*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Andrea Róbertsdóttir
6. júní 2020 13:43

Ísland með svartabeltið í breytingum

Hjörtu félagskvenna FKA hafa slegið í takt á tímum COVID varðandi breytingar á vinnuumhverfi.

epa

Óvissa getur vakið sterkar tilfinningar og breytingar koma við fólk á margskonar hátt. COVID sem herjar hefur á heimsbyggðina er krísuástand og breytingaferli í áður óþekktri stærð. Ógnin er ekki á fjarlægum slóðum í „Langtíburtistan“ heldur bara hér og nú og hefur áhrif á allt okkar líf.

Á skömmum tíma höfum við verið þvinguð til að endurraða öllum heiminum, löngunum, þörfum og hugsunum á mettíma og vegna stærðar áskorananna höfum við ekki getað annað en staðið saman.

Þrátt fyrir ríkjandi óvissu hefur þetta tekist með einhverri hárfínni blöndu af samtali, samhygð, sköpun og vísindum sem hefur orðið til þess að allur heimurinn horfir til okkar og alþjóðasamfélagið upplifir að Ísland sé með svartabeltið í breytingum.

Einstaklingar sveigjanlegri en áður var talið?

Sem framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu FKA veit ég að FKA-konur hafa setið fjöldann allan af ráðstefnum síðustu ár þar sem fjallað er um „þróun nýrra viðskipatækifæra“ hvernig auka má samkeppnishæfni og „gera Ísland að áhugaverðum valkosti eins og í nýsköpun“.

Sem leiðtogar í íslensku atvinnulífi hafa félagskonur lesið skýrslur og skautað yfir ófáar glærurnar sem höndla með stöðugar breytingar í vinnuumhverfi nútímans á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar.

Svo á milli lægða einn dag í febrúar rann upp dagurinn þar sem við vorum öll þvinguð að lifa þessar glærur og með einhverjum undraverðum hætti breyttum við öllu vinnulagi, samskiptum, færðumst upp um nokkur borð í tækninni á örskotsstundu og margt bendir til þess að einstaklingar séu sveigjanlegri en áður var talið.

Ákveðinn raunveruleiki sem sameinar konur

Hjörtu félagskvenna FKA hafa slegið í takt á tímum COVID þar sem við höfum verið að fóstra nærumhverfið og sótt styrk í hver aðra og fundið upp nýjar aðferðir til að eiga samtal, vaxa og þroskast meðvitaðar um að ekkert verður eins. Sem fyrr er Félag kvenna í atvinnulífinu fyrir konur í öllum fetum, allt rúmast innan FKA því staða félagskvenna er misjöfn og áskoranir okkar ólíkar á tímum sem þessum.

Í samkomubanni hefur fólk verið að greina hvað gerir venjulegt líf innihaldsríkara, það sem gefur lífinu gildi og hvernig hægt er að lifa eftirsóknarverðu lífi. Öll höfum við verið áttavillt í þessari nýju heimsmynd og það sama gildir um félagskonur FKA. Þó svo við séum ólíkar og þurfum að stilla tíðnina þá er raunveruleiki þarna sem sameinar konur.

Í FKA eru konur sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi sem mynda öflugt tengslanet um land allt þvert á allar greinar atvinnulífsins sem eru tilbúnar í það uppbyggingarstarf sem framundan er – Áfram og upp!

Samkvæmt pappírum er tilefni til að hafa áhyggjur

Í glæsilegu FKA-blaði sem kom út í vikunni er forsíðuviðtal við Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem var um tíma eina konan sem stýrði skráðu félagi á Íslandi. Samkvæmt pappírum er tilefni til að hafa áhyggjur því engin kona er í slíku starfi í dag.

Á meðan orðræða samfélagsins segir það eftirsóknarvert að vera stjórnandi, sérfræðingur eða fara fyrir skráðu fyrirtæki þá skiptir máli að konur eigi fulltrúa í þeirra röðum sem fyrirmyndir. Á meðan að þessum klassískum karlastörfum fylgir vald þá skiptir það máli. Það sem meira er þá skiptir máli að völdin haldist þar einnig eftir að konur fá sína málsvara.

Nú þegar verið er að endurskilgreina hvað er gott, flott og æskilegt eftir þessa miklu stökkbreytingu sem á sér stað í heiminum, þegar allt er að fara á fullt í að byggja upp samfélagið að nýju eftir heimsfaraldurinn COVID eru raddir kvenna mikilvægar. Þá verður FKA á sínum stað, sterkara sem aldrei fyrr að sinna mikilvægu hlutverki í þjónustu við íslenskt atvinnulíf. Með fjölbreyttan hóp 1.200 félagskvenna um land allt sem eru tilbúnar að taka sæti við borðið. Þá getum við rætt gildi lífsins sem gefa okkur loforð um viðurkennda samfélagsstöðu og teiknað upp ferska framtíð fyrir okkur öll.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.