*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Leiðari
27. júní 2015 12:10

Jákvæðar fréttir að norðan

Viðleitni sjúkrahússins á Akureyri við að fá erlenda vottun ber vott um framsýni og ber að fagna.

Haraldur Guðjónsson

Það er mjög ánægjulegt að lesa í Viðskiptablaðinu í dag um fyrirætlanir stjórnenda sjúkrahússins á Akureyri að leita eftir alþjóðlegri vottun, sem m.a. mun gera sjúkrahúsinu auðveldara að selja útlendingum þjónustu. Eins og fram kemur þá er fjárfesting í sjúkrahúsinu, sem ekki er fullnýtt eins og stendur, einkum skurðstofur, og er borðleggjandi að nýta þessa fjárfestingu með þessum hætti.

Væntanlega munu einhverjir stökkva upp og kvarta undan því að með þessu muni erlendir auðmenn geta keypt sig fram fyrir Íslendinga í heilbrigðisþjónustu. Við þessu ber fyrst að svara að hvergi í þessum áformum er gengið út frá því að þjónusta við Íslendinga verði skert. Þvert á móti má segja að útlendingar muni hér hjálpa til við að greiða niður þjónustu við Íslendinga.

Þá lítur út fyrir, verði þessi áform að veruleika, að ráða þurfi