*

mánudagur, 16. maí 2022
Óðinn
30. júní 2021 07:04

Íslandsbanki og viðundrið Viðreisn

Eflaust munu Guðrúnar Johnsen landsins koma fram innan skamms og halda því fram að ríkið hafi selt Íslandsbanka á undirverði.

Eyþór / Hag

Það er fagnaðarefni að Íslandsbanki skuli nú að þriðjungi vera kominn úr faðmi ríkisvaldsins og í hendur einstaklinga, fjárfesta og stofnanafjárfesta.

* * *

Þeir hafa verið þögulir efasemdamennirnir sem komu í aðdraganda útboðsins á hlutabréfum bankans og lýstu því yfir að það væri glapræði að setja bankann á markað á óvissutímum Covid-19.

* * *

Eflaust munu einhverjir þeirra, Guðrúnar Johnsen landsins – jafnvel heimsins fyrir tilstuðlan Guðrúnanna hér á landi, koma fram innan skamms og halda því fram að ríkið hafi selt bankann á undirverði. Svarið til Guðrúnanna er einfalt, ríkið hefði alltaf selt bankann á undirverði. Núna hljóta Guðrúnarnar að vera óskaplega ringlaðar á þessum orðum Óðins og vill hann því skýra sitt mál.

* * *

Í huga fjárfesta er meirihlutaeignarhald ríkisins á banka dragbítur á rekstur þeirra og verðmæti. Hættan á því að önnur sjónarmið en viðskiptaleg ráði för eru ætíð fyrir hendi. Og vitiði til. Við munum sjá dæmi þess fyrr eða síðar, þó fyrr en seinna, að ríkisbankarnir hafi selt eignir eða tekið viðskiptaákvarðanir sem standast enga skoðun vegna þess að hagsmunir eigandans voru ekki hafðir í fyrirrúmi. Slíkt kemst upp á endanum. Sannleikurinn sigrar að lokum.

Aðhaldið skortir

Aðhald eigandans er nefnilega lítið sem ekkert. Ekki vegna þess að í stjórn hans hafi ekki valist ágætt fólk. Heldur vegna þessa að það ágæta fólk á ekkert undir rekstrinum nema hugsanlega að halda stjórnarsætinu. Til dæmis með því að fara varlega í ákvörðunum sínum og alls ekki taka áhættu sem þeir þyrftu að taka ábyrgð á ef illa færi.

* * *

En eðli viðskipta eru að þau geta farið illa. Og allir verða að skilja að áhættan er ekki alltaf fyrirsjáanleg og viðskiptatækifæri sem virtist vera borðleggjandi í byrjun getur breyst í afar slæma fjárfestingu. Því þarf að fyrirgefa þeim sem fara illa að ráði sínu í viðskiptum svo lengi sem þeir hafa verið heiðarlegir og hygluðu ekki sér og sínum á kostnað félagsins.

* * *

Ein mesta dellukenning síðari ára er að stjórnarmenn í bönkum eigir að vera sjálfstæðir og óháðir eigendum þeirra. Enda er það svo að í einkabönkunum er það auðvitað ekki þannig, þó að það kunni að líta þannig á yfirborðinu og þeir í fjármálaeftirlitinu, einhverri dýrustu og undarlegustu stofnun sem rekin er í íslensku samfélagi – og þá eru Áfengis- og tóbaksverslunin og samkeppnisstofnunin sem kallar sig Samkeppniseftirlitið meðtaldar, haldi að svo sé.

Páfagaukslærdómur

Þeir í Fjármálaeftirlitinu halda próf fyrir stjórnarmenn og kanna hvort þeir vita sínu viti. En þessi próf eru tímaeyðsla. Stjórnarmennirnir eru ekki mættir eins og páfagaukar með allt á hreinu um hinar og þessar reglur, heldur eiga þeir að hámarka virði hlutabréfa eigendanna. Vissulega innan marka laganna, jafnvel heimskulegra laga, en þá er það hlutverk starfsmannanna, lögfræðisviðanna, endurskoðendanna, og framkvæmdastjóranna og allra starfsmannanna sem eru með hausinn að veði, eins og sást ágætlega í öllum hrunsdómunum, að gæta þess að ekki sé farið út fyrir reglurnar.

