*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Leiðari
19. janúar 2017 13:41

Jákvæð skilaboð

Leiðarahöfundur telur skilaboð Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra jákvæð, heilt yfir.

Haraldur Guðjónsson

Taka má undir orð Benedikts Jóhannessonar, nýskipaðs fjármálaráðherra, að stefna beri að því að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára. Hann segir í viðtali við Viðskiptablaðið að betra sé að nýta aðstæðurnar núna til að greiða niður skuldir í stað þess að auka ríkisútgjöld óhóflega. „Það verður að greiða niður þessar skuldir svo að hér verði ekki skuldsett ríki í spennitreyju þegar í harðbakkann slær,“ segir hann.

Það var einmitt Íslandi til bjargar þegar efnahagslegu hremmingarnar dundu yfir haustið 2008 hve ríkissjóður var lítið skuldsettur. Hefði skuldahlutfallið hér verið svipað og það var – og er enn – víða í Evrópu er erfitt að ímynda sér að Íslendingar hefðu komist jafn vel frá falli bankanna og raunin varð.

Heilt yfir eru skilaboð ráðherrans jákvæð. Það er ánægjulegt að heyra hann leggja áherslu á að selja beri þær eignir sem ríkissjóði áskotnuðust vegna samkomulags við kröfuhafa föllnu bankanna. Hann segir sérstaklega mikilvægt að selja eignarhlut ríkisins í bönkunum og setur þar enga fyrirvara aðra en að söluferlið verði opið og gagnsætt og unnið verði hægt og rólega að sölunni.

Það er hárrétt hjá Benedikt að það að ríkið sé eigandi bankastofnana tryggi á engan hátt að betur sé farið með eignir þeirra eða að hagsmunum almennings sé betur borgið með slíku eignarhaldi. Þvert á móti á ríkið ekki að bera eigendaáhættu af hugsanlegum rekstrarerfiðleikum bankastofnana, frekar en annarra fyrirtækja. Því fyrr sem bankarnir eru seldir, því betra.

Hins vegar verður að viðurkenna að það eru vonbrigði að heyra ráðherrann segja að enginn áform séu um að draga úr umsvifum ríkisins í hagkerfinu. Vissulega er það huggun harmi gegn að jafnframt er ekki áformað að auka umsvifin, en þau eru nú þegar allt of mikil.

Vissulega er það mun skynsamlegra að greiða niður skuldir ríkissjóðs áður en farið er í umfangsmiklar skattalækkanir og samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs, en það ætti engu að síður að vera langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar sem nú er nýtekin við völdum. Talað hefur verið um hana sem hægrisinnuðustu ríkisstjórn frá stofnun lýðveldisins, en til að standa undir því nafni verður ríkisstjórnin að gera betur en að halda bara í horfinu hvað varðar ríkisútgjöld.

Þá ber að gjalda varhug við því viðhorfi sem endurspeglast í viðtalinu að ríkið hafi hlutverki að gegna í því að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu. Þessi hugmynd, sem gjarnan er kennd við breska hagfræðinginn John Maynard Keynes, er við það að verða aldargömul. Hún hefur verið notuð til að réttlæta ótrúlegustu inngrip stjórnmálamanna í eðlilegar hreyfingar markaðshagkerfisins, oftar en ekki með slæmum afleiðingum. Sveiflur eru eðlilegar í frjálsu hagkerfi og tilraunir til að vinna gegn þeim leiða yfirleitt aðeins til tapaðra tækifæra og sóun verðmæta.

Skilaboð Benedikts eru engu að síður jákvæð að mörgu leyti. Hann tekur við góðu búi af Bjarna Benediktssyni, sem nú gegnir embætti forsætisráðherra, og er full ástæða til að ætla að ríkisstjórninni takist að vinna að góðum málum. Takist henni að lækka skuldir ríkissjóðs verulega og losa um eignarhlut ríkisins í bönkunum getur hún gengið ánægð frá borði.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.