*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Haukur Örn Birgisson
2. ágúst 2014 09:47

Íþrótt eða bisness

Fjölbreytileiki í flóru golfklúbba er æskilegur en íþróttin má aldrei tapa fyrir viðskiptunum.

Aðsend mynd

Golfíþróttin er önnur af tveimur vinsælustu íþróttum landsins, hin er knattspyrna. Það er erfitt að mæla með nákvæmni fjölda iðkenda þar sem félagatöl golfklúbba segja ekki nema hálfa söguna. Skráðir kylfingar í golfklúbbum eru tæplega 17 þúsund talsins en kannanir sýna að annar eins fjöldi kylfinga leikur golf hér á landi. Það þýðir að kylfingar eru rúmlega 10% þjóðarinnar, sem er heimsmet.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda iðkenda þá er það almennt ekki markmið að reka golfklúbb með miklum hagnaði. Margir sjá kannski ekki skynsemina í því, sérstaklega þar sem margir golfklúbbar eru fullsetnir og því svigrúm til þess að hækka félagsgjaldið.

Svarið felst hins vegar einkum í því að golf er fyrst og fremst íþrótt og golfklúbbar eru reknir sem íþróttafélög en ekki fyrirtæki. Keppnin, aginn og félagsstarfið er í hávegum haft. Segja má að golfklúbbar hafi tvenns konar meginmarkmið. Annars vegar að veita félagsmönnum sínum góða þjónustu og hins vegar að fjölga kylfingum. Með þessi markmið að leiðarljósi hafa rekstraraðilar golfklúbba reynt að halda verðinu í lágmarki og verja tekjum sínum í þjónustu við félagsmenn. Uppbygging og viðhald golfvallarins, klúbbhússins og æfingaaðstöðunnar auk öflugs félagsstarfs eykur ánægju félagsmannsins og tryggir áframhaldandi aðild hans að klúbbnum. Þá stuðlar öflugt barnaog unglingastarf að fjölgun kylfinga til lengri og skemmri tíma. Þetta eru mikilvægir vegvísar fyrir golfklúbba.

Það er ódýrt að stunda golf á Íslandi og það á stóran þátt í miklum vinsældum íþróttarinnar. Sveitaklúbbar að erlendri fyrirmynd með háu félagsgjaldi hafa enn ekki náð að skjóta rótum sínum hér á landi en það er hins vegar ekki útilokað að markaður sé fyrir slíka starfsemi. Það eru eflaust til fjölmargir kylfingar sem hefðu áhuga á aðild að slíkum klúbbum og ekkert nema gott um það að segja. Fjölbreytileiki í flóru golfklúbba er æskilegur en íþróttin má aldrei tapa fyrir viðskiptunum. Hið síðarnefnda getur nefnilega ekki lifað án þess fyrrnefnda.

Pistill Hauks birtist í Viðskiptablaðinu 31. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.

Stikkorð: Golf
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.