Það stefnir í átök á vinnumarkaði. Hrafnarnir sjá nú að tveir af allra jaðarsettustu hópunum í baráttunni við auðmagnið eru reiðubúnir að láta sverfa til stáls. Þetta eru auðvitað Efling annars vegar og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hins vegar. Eins og fram kemur í Morgunblaðinu á miðvikudag þá mætast nú stálin stinn í kjaradeilu SSF og SA.

Síðarnefndu samtökin neita að bjóða starfsmönnum fjármálafyrirtækja meiri hækkun en Starfsgreinasambandið og VR fengu á dögunum. Ari Skúlason, formaður stéttarfélagsins, ber sig illa og kvartar sáran yfir því að starfsmenn fjármálafyrirtækja hafi dregist verulega aftur úr öðrum hópum. Hrafnarnir taka undir þessar áhyggjur Ara og telja einsýnt að það ranglæti sem starfsmönnum fjármálafyrirtækja hafi verið sýnt að undanförnu verði leiðrétt hið fyrsta.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 12. janúar 2023.