Það er orðinn næstum því daglegur viðburður að maður heyri í stjórnmálamönnum segjast vilja "lifa með veirunni" og að þjóðin eigi bara að sætta sig við að langflestir smitist. Sígríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. dómsmálaráðherra, hafði á orði á  Twitter að „ Ríkisstjórnin er staðráðin í því að draga á langinn þennan faraldur " með sóttvarnaraðgerðum og að það liggi „ fleiri inni vegna rafskútuslysa en Covid ".

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi dómsmálaráðherra, sagði „ Á meðan við sjáum að innlögnum sé ekki að fjölga með því, að veikindi séu ekki að fylgja því, og bólusetningin sé að varna því að þá myndi ég ekki telja þörf á [að herða aðgerðir - innsk. höf.]"  Margir flokkar hafa byrjað að nota orðtakið „að lifa með veirunni" - til dæmis, Viðreisn . Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar líka um „að lifa með veirunni" í grein sem heitir „Í átt að daglegu lífi án takmarkana". Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur líka endurtekið þetta hugtak - „ Ef þróunin verður áfram svona, 97 prósent með nær engin einkenni, þá sé ég ekki rök fyrir takmörkunum ."

Það virðist vera svo að um meinlegan misskilning sé hér að ræða, og ekki aðeins vegna þess að „Það þurfa ekki nema eitt til tvö pró­sent að fá al­var­leg veik­indi í kjöl­far sýk­ing­ar og ef við fáum mjög mikla út­breiðslu á smit­um, þá er þetta tölu­verður fjöldi sem verður fyr­ir þess­um al­var­legu veik­ind­um" eins og Þórólfur Guðnasson benti á .  Misskilningurinn snýst um tímabilið frá því að einstaklingur sýkist og svo þegar sjúkdómurinn verður alvarlegur.

Fyrir utan að misskilja það hversu mörg „græn smit" yrðu að gulum smitum, rauðum smitum og þaðan af verra, er um annan misskilning að ræða þegar sagt er að grænt þýði annað hvort einkennalaus eða „nær einkennalaus", eins og Örn Arnarson fullyrti í Viðskiptablaðinu um daginn. Samkvæmt Landspítalanum : „Það að einstaklingur sé á grænu þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé einkennalaus heldur getur hann verið með ýmis einkenni en vegna aldurs, fyrra heilsufars, áhættuþátta o.s.frv. getur hann stigast grænn með litla, meðal, eða mikla áhættu á að þróa frekari veikindi."

Þetta samsvarar frekar skilgreiningunum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC), þar sem „vægt smit" er skilgreint sem svo að sjúklingurinn sé ekki með lungnabólgu né of lága súrefnisupptöku, og svo frá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna (NIH), þar sem COVID 19-smit er talið vera „vægt" ef sjúklingurinn á ekki erfitt með að anda né líti geislamyndir hans óeðlilega út.

En hvað þýðir þetta í rauninni? Til að skilja það betur eigum við að horfa til algjörlega óskyldrar veiru sem berst í menn frá móskítóflugum í hitabeltislöndum: Chikungunya-víruss.

Það geta oft liðið nokkrir áratugir á milli Chikungunya-faraldra, og smitið var fremur sjaldgæft fyrir 2004 og því illa rannsakað. Þegar faraldur byrjaði að geisa 2004 var fyrst um sinn ekki miklar áhyggjur viðraðar af þeim faraldri. Aðeins 0,1% sem smitast láta lífið, miðað við rúmlega 0,7% af COVID-19 sjúklingum fyrir tilkomu Delta-afbrigðisins (og mögulega hærra hlutfall núna vegna þess). Stundum deyja ungbörn af völdum Chikungunya-smits, en oftast eru þeir sem deyja gamlir og veikir. Oftast fær maður hita, útbrot, verki í liðamótum, þreytu, o.fl., sem endist í 3-10 daga.  Að miklu leyti virðist veiran ekki vera alvarlegri en slæm árleg flensa. Langflestir myndu flokkast sem „grænir" samkvæmt skilgreiningum Landspítalans.

En það sem gerist eftir á er alls ekki eins og inflúensa. Stórt hlutfall þeirra sem smitast lenda í langvarandi veikindum, þar sem þeir fá viðvarandi verki, og jafnvel gigt, sem endast í mörg ár. Þessi veikindi hafa ekki aðeins mjög slæm áhrif á lífsgæði, heldur er ástand sjúklinga stundum svo slæmt að fólk verður óvinnufært í kjölfarið. Orsökin er enn óskýr en virðist vera annaðhvort einskonar sjálfsofnæmi eða áframhaldandi tilvera erfðaefnis veirunnar (mRNA) í frumum sjúklinga. Langvarandi eftirköst Chikungunya hafa reynst mun alvarlegri lýðheilsuvandamál en smitið sjálft.