* * *

En Íslandsbanki er kominn á markað. Við það mun losna um gríðarlega krafta sem búa í starfsfólki hans og stjórnendum vegna minnkandi ríkiseignarhaldsins og hefur sýnt sig vel á afkomu hans undanfarin misseri. En það mun líka koma í ljós að það eru einhverjir farþegar í hópi sem starfa hjá bankanum og munu þeir halda fast í stólana þar til kjölfestufjárfestar munu koma að honum og ríkisvaldið mun selja sig niður fyrir meirihlutaeign. Hverjir þeir eru veit Óðinn ekki, það vita þeir sjálfir.

Þurfa að reisa Viðreisn við…

Óðinn átti alltaf erfitt með að skilja nafnið á Evrópusambandsflokknum Viðreisn. Flokkurinn var stofnaður árið 2016 þegar búið var að reisa íslenskt efnahagslíf við eftir hrunið. Í hruninu sat formaður Viðreisnar við ríkisstjórnarborðið og hafði mestar áhyggjur af því, eins og allir ráðherrar í ríkisstjórninni urðu varir við, hvort Kaupþing myndi falla. Þar réðu sérhagsmunirnir en ekki almannahagsmunirnir eins og formanninum er svo tíðrætt um þessa dagana.

* * *

En núna skilur Óðinn betur hvað Viðreisn ætlaði að reisa við. Sjálfa sig. Fyrst þurfti auðvitað að koma flokknum í steik og það tókst með því að fleygja stofnandanum og fyrsta formanninum út í hafsauga, eða öllu heldur í neðsta sætið.

* * *

Í viðtali á mbl.is í síðustu viku sagði Benedikt fyrrverandi formaður Jóhannesson að hann væri hættur í framkvæmdastjórn flokksins. Hann hefði einfaldlega ekki geta hugsað sér að sitja áfram. Í viðtalinu sagði Benedikt:

„Upphafið að þessu var fundur Reykjavíkurráðs nú í febrúar en þá lagði ég fram tillögu þess efnis að haldið yrði prófkjör þar sem nokkrir sóttust eftir efstu sætum á listunum hér í Reykjavík. Sú tillaga var felld með miklum meirihluta og með þeim rökum að ekki væri nægur tími til stefnu til þess að halda prófkjör. Þetta var snemma í febrúar.“

Nú hafa flestir stjórnmálaflokkanna haldið prófkjör í millitíðinni.

„Greinilegt að aðrir voru fljótari að hugsa og vinna en þessir félagar í Reykjavíkurráðinu.“

Glæsileg niðurstaða

Nú hefur Þorgerður Katrín gert kraftaverk í að sundra flokknum. Ekki bara að koma í veg fyrir að Benedikt gæti komist á lista í prófkjöri og hafna honum í uppstillingu heldur vera nánast búinn að henda honum út úr flokknum en ef marka má viðtalið er hann líklegur til að yfirgefa flokkinn.

* * *

Hann er ósáttur við Þorgerði:

Benedikt segir framgöngu formannsins í þessu ferli valda sér mestum vonbrigðum. „Það var lögð mikil áhersla á það frá formanni flokksins að byrjað væri á því að kynna listana í landsbyggðarkjördæmunum, þar sem fyrirséð var að yrðu karlar í efstu sætunum. Það var síðan notað sem rök í Reykjavík og í Kraganum að það yrðu að vera konur til þess að kynjajafnrétti væri náð.“

* * *

Þetta er auðvitað glæsileg niðurstaða hjá Þorgerði Katrínu. Spurningin er hins vegar hvernig muni ganga að reisa flokkinn við.

* * *

Hitt er annað mál að Þorgerði tókst annað – líklega óafvitandi. Henni tókst að gera Viðreisn álíka misheppnaða og Evrópusambandið, ólýðræðislegt þar sem fámenn klíka ræður ríkjum en ekki þeir sem standa að selskapnum – flokksmenn eða aðildarríkin.

* * *

Nú geta þeir fáu menn sem vilja enn ganga í Evrópusambandið hér á landi gengið í Viðreisn og lagt allar hugmyndir um aðild að Evrópusambandinu á ís – líklega til langrar framtíðar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.