*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Anna Sif Jónsdóttir
4. júní 2020 15:25

Innri endurskoðun í ríkisstofnunum

Nú væri gott að hafa innri endurskoðun í ríkisstofnunum, er það ekki?

Aðrir ljósmyndarar

Öll fyrirtæki búa við ákveðið skipulag, kassinn er gerður upp í lok dags, húsnæði eru aðgangsstýrð, birgðatalningar fara reglulega fram og fleira. Í mörgum fyrirtækjum má svo finna gæða- og öryggisstjóra sem hafa það hlutverk að sjá til þess að framlína þess vinni með sem bestum hætti. Allir þessir aðilar eru hluti af daglegu ferli fyrirtækisins en innri endurskoðun er það ekki. Það eru aðilar sem þekkja hvernig eftirlit á að virka, þekkja innviði vinnustaðar síns og síðast en ekki síst, eru ekki hluti af daglegri starfsemi og geta því skapað svigrúm fyrir ný mikilvæg verkefni. 

Stjórnvöld hafa frá því í mars 2020 sett fram mótvægisaðgerðir vegna Covid-19 en margar þessara aðgerða kosta ríkissjóð mikla fjármuni, eins og til dæmis hlutabótaúrræðið, frestanir eindaga og ýmis konar lánaleiðir.

Þau fyrirtæki sem nýta sér þessi úrræði skuldbinda sig til að undirgangast eftirlit en hins vegar hefur lítið heyrst af því hvernig eftirlit sé útfært. Þær stofnanir sem hafa tekið að sér að sjá um þessi úrræði eru mörg hver á haus að sinna nýjum verkefnum og hafa, skiljanlega, ekki bolmagn til að forma eftirlit með greiðslum. Heyrst hefur að til standi að forma eftir á eftirlit með haustinu og þá, mögulega, krefjast endurgreiðslu fjármuna en fyrirbyggjandi samtímaeftirlit væri örugglega betri og skilvirkari kostur. 

Ef innri endurskoðun væri til staðar væri það aðili sem hefði getað tekið að sér ráðgjöf og jafnvel tímabundið stjórn við útfærslu og innleiðingu eftirlits með úrræðum og mótvægisaðgerðum sem eru að kosta Ríkissjóð gríðarlega fjármuni. 

Lög um opinber fjármál voru sett árið 2015 en markmið þeirra er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Í 65. gr. laganna kemur fram að að ríkisstofnanir eigi að láta framkvæma innri endurskoðun hjá sér á grundvelli reglugerðar en reglugerðin hefur enn ekki verið skrifuð og því hefur innri endurskoðun ekki verið innleidd. Rifjum upp að þessi lög eru frá árinu 2015. Margir virðast halda að ríkisendurskoðun sinni þessu hlutverki en svo er ekki, hún sinnir fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun en innri endurskoðun tekur á öðrum þáttum, þ.e. virkni eftirlitsþátta í rekstri, áhættustýringu og stjórnarháttum.

Það hefur margsannað sig að það hefur reynst vel að hafa innri endurskoðun til staðar í fyrirtækjum og stofnunum. Mörg dæmi eru frá fjármálafyrirtækjum auk þess sem vinna innri endurskoðunar hjá Reykjavíkurborg hefur verið mikilvægur og góður farvegur rýni á borgarkerfið. Það sætir í raun furðu að ákveðnar stofnanir Ríkisins sem fara með stóran hluta almannafjár í sínum rekstri hafi ekki eigin innri endurskoðanda. Yfir 60% af heildarfjárheimildum ríkissjóðs er varið til velferðar-, heilbrigðis og menntamála. Eðlilegt væri að þær stofnanir sem falla þar undir væru hver með sinn innri endurskoðanda.

Höfundur er innri endurskoðandi Kviku banka.

Stikkorð: Anna Jónsdóttir Sif
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.