Fjölskyldan hefur búið í fjögur ár í Bandaríkjunum. Við hjónin fórum í toppnám og ég vinn hjá toppfyrirtæki. Við fáum reglulega atvinnutilboð frá áhugaverðum fyrirtækjum hér og þar um heiminn. Hér er nánast allt­ af sól og blíða. Skólinn sem sex ára guttinn okkar er í er frábær. Kennari og aðstoðarkennari stjana við um 20 krakka sem læra um vísindi, listir, íþróttir og menningu, með alls kon­ar tæki og tól að vopni. Hann fær að læra um og upplifa heiminn sem er svo miklu stærri en Ísland.

Við stefnum samt alltaf heim

Á Íslandi er „launakostnaður sam­keppnishæfur við Vesturlönd“ eins og Guðbjörg í Actavis orðaði það á nýlegu Iðnþingi. Á mannamáli þýðir þetta að laun eru lág, of lág og lægri en í löndum sem við vilj­um miða okkur við. Á Íslandi er at­vinnuþátttaka kvenna mjög mikil. Ef til vill erum við óvenjulega jafn­réttissinnuð, en það er líka eins gott því að lifa af einum launatékka er nánast ómögulegt fyrir íslenskar fjölskyldur (eins og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fjallaði um í ný­legri Viðskiptablaðsgrein). Á Íslandi þarftu að fá samþykki í bankanum til að eignast erlendan gjaldeyri og ef þú kemur heim með slíka mun­aðarvöru þá þarftu að skipta henni í íslenskar krónur. Á Íslandi eru örfá fyrirtæki sem gætu talist áhuga­verð fyrir alþjóðlegt vinnuafl en fæst ná að laða starfsfólk til sín því infrastrúktúr og aðstæður til slíks eru fábrotin. Þessi fyrirtæki velta því reglulega fyrir sér hvort rétt sé að flytja úr landi.

Við stefnum samt alltaf heim

Vinum mínum hérna úti finnst þetta fáránlegt. Af hverju í ósköp­unum ætti ég að vilja koma heim? Eru launin góð? Er veðrið gott? Eru fjölbreytt starfstækifæri í boði? Svarið við öllum framangreindu er nei. Samt komum við heim. Samt koma eiginlega allir Íslendingar heim. Koma heim og búa eitthvað til. Ísland nær að draga fólk heim því taugin er römm. Tilfinningarnar eru sterkar en (efnahagslegu) rök­in eru fábrotin. Frá sjónarhorni fjölskyldumannsins er Ísland auðvitað frábært. Við höfum náttúruna, frið­inn, fjölskylduna, vinina og einfald­leika íslensks samfélags – allt hitt er svo einhvern veginn hálf glatað. Eins og Hilmar í CCP nefndi í frá­bærri ræðu á Iðnþingi þá er fáránleg hugmynd að reka alþjóðlegt þekk­ingarfyrirtæki á Íslandi – og jafn­ vel enn fáránlegra nú en oft áður.

Á meðan önnur ríki buðu þeim, og bjóða þeim enn, gull og græna skóga fyrir að flytja fyrirtækið til þeirra var fátt í boði á Íslandi og það sem hefur bæst við síðustu árin eru frek­ari lóð á vogarskálar brottflutnings. Það eina sem hélt þeim hér voru til­finningarök. Hilmar og félaga lang­aði einfaldlega að byggja fyrirtækið upp á Íslandi. Ég hef áhyggjur af því að brunnur ruglaðra manna eins og hans sé uppurinn og fyrirtæki eins og CCP munu ekki vaxa úr grasi á Ís­landi framtíðarinnar nema eitthvað sé að gert.

Hann hefur áhyggjur. Nánast allir í íslensku viðskiptalífi hafa áhyggjur. Forstjóri Marel seg­ir komið að endimörkum á Íslandi. Forstjóri Actavis á Íslandi sagði að Ísland yrði ekki fyrir valinu, ef valið yrði í dag. Forstjóri Össurar er gátt­aður á því umhverfi sem fyrirtækið býr við.

Þetta þarf ekki að vera svona. Við erum fámenn og nokkuð vel mennt­uð þjóð. Við höfum alla burði til að byggja upp infrastrúktúr sem grundvallar alþjóðlegt og spenn­andi samfélag þar sem hugvit er kjölfesta eftirsóknarverðra lífsgæða og framtíðarhorfa.

Til þess þurfa áherslur stjórn­ valda þó að vera allt aðrar og skýr­ari. Það þarf að vera ljóst hvert skal stefnt. Menntakerfið þarf að fá fullt af peningum til að geta náð skýr­um alþjóðlega samkeppnishæfum markmiðum og sinnt alþjóðlegum þörfum. Atvinnulífið þarf að búa við einfalt skattkerfi, skýrar leik­reglur og skilning á mikilvægi stöð­ugra skilaboða hins opinbera. Laga­umhverfið þarf ekki bara að vera einfalt heldur einnig stöðugt og án sértækra aðgerða og smáskammta­lækninga sem breyta landslaginu eins og hendi sé veifað.

Fólk þarf alvöru störf sem skapa alvöru verðmæti til þess að geta fengið alvöru laun sem skapa al­vöru kaupmátt. Fólk þarf líka að fá borgað í alvöru gjaldmiðli sem hef­ur gildi utan landhelginnar. Stjórn­málamennirnir þurfa að búa til um­ hverfi og aðstæður en ekki draga töfralausnir upp úr hattinum sem eiga að plástra brotið kerfi. Auðlind­irnar eiga að styðja hugvitið en ekki koma í stað þess. Stjórnmálamenn­irnir þurfa einfaldlega að byggja upp skýrt einfalt kerfi og leyfa því svo að njóta sín.

Við stefnum samt alltaf heim og við komum heim. Best væri bara að geta komið til landsins sem Ísland getur orðið fremur en til Íslands í dag. Á Íslandi útgáfu 2014 er líkleg­ast skynsamlegast að búa á Íslandi en vinna í útlöndum.

Grein Björgvins birtist í Viðskiptablaðinu í dag, 13. mars 2014. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .