Það eru engar ýkjur þegar ég segi að Ísland sé best í heimi hvað jafnrétti varðar. Raunin er meira að segja sú að ellefta árið í röð er Ísland efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins , World Economic Forum, um kynjajafnrétti og styrkti meira að segja stöðu sína á milli ára. Það má því segja að Ísland sé „jafnréttasta“ land í heimi og sýnir þann einstaka árangur sem íslenskar forystukonur hafa náð undanfarna áratugi. - Er þetta þá ekki bara komið?

Langdreginn og krefjandi endasprettur

Staðreyndin er sú að við eigum enn langt í land til þess að ná fullkomnu jafnrétti. Þrátt fyrir lög um jafnan rétt karla og kvenna og lög um kynjakvóta í stjórnum, sem ná til fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri, hafa konur ekki fengið aukin völd innan stjórna og framkvæmdastjórna. Samkvæmt mælaborði Jafnvægisvogarinnar er hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi 26% og hlutfall kvenkyns forstjóra/framkvæmdastjóra 23%. Þess má geta að bæði hlutföllin hafa aðeins hækkað um rúmlega 1% frá árinu 2014. Þetta sýnir okkur að endaspretturinn, í átt að jafnvægi er bæði krefjandi og langdreginn. Það er ekki nóg að vera heimsmeistarar í jafnrétti ef munurinn á stöðu kvenna og karla er enn svona mikill. Já, þetta er svo sannarlega ekki bara komið.

Jafnrétti er ákvörðun

Jafnrétti er engin tilviljun. Jafnrétti er ákvörðun sem stjórnendur taka meðvitað og ætti ekki að snúast eingöngu um átak kvenna, heldur er þetta samvinnuverkefni beggja kynja. Það snýst heldur ekki um að fleygja körlunum öfugum út eftir margra ára, vel unnin störf heldur er fyrsta skref stigið strax með næstu ráðningu og svo koll af kolli. Það er enginn skortur á hæfum konum í íslensku viðskiptalífi.

Jafnrétti er mikilvægt samfélagsmál og er ávinningurinn augljós, bæði fyrir vinnumarkaðinn og samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt fram á að aukið jafnvægi í stjórnendahópnum leiði til betri ákvarðanatöku og bættrar efnahagslegrar afkomu fyrirtækja. Þá felur fjölbreytni í sér skýr skilaboð um jöfn tækifæri sem ætti að gera fyrirtækjum kleift að laða til sín framúrskarandi fólk og hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að aukið jafnrétti eykur starfsánægju hjá báðum kynjum.

Ráðstefna Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni FKA , forsætisráðuneytisins, Sjóvá, Deloitte , Pipar/ TBWA og Morgunblaðsins. Verkefninu var komið á fót á árinu 2017 og hefur náð að festa sig í sessi sem mikilvægur þáttur í því að vekja fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög til umhugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum.

Árleg ráðstefna Jafnvægisvogarinnar, Jafnrétti er ákvörðun, fer fram fimmtudaginn 12. nóvember kl 14:00, og verður streymt í beinni útsendingu á ruv.is Við sögu koma fyrirlesarar úr öllum áttum, sem allir munu fjalla um jafnrétti á sinn hátt. Þar má nefna Hermann Björnsson, forstjóra Sjóvá, Herdísi Pálu Pálsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og mannauðsstjóra Deloitte , Þórönnu Jónsdóttur, stjórnendaráðgjafa, Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, Huldu Ragnheiði Árnadóttur, formann FKA og Þorstein V. Einarsson, verkefnastjóra Karlmennskunnar. Auk þess munu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Eliza Reid , forsetafrú flytja ávörp auk þess sem sú síðarnefnda mun veita viðurkenningar til þeirra aðila sem eru þátttakendur í Jafnvægisvoginni og hafa náð að jafna hlut kynja í efsta lagi stjórnunar. Skráning er hafin á heimasíðu Jafnvægisvogarinnar og er aðgangur ókeypis.

Höfundur er stjórnendaráðgjafi og sérfræðingur í ráðningum hjá Intellecta og verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar.