Innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur skekið Vesturlönd enda minnir hún um margt á hildarleikinn í Evrópu um miðja síðustu öld. Hverjar sem afleiðingar hins grímulausa landvinningahernaðar valdaherra Í Kreml á endanum verða er öllum ljóst á þessari stundu að þær munu marka djúp spor í alþjóðamál samtímans.

Þess sjást nú þegar merki á stjórnmálum hér á landi að stjórnmálamenn leita að tækifærum til þess að nýta sér hildarleikinn í austri til að skerpa á vígstöðu sinni. Þannig sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á vorfundi flokkstjórnarinnar að innrásin gæfi fullt tilefni til að setja aðild Íslands að Evrópusambandinu á dagskrá íslenskra stjórnmála. Orðrétt sagði Logi:

„Við Íslendingar njótum þess að tilheyra varnarbandalagi Atlandshafsbandalagsins en það nægir ekki eitt og sér. Í ljósi þess að Evrópusambandið hefur tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, er enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerist fullgildur aðili í þessu samstarfi lýðræðisríkja. Það verður að endurnýja samfélagslega umræðu um aðild að sambandinu en einnig skerpa málflutning innan okkar eigin raða. Um er að ræða grundvallarhagsmuni þjóðarinnar og það er tími til kominn að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu aftur rækilega á dagskrá."

Orð Loga féllu nokkrum dögum eftir að ný skoðanakönnun Gallup sýndi óvænta aukningu á hlutfalli þeirra sem eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu.Þrátt fyrir að innrásin muni vafalaust hafa mikil áhrif breytir hún ekki þeirri staðreynd að sjálfstæð ríki Evrópu hafa lítið til Evrópusambandsins að sækja þegar kemur að varnar- og öryggismálum. Öryggistryggingin fæst með aðild að Atlantshafsbandalaginu eins og reynsla Íslendinga og annarra NATOríkja sem eru staðsett á fyrrverandi áhrifasvæðum Rússa sýnir glögglega.

Eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti á fyrir nokkrum dögum hefur jafnframt ekkert breyst í hinum efnahagslega veruleika sem setur aðild að Evrópusambandinu á dagskrá. Efnahagslegum hagsmunum Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Sjálfstæð peningamálastefna sannaði gildi sitt þegar fjármálakreppan reið yfir og gagnast Íslendingum vel í dag miðað við þá alvarlegu galla sem fylgja aðild að hinni sameiginlegu mynt. Í raun er það svo að staða íslenskra efnahagsmála hefur aldrei verið jafn sterk og nú og þar af leiðandi eru engin haldbær hagfræðileg rök fyrir aðild að Evrópusambandinu sem eiga við í dag.

Velta má fyrir sér hvort þeir stjórnmálamenn sem telja að framganga Evrópusambandsríkja í aðdraganda og eftirmálum innrásar rússneskrar stjórnvalda setji aðildarviðræður á dagskrá hér á landi fylgist nægilega vel með gangi mála. Stund Evrópu rann ekki upp við innrásina, ekki frekar en hún gerði snemma á tíunda áratug síðustu aldar við upphaf borgarastyrjaldarinnar í Júgóslavíu, svo vitnað sé til frægra orða Jacques Poos, utanríkisráðherra Lúxemborgar, frá þeim tíma. Enn og aftur hefur innrásin afhjúpað veikleika vegna gjörólíks hagsmunamats einstakra aðildarríkja Evrópusambandsins annars vegar og sambandsins sjálfs og Bandaríkjamanna hins vegar.

Þannig hefur Evrópusambandið ekki vilja fylgja tillögu bandarískra stjórnvalda um algjört bann á innflutningi á olíu frá Rússlandi. Um væri að ræða þungbært högg á rússneska hagkerfið ef samstaða um bannið myndi raungerast. Fleiri dæmi mætti tína til um samstöðuleysi Evrópuþjóða í aðdraganda innrásarinnar. Þannig neituðu þýsk stjórnvöld að senda hergögn til Úkraínu vegna liðssafnaðar rússneska hersins á landamærunum í desember. Og þegar bresk stjórnvöld brugðust við kallinu meinuðu stjórnvöld í Berlín breskum flutningavélum á leið til Úkraínu að fljúga yfir þýska lofthelgi. Þegar Evrópusambandið, Bretland og Bandaríkin voru að koma sér saman um enn harðari efnahagsþvinganir gagnvart Rússum í febrúarlok reyndu ítalskir og belgískir ráðamenn að fá undanþágu fyrir útflutning á tískuvörum, demöntum og öðrum lúxusvarningi til Rússlands.

Innrás Vladimír Pútíns, forseta Rússlands, inn í fullvalda ríki á meginlandi Evrópu hefur vissulega leitt til meiri samstöðu meðal ríkja Evrópu og Bandaríkjanna en þekkst hefur um langa hríð. Augljóst er að þær þvingunaraðgerðir sem nú þegar gripið hefur verið til munu leiða til þess að rússneska þjóðin greiðir dýru verði fyrir innrásina hvernig svo sem þessi nöturlega atburðaás verður til lykta leidd. En staðreyndin sem blasir við er eigi að síður sú að það eru bandarísk stjórnvöld og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sem hafa verið leiðandi þegar kemur að því að beita rússnesk stjórnvöld þrýstingi og styðja við hetjulega baráttu Úkraínumanna gegn innrásarhernum. Þvingunaraðgerðirnar myndu vera harðari og stuðningurinn við Úkraínu meiri ef samstaðan meðal aðildarríkja Evrópusambandsins væri meiri en raun ber vitni.