*

mánudagur, 6. desember 2021
Óðinn
28. ágúst 2018 09:27

Íslensku flugfélögin og flugiðnaðurinn

Sögur af slæmu gengi félaganna hafa farið eins og eldur í sinu í sumar, umfram það sem félögin hafa sjálf upplýst um.

Aðsend mynd

Árið 2017 var metár hjá aðildarfélögum IATA, alþjóðasamtökum flugfélaga, sem högnuðust samanlagt um 38 milljarða dala. Í desember spáði IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, að hagnaðurinn í ár yrði 38,4 milljarðar dala en lækkaði spána í sumar í 33,8 milljarða dala vegna mikilla hækkunar á olíuverði. Ef þessi spá rætist yrði árið mjög gott sögulega séð þrátt fyrir hækkun olíuverðs. Meðlimir IATA eru um 290 flugfélög sem eru um með um 82% af flugferðum í heiminum.

                                                                *** 

Sama er ekki uppi á teningnum hjá íslensku flugfélögunum tveimur, Icelandair og Wow air. Þau hafa flogið í gegnum mikla ókyrrð undanfarin misseri. Afkoma Icelandair hefur versnað mikið. Árið 2015 var eitt besta, ef ekki besta, rekstrarár félagsins frá upphafi. Þá nam hagnaðurinn 111 milljónum dala. Hagnaðurinn árið 2017 nam 37 milljónum dala og flutti félagið um 4 milljónir millilandafarþega það árið. Útlit er fyrir að afkoman í ár verði helmingi lakari en farþegafjöldinn svipaður. Afleiðingar af versnandi afkomu eru lækkun á gengi úr 38 vorið 2016 í 9,2 í dag.

                                                                *** 

Wow air tapaði 22 milljónum dala árið 2017 en félagið flutti tæplega 1,7 milljónir farþega. Tap á hvern farþega var því 1.397 krónur. Það þarf því ekki mikinn viðsnúning til að snúa tapi í hagnað. Samkvæmt fjárfestakynningu í skuldabréfaútboði félagsins gera stjórnendur Wow air ráð fyrir 8 milljóna dala tapi á þessu ári.

 

Sögur af slæmu gengi félaganna hafa farið eins og eldur í sinu í sumar, umfram það sem félögin hafa sjálf upplýst um. Fyrri hluta sumars var rætt um Icelandair og undanfarnar vikur meira um Wow air. Óðinn ætlar ekki að endursegja þessar sögur en sögurnar einar og sér geta haft veruleg áhrif á flugfélögin, fælt viðskiptavini frá þeim og þar með gefið sögunum byr undir báða vængi. Reyndar neitaði Skúli Mogensen, eigandi Wow air, í samtali við Fréttablaðið í gær að sögusagnir af félaginu hafi haft áhrif á farmiðasölu.

                                                                *** 

Það er ekki nokkur vafi að íslensku flugfélögin eiga mikinn þátt í velgengninni í íslenskri ferðaþjónustu, og íslensku efnahagslífi, undanfarin ár. Framboð á flugferðum hefur veruleg áhrif á fjölda ferðamanna. En blóðugt stríð er milli félaganna og ekki er vafi á að stjórnendur Icelandair kenna Wow air um lágt flugmiðaverð og að ekki hafi tekist að hækka verð í takt við hækkandi olíuverð.

                                                                *** 

Einn stærsti fjárfestingarog rekstrarliður flugfélaga eru flugvélarnar. Erfitt er að meta áhrif þess liðar á næstu ár, bæði hjá Icelandair og Wow air.

                                                                ***

Frá árinu 2008 hefur flugfloti Icelandair vaxið úr 11 Boeing 757 vélum, í 24 757 árið 2015. Árin 2016 og 2017 bættust svo 4 Boeing 767 breiðþotur í flotann. Félagið er byrjað að taka 16 737 MAX vélar í gagnið sem er veruleg fjárfesting. Hins vegar eyða þessar vélar mun minna en þær gömlu en hver áhrifin af fjárfestingu er erfitt að segja.

                                                                *** 

Skúli Mogensen sagði í fyrrgreindu viðtali að það ríkti misskilningur um flugflota WOW air og að vélarnar væru allar á leigu. Skúli segir að hið rétta sé að félagið sé með fjórar af tuttugu flugvélum á kaupleigusamningum til langs tíma og mun að sögn Skúla eiga þær skuldlausar eftir um átta ár. Þessi ummæli vekja spurningar um hvers vegna eiginfjárstaðan sé fyrir vikið ekki betri. En að auki ætti þetta að auka vonir um að skuldabréfaútboðið takist. Væntingar um það minnkuðu þegar fréttist af því að Wow air væri að sækjast eftir fjármagni hérlendis. H H H Óðinn fjallaði um flugfélög þessa heims í pistli fyrir fjórum árum. Samkvæmt nýjustu rekstrarupplýsingum þá, rekstrarárið 2013, var Icelandair að skila mun betri afkomu heldur en IATA meðlimir að meðaltali en tap var af rekstri Wow air.

                                                                *** 

Óðinn spurði jafnframt hvort flugiðnaðurinn væri dauðagildra fjárfestisins. Þar var Óðinn að vitna í Buffett á árlegum hluthafafundi Berkshire Hathaway árið 2013 þar sem Buffett lét eftirfarandi ummæli falla: „Fjárfestar hafa dælt peningunum sínum í flugfélög og flugvélaframleiðendur í 100 ár með ömurlegum árangri.“ Spurður hvort skoðun hans á flugfélögum hafi breyst til framtíðar vegna fækkunar félaga og sameininga, sagði hann: „Flugiðnaðurinn hefur verið dauðagildra fyrir fjárfesta.“

                                                                *** 

Þetta er í takt við ummæli Buffetts í viðtali við breska dagblaðið The Telegraph árið 2001. „Ef kapítalisti hefði verið á Kitty Hawk snemma á 20. öldinni, hefði hann skotið Orville Wright. Hann hefði með þeim hætti bjargað höfuðstól sínum. En í alvöru talað, flugbransinn hefur verið ótrúlegur. Hann hefur étið upp meira fjármagn frá upphafi síðustu aldar en nokkur önnur atvinnugrein vegna þess að fólk kemur aftur og aftur með meiri peninga inn.“

                                                                *** 

Buffett hefur margt til síns máls en staðreyndin er nú samt sú að á heimasvæði hans, Norður- Ameríku, hefur flugreksturinn gengið mjög vel frá árinu 2015. Þar eru hins vegar ömurlegustu flugfélög í heimi, slakar vélar og þjónustan engin.

                                                                *** 

Þessa dagana virðist staða Wow air vera mjög erfið. En rekstur Icelandair er þungur, launakostnaður of hár og yfirbygging meiri og því gæti staðan breyst á stuttum tíma.  

                                                                *** 

Íslensku flugfélögin eiga vonandi í tímabundnum erfiðleikum. Það hefði veruleg og vond áhrif á íslenskt efnahagslíf og íslenska neytendur ef annað félaganna hyrfi af markaðnum. 

 

 

 

 

 

 

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Í gær tilkynnti Icelandair um forstjóraskipti í kjölfar þess að afkomuspá félagsins var lækkuð í 80 til 120 milljónir dollara EBITDA fyrir árið 2018.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.