*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Leiðari
1. júlí 2016 12:12

Íslenska þjóðin sameinast í gleðinni

Íslenska þjóðin baðar sig í velgengni Íslands í knattspyrnu og er vonandi að læknast af andlegum leiðindum eftirhrunsáranna.

epa

Það er erfitt að finna eitthvað til að pirra sig almennilega á þessa dagana. Sá sem þetta skrifar flýtur, eins og þjóðin virðist öll gera, um á rósrauðu skýi og baðar sig í velgengni Íslands í knattspyrnu. Samhugurinn og fölskvalaus gleðin sem gripið hefur þjóðina, ekki síst eftir ótrúlegan sigur á Englendingum á mánudag, er fordæmalítill og er ótrúlega gaman að upplifa þetta.

Þetta er merkileg og afar jákvæð breyting frá því sem verið hefur undanfarin misseri. Að því marki sem hægt er að tala um þjóðarsálir, þá hefur íslenska þjóðin verið reið og pirruð undanfarin ár. Engu virðist skipta þótt hjól efnahagslífsins séu farin að snúast sem aldrei fyrr, að atvinnuleysi sé komið í eðlilegt horf, að kaupmáttaraukning slái hér met og hagvöxtur sé hér miklu meiri en víðast annars staðar í heiminum. Íslendingar hafa samt sem áður verið með allt á hornum sér. Hvert upphlaupið hefur rekið annað og fólk hefur fundið sér nýja og nýja ástæðu til að verða reitt og fúlt á Facebook. Sumt af þessu er vissulega þess virði að reiðast yfir, en svona stanslaus pirringur og reiði hefur skaðleg áhrif á geðslag fólks.

Því er ánægjulegt að ganga um götur borgarinnar og sjá ekkert annað en brosandi andlit. Jafnvel neikvæðustu álitsgjafar eru hættir að pirrast út í stjórnmálin og skrifa þess í stað fallega um íslenska knattspyrnu. Ráðherrar mæta á alþjóðlega fundi í landsliðstreyjunni og í Þórshöfn í Færeyjum fagnar fólk af mikilli innlifun með okkur.

Það er vonandi að íslenska knattspyrnulandsliðið sé með þessu að lækna þjóðina varanlega af þessum andlegu leiðindum sem hún hefur verið að glíma við í raun allt frá haustinu 2008. Það er löngu kominn tími til að við hristum þetta af okkur þetta slen og horfum með björtum augum á framtíðina. Hún er nefnilega alls ekki svo hræðileg. Þvert á móti er ekkert sem bendir til annars en að útlendingar muni ekki aðeins öfunda okkur af landsliðinu okkar, heldur einnig af velmeguninni sem við erum að leggja inn fyrir núna.

Hvað íslenska landsliðið varðar þá eru strákarnir fyrir löngu búnir að vinna þetta Evrópumót. Hvernig sem fer á sunnudaginn mega þeir bera höfuðið hátt og íslensku stuðningsmennirnir munu vafalaust sýna umheiminum að þeir eru ekki bara bestu stuðningsmenn heims þegar vel gengur, heldur að Íslendingar standa jafnvel þéttar saman þegar á móti blæs.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.