Efling alþjóðlegra hugvitsdrifinna atvinnuvega er að flestra mati lykilatriði í að viðhalda lífsgæðum okkar til framtíðar. Þeir atvinnuvegir byggja á hugviti, alþjóðaviðskiptum og þekkingu sérhæfðs starfsfólks, frekar en takmörkuðum auðlindum. Markviss uppbygging þeirra þarfnast öflugs vistkerfis nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs , en þar gegna skólar og rannsóknarstofnanir, frumkvöðlar og fjármagn lykilhlutverkum.

Á Íslandi eru starfræktir nokkrir vísisjóðir (e. Venture Capital Funds ), en hlutverk þeirra er að fjármagna áhættusama, en hlutfallslega ódýra, frumkvöðlastarfsemi sem byggir á hugviti. Slíkir sjóðir eru vel þekktir og eru burðarbiti í alþjóðageiranum víða þar sem vel hefur tekist til. Stofnun einstakra sjóða er þó ekki nóg til að byggja upp umhverfi sem elur reglulega af sér ný fyrirtæki.

Vísifjármagn snýst nefnilega um meira en innistæðu í banka. Með aðkomu vísifjárfesta fylgir þekking á rekstri og þróun, og ekki síður tengingar inn í aðra, stærri og sérhæfðari fjárfesta erlendis sem styðja fyrirtækin á síðari stigum vaxtar. Þessa reynslu og tengslanet er gríðarlega mikilvægt fyrir Ísland að byggja upp til að auka samkeppnishæfni og farsæld fyrirtækjanna okkar.

Uppbygging vísisjóðaumhverfis hefur reynst okkur erfitt

Fjórum íslenskum vísisjóðum var komið á fót á undanförnum árum; 2015 (Frumtak II , Eyrir Sprotar og Brunnur) og 2017 ( Crowberry Capital ). Þar sem vísisjóðir fjárfesta yfirleitt í um fimm ár áður en þeir fara í þann ham að fylgja fjárfestingum eftir, er ljóst að á næstu tveimur árum mun koma í ljós hvort þessi atlaga að því að koma á fót umhverfi fyrir fjárfestingar í nýsköpun muni heppnast.

Þetta hefur verið reynt áður. Frumtak, sem fjárfesti meðal annars í Meniga , Völku og Data - Market , var stofnaður í lok 2008 fyrir tilstilli ríkis, lífeyrissjóða og atvinnulífs. Frumtak var fullfjárfestur árið 2012 og því liðu þrjú ár þar á milli þar sem fjármagn til nýsköpunardrifins frumkvöðlastarfs var lítið sem ekkert á Íslandi.

Fyrir tíma Frumtaks, voru stofnaðir nokkrir sjóðir, t.d. Brú I og II fyrir hrun, og aðrir í kringum aldamótin (í kringum „ Dot - Com “ bóluna frægu). Það sem hefur ekki tekist – hingað til – er að tryggja samfellu í fjármögnun vísisjóða. Að hér verði til sjálfbært og samfellt fjármögnunarumhverfi fyrir nýsköpunardrifin frumkvöðlaverkefni . Góðar hugmyndir og kjarkmiklir frumkvöðlar tímasetja áform sín ekki eftir hagsveiflum, og því mætti lýsa samfelldu fjármögnunarumhverfi sem hluta af grunninnviðum við uppbyggingu hugvitsdrifinna atvinnuvega.

Uppbygging innviða fyrir frumkvöðlastarf

Hvert hlutverk ríkisins er í uppbyggingu atvinnuvega er pólitískt málefni. Í nýútkominni nýsköpunarstefnu fyrir Ísland eru skilaboðin nokkuð ljós: að ríkið eigi að byggja upp innviði og umhverfi, frekar en að vera beinn þátttakandi. Umhverfið eigi að auka líkur á því að hugmyndir einstaklinga verði að veruleika.

Í lok nóvember viku kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, áform um stofnun Kríu, hvata vísifjárfestinga. Í grófum dráttum snúast áformin um að ríkið fjárfesti yfir nokkurra ára tímabil í vísisjóðum til móts við einkafjárfesta. Þannig stuðli ríkið að uppbyggingu vísisjóða og fjármögnunarumhverfi fyrir nýsköpun í samstarfi við markaðinn.

Þessi aðferð er vel þekkt á alþjóðavísu. Hvort sem litið er til Danmerkur eða Finnlands, Hollands eða Ísrael, hafa stjórnvöld ákveðið að byggja upp aðgengi að vísifjármagni með því að auðvelda stofnun slíkra sjóða.

Aðgerð nýsköpunarráðherra, sem er ein stærsta nýlega aðgerðin til uppbyggingar á öflugu umhverfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs , styður því vel við þessa stefnu. Að ríkið tryggi umhverfi og innviði. Stofnun Kríu er því mikilvæg fyrir okkur öll.

Höfundur er stofnandi Northstack , sem fjallar um og greinir málefni nýsköpunar, sprota og vísifjármögnunar.