*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Óðinn
17. febrúar 2019 17:32

Ítalía og evrusvæðið

Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af evrusvæðinu nú þegar efnahagssamdráttur blasir aftur við.

Donald Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins.
european pressphoto agency

Donald Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins, sendi Bretum tóninn um daginn, þegar hann kvaðst velta því fyrir sér hvernig sá staður í helvíti liti út, sem væri frátekinn fyrir helstu málsvara Brexit. Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja, svaraði Tusk á Twitter og taldi að sá staður í helvíti væri afar áþekkur þeim sem biði þeirra „sem smíðuðu myntbandalag án bankabandalags og hefðu fullkomlega kaldrifjaðir flutt tröllaukin töp bankanna yfir á herðar snauðra skattborga, þegar bankakreppan dundi yfir".

* * *

Orð Varoufakis eru vitaskuld full beiskju yfir örlögum Grikklands, en það er mikið til í þeim. Vandræði Grikklands voru þó engan vegin eina eða erfiðasta þraut myntsamstarfsins. Engu mátti muna að það liðaðist í sundur í evrukreppunni 2011 og 2012. Þá hafði bæði fjármálakreppa og efnahagssamdráttur steðjað að, skuldir sumra evruríkjanna voru orðnar þungbærar og bankakerfið í hættu.

* * *

Það er því full ástæða til þess að hafa áhyggjur af evrusvæðinu nú þegar efnahagssamdráttur blasir aftur við. Jafnvel þó svo að Brexit gangi fyrir eitthvert kraftaverk stóráfallalaust fyrir sig, þá mun það hafa neikvæð efnahagsáhrif í mörgum evruríkjum. Stóra áhyggjuefnið er þó vafalaust Ítalía, sem um margt má segja að sé á ystu nöf. Og sá er munurinn nú og þá, að litla Grikklandi mátti bjarga, en það ræður enginn við að bjarga stóru Ítalíu ef þar fer allt á versta veg.

* * *

Ítalía hefur nú átt í efnahagssamdrætti síðastliðna sex mánuði og engin merki er um að hún rétti úr kútnum á þessu ári. Það getur reynst landinu afar dýrkeypt vegna slæmrar skuldastöðu, vandræða í ríkisfjármálum og pólitískrar óvissu. Það er þó ekki svo að Ítalía sé ein að upplifa stöðnun og samdrátt, því bæði Frakkland og Þýskaland hafa nú þegar fundið fyrir samdrætti í iðnaði og framleiðslugreinum, en flest bendir til þess að komið sé að hefðbundinni hagsveiflu niður á við, jafnt í Evrópu sem víðast annars staðar í heiminum.

* * *

Evrusvæðið er hins vegar einstaklega viðkvæmt fyrir slíku. Valdhafar í Evrópusambandinu eru ekki óskeikulir hvað hagstjórnina varðar, eins og menn fundu svo tilfinnanlega fyrir þegar það sigldi inn í tvöfalda niðursveiflu árin 2011-12 og hélt sig við aðhaldsstefnu löngu eftir að ljóst var að hún hefði litlu skilað og beinlínis verið skaðvænleg á margan hátt. Ýmsar efasemdir eru um hversu skynsamlega ESB hefur nálgast Brexit og fátt bendir til þess að forysta þess sé vel undirbúin fyrir vandræði á evrusvæðinu, hvað þá veruleg áföll.

* * *

Um það eru skoðanir vitaskuld skiptar, en hitt er hins vegar morgunljóst, að evrusvæðið er einfaldlega ekki í stakk búið til þess að takast á við aðra evrukreppu. Pópúlistum hefur vaxið fiskur um hrygg víðast hvar í álfunni, ekki síst á suðurjaðrinum þar sem vandræðin eru mest. Það má heita óhugsandi að í hinum rómönsku ríkjum evrusvæðisins muni menn fella sig við nýjar aðhaldsaðgerðir og erfitt er að ímynda sér að Þjóðverjar hafi áhuga á að sýna frekara örlæti í garð grannanna í suðri, allra síst nú þegar pópúlistaflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) veitir fjárlaganefnd þýska sambandsþingsins forstöðu.

* * *

Ójafnvægið á evrusvæðinu sést vel á línuritinu hér að neðan, þar sem sjá má stöðu seðlabanka nokkurra evruríkja við Target2, stórgreiðslukerfi Seðlabanka Evrópu. Fyrstu árin var þar allt eins og átti að vera, greiðslur gengu fram og aftur, svo ríkin stóðu meira og minna á sléttu. Það breyttist hins vegar upp úr fjármálakreppunni 2008 og upp úr evrukreppunni bar enn meira á milli einstakra ríkja. Á þessu línuriti sést sérstaða Þjóðverja vel, með tröllauknar kröfur á önnur evruríki, en sömuleiðis hvað Ítalía og Spánn eru veik fyrir með ámóta miklar skuldir. Í því samhengi er svo rétt að horfa til Grikklands, því hafi öðrum evruríkjum þótt erfitt að bjarga Grikkjum, þá blasir við að ítölsk björgun er þeim ofviða.

* * *

Evrusvæðið sjálft hefur ekki upp á neitt að hlaupa heldur. Vextir eru nú þegar komnir niður í -0,4% og Seðlabanki Evrópu hefur nú nýverið dregið saman sína magnbundnu linun (peningaprentun). En það er svo sem erfitt að að ímynda sér nákvæmlega hvernig Seðlabanki Evrópu getur beitt sér frekar, ef enn syrtir í álinn. Það má heita pólitískt erfitt og lagalega hæpið.

* * *

Þar koma hinir innbyggðu gallar evrusvæðisins í bakið á mönnum, en hið sorglega er að þeir gallar hafa verið ljósir í áratug, án þess að ráðinn hafi verið bugur á þeim. Bankinn má ekki fjármagna ríkisútgjöld einstakra ríkja með beinum hætti eða stunda efnahagslega örvun, ákvæði stofnskrár bankans um skuldir og fjármálalegan stöðugleika takmarka svigrúm hans einnig, hann má ekki einu sinni veita þrautarvaralán til evruríkja í vandræðum og svo mætti áfram telja.

* * *

Til evrusvæðisins var stofnað af nokkurri bjartsýni á sínum tíma og segja má að þess gjaldi menn nú. Það miðaðist við myntsamstarf á heildstæðu hagsvæði, þar sem allt lék í lyndi, en gerði ekki ráð fyrir að í harðbakkann slægi. Nú hefur það hins vegar gerst hvað eftir annað, en undirstöður evrusvæðisins eru einfaldlega ekki til þess fallnar að mæta slíkum áföllum.

* * *

Ítalía er stórt hagkerfi á heimsmælikvarða og jafnframt meðal hinna stærstu í Evrópu, svo varla þarf að orðlengja að lendi Ítalía í kröggum kann það að hafa víðtækar afleiðingar, langt út fyrir evrusvæðið. Og lendi evrusvæðið í stórfelldum hremmingum af því taginu, kann það vel að valda samdrætti, jafnvel kreppu, á heimsvísu.

* * *

Nú er efnahagssamdráttur á Ítalíu ekki mjög óvanalegur, hið sama gerðist 2008, 2011 og 2012, en undanfarna áratugi hefur hagsældin þar verið mjög hófleg. Það var þó ekki alltaf svo, því ítalska hagkerfið var í miklum vexti allt frá eftirstríðsárunum fram undir síðasta áratug liðinnar aldar, en þá tók að dofna yfir því. Ekki er að sjá að þátttakan í myntsamstarfinu hafi bætt ástandið, en frá stofnun þess hefur hagkerfi Ítalíu aðeins vaxið um 9%. Og hvað sem líður öllu aðhaldinu og niðurskurðinum í ríkisrekstri nema ríkisskuldir um 132% af vergri landsframleiðslu.

* * *

Síðastliðin ár hefur gengið á ýmsu í efnahagslífi Ítalíu og upp úr 2015 glæddust meira að segja vonir um að hagkerfið væri að ná sér, í takt við efnahagsbata víða um heim. Nú þegar það virðist vera að slá í bakseglin á heimsvísu hafa þær vonir að engu orðið. Ítalía er mjög háð útflutningi (um þriðjungur landsframleiðslunnar er frá útflutningsgreinunum) og svartsýnin hefur þegar skilað sér í auknu atvinnuleysi (nú þegar í 10%), minni eftirspurn hjá iðnfyrirtækjum og neytendur halda að sér höndum, líkt og þeir skynji að í vændum séu frekari þrengingar.

* * *

Þá er ótalinn hinn pólitíski þáttur, en pópúlistaríkisstjórn Ítalíu lætur ekkert tækfæri ónotað til þess að kasta ónotum í helstu stofnanir Evrópusambandsins, í bland við nýstárlegar hugmyndir í ríkisfjármálum, sem margar ganga órum næst. Skuldabréfamarkaðurinn hefur af því ríkar áhyggjur, sem endurspeglast í því að ávöxtunarkrafan hefur nánast tvöfaldast og er nú 2,6 prósentustigum meiri en á sambærilegum pappírum í Þýskalandi. Án ítalsks efnahagsundurs er erfittt að sjá hvernig það getur endað öðru vísi en með greiðslufalli, úrgöngu úr myntsamstarfinu eða hvort tveggja.

Óðinn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.