréttir vikunnar. Ingibjörg var svo aftur mætt upp í Efstaleiti daginn eftir þegar hún var gestur í Vikulokunum á Rás 1. Það var hún einnig fyrir nokkrum vikum síðan.

Athygli vakti í fréttayfirferð ritstjóranna að Þórður Snær lét í veðri vaka að lítil viðskipti með bréf Íslandsbanka dagana fyrir útboð Bankasýslunnar væru tortryggileg og til skoðunar hjá FME. Tilefnið af þessari umræðu var tilkynning sem Íslandsbanki sendi frá sér í síðustu viku um að sáttaferli væri hafið á milli bankans og Fjármálaeftirlitsins vegna athugasemda eftirlitsins vegna útboðsins í mars. Eins og fram kemur í reglum um heimildir FME er hægt að ljúka málum með sátt ef brotin eru ekki meiriháttar og framin með sérstaklega vítaverðum hætti.

Vissulega kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um síðasta útboð Íslandsbanka að viðskipti með bréf bankans hafi nánast þornað upp síðustu dagana fyrir útboðið. Ríkisendurskoðun benti FME á þessa staðreynd í haust. Vissulega er auðvelt að setja þetta í tortryggilegt samhengi. Eigi að síður verður að halda til haga staðreyndum á borð við þá að FME hlýtur að hafa betri yfirsýn en eftirlitsstofnun á vegum Alþingis yfir hlutabréfaviðskipti og möguleg brot á innherjareglum.

Einnig verður að halda til haga þeirri staðreynd að föstudaginn fyrir útboðið birti fjármálaráðuneytið tilkynningu um að ráðherra hefði samþykkt tillögu Bankasýslunnar um söluferlið. Þar með var á allra vitorði að salan væri yfirvofandi. Á mánudeginum hefur svo Bankasýslan þreifingar á markaði. Þær leiddu meðal annars til að 26 fjárfestar fengu aðgang að innherjaupplýsingum um Íslandsbanka og gátu því ekki átt í viðskiptum með hlutabréf hans. Í þessum hópi voru stærstu lífeyrissjóðir landsins. Það liggur í augum uppi að þegar slíkum aðilum er skylt að standa á hliðarlínunni þá hafi það áhrif á veltu bréfanna.

Nú er ekkert vitað um hvað athugasemdir FME hefur gert varðandi framgöngu Íslandsbanka og mögulega annarra þátttakenda í útboðinu. En sjálfsagt er að hafa ofangreint í huga ef menn ætla að leiða líkum að því að innherjasvik hafi átt sér stað síðustu dagana fyrir útboðið.

***

Fréttablaðið og flugfélagið Play ýttu úr vör auglýsingaleik síðastliðinn laugardag. Ekkert er athugavert við það. Sumir segja að þetta sé skemmtilegasti auglýsingaleikur síðan Tvíhöfði var með töskuleikinn eftirminnilega sumarið 2017.

Hvað um það. Leikurinn gengur út á að lesendur reyna að finna eina mynd af flugvél Play sem hefur verið klippt inn í ritstjórnarefni í hverju blaði sem gefið verður út næstu fjórar vikur. Ljóst má vera að leikurinn gangi ansi nærri því að rjúfa mörk á milli kynningarefni og ritstjórnarefnis. Einnig er útfærslan til þess að fallin að rugla lesendur í ríminu – sérstaklega þá sem ekki eru meðvitaðir um leikinn.

Þannig las sá sem þetta skrifar viðtal við Sunnu Gunnlaugsdóttur sem stendur fyrir djasshátíðinni Freyjufest í helgarblaði Fréttablaðsins. Klóraði hann sér lengi kollinum af hverju mynd af flugvél Play hefði verið klippt inn í viðtalið. Vafalaust á það sama við um marga þá sem lásu viðtal við Sigríði Svölu Másdóttir í þriðjudagsblaðinu um björgun hennar á önd í neyð.

Einnig verður að teljast sérstakt að í sama blaði á síðu tvö var að finna „frétt“ um mikinn áhuga lesenda blaðsins á leiknum. Vísaði svo fréttin á auglýsingu frá Play í blaðinu um leikinn.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 19. janúar 2023.