Þessi samanburður við COVID-19 - þar sem stór minnihluti sjúklinga glímir við einkenni löngu eftir bötnun, sem og vísbendingar um sjálfsofnæmi og langvarandi eftirlegu veiruerfðaefnis í frumum sjúklinga - angrar rannsóknarmenn, eins og prófessor Danny Altmann , ónæmisdeildarstjóra hjá Imperial College og ritstjóra hjá Oxford Open Immunology.

„Það voru vísbendingar um [langvarandi veikindi] í kjölfar SARS og MERS. En COVID hefur eiginlega hraunað yfir okkur, þú veist? Og allt varðandi það hefur reynst stærra og verra en við bjuggumst við. ... Við hefðum átt að vera tilbúin fyrir það því það eru margir veirusjúkdómar sem hafa skringileg truflandi áhrif á ónæmiskerfið og langvarandi afleiðingar. Hugsaðu um Epstein-Barr vírus, einkirningasótt, Ebóluvírus, eða Cýtómegalóvírus. Svo mörg, mörg dæmi eins og þetta. En ég held að eins og margt annað sem kom okkar á óvart hugsuðum við um kórónavírus sem hann væri svolítið eins og kvef og ekki í þessum hópi."

Imperial College rekur líka REACT rannsóknina, eina af þremur stórum COVID-19 rannsóknum sem unnar eru í Bretlandi. Samkvæmt REACT-2 lendir einn af hverjum þremur sem smitast af COVID-19 í langvarandi veikindum; aðeins um helming virðist batna innan nokkurra mánaða  Einn þriðji þeirra sem eru með langvarandi eftirköst í kjölfar COVID-19 glíma við alvarleg veikindi, samkvæmt REACT-2.

Íslendingar eru ekki undanteknir þessum veruleika, fyrir utan það hve sambærilega fáir hafa smitast hingað til. Á Heilsustofnun Náttúrulækningafélagsins, einni af þremum endurhæfingarstöðvum hérlendis, er meðalaldurinn 56 ára og aðeins 20% þeirra hafa áður verið lagðir inn á spítala vegna sjúkdómsins . Algeng einkenni eru hjartsláttartruflanir, síþreyta, sviði í öndunarfærum, brenglun á bragð- og lyktarskyni, og heilaþoka. Margir eru með samviskubit út af því - „Það er oft sem að fólki finnst það og sérstaklega er það fólk í yngri kantinum," segir Birna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins. „Fólk er með fjölskyldu og vill geta haldið áfram í vinnunni og svona. Og það skilur ekki, því finnst eins og það eigi ekkert að vera að því, en svo nær það sér ekki, það nær ekki upp þrekinu, það er alltaf að lenda í basli og finnst þetta náttúrulega alveg galið, hvaða aumingjaskapur er þetta."

Það er eitthvað kaldranalegt og grimmt við að tala um „grænt" smit, „vægt" smit - eða eins og Örn sagði í Fréttablaðinu, „nær einkennalaust" smit - ef maður á ekki erfitt með að anda. Þetta fólk getur verið að þjást af hugsanatruflunum, bæði á meðan sjúkdómurinn stendur yfir (eins og t.d. Jón Gnarr ), og hjá sumum eru langvarandi eftirköst m.a.; mícróblóðtappar; hiti vikum saman; bilanir í sjálfvirka taugakerfinu; og það að geta ekki tekið eðlilegan þátt í daglegu lífi mánuðum eða árum saman - að vinna, að labba, að keyra, að sjá um börnin. Allt þetta er „grænt". „Vægt". Eða samkvæmt Erni, „nær einkennalaus" smit.

En langvarandi eftirköst COVID-19 eru varla til tals varðandi þetta plan sem stjórnmálamenn í dag virðast svo hrifnir af, að láta flest alla smitast, fremur en að útrýma sjúkdómnum innanlands þangað til að við getum bólusett okkur betur. Eða eins og Íris Hrund Sigurðardóttir, þrítug kona sem lenti í alvarlegan langvarandi veikindum eftir „vægt" COVID-19 smit sagði, „Það er engin umræða, það er eins og eftirköst Covid séu ekki til".

Fyrir þá sem vilja gera lítið úr áhættunni eða eru „bara" ósammála vísindamönnunum sem eru að vinna á þessu sviði, og vilja varpa fram efasemdum um málið, vil ég segja: í bæði umhverfis- og lýðheilsumálum gildir svokölluð varúðarregla, sem kveður á um að ef grunur leikur á um að tiltekin framkvæmd eða stefna geti valdið almenningi tjóni þá skuli skortur á vísindalegri fullvissu um að aðgerðin valdi tjóni ekki koma í veg fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir. Varúðarreglan þýðir því sumsé að sú óafturkræfa ákvörðun "að láta alla smitast og svo vona það besta",  sé óásættanleg, og að heldur en "að lifa með veirunni" þá ættum við mun frekar að gera okkar ítrasta til þess að loka hana úti á meðan við brynjum okkur betur.

En eins og er erum við að ganga í svefni í Chikungunya.

Höfundur hefur unnið í lífeindagagnatækni og safnar upplýsingum um COVID-19 faraldurinn.