Sveinbjörn Indriðason og félagar hans í Isavia standa í ströngu þessa daga. Barnum Loksins í Leifsstöð verður lokað, sem og veitingastöðunum Nord og Joe & the Juice.

Leitar Isavia nú að arftökum því rekstur tveggja veitingastaða hefur nú verið boðinn út. Hrafnarnir lásu útboðslýsinguna og stöðvuðu við tvennt. Í fyrsta lagi þá eiga veitingastaðirnir að vera ólíkir en reknir af sama rekstraraðila. Annar þeirra á að vera stór og ná til breiðs hóps af fólki, bæði þeirra sem eru að flýta sér sem og þeirra sem hafa lengri tíma. Hinn staðurinn verður smærri og á að bjóða upp á afslappaða stemningu og „skandinavíska matargerð". Með kröfu um að sami rekstraraðilinn reki báða staðina er augljóslega búið að útiloka smærri rekstraraðila frá þátttöku. Og hvers vegna er einhver hjá Isavia búinn að ákveða að „skandinavísk matargerð" sé málið í dag og hvað flokkast sem „skandinavísk matargerð?" Opinbert fyrirtæki eins og Isavia á auðvitað að halda opið útboð án skilyrða um tegund matargerðar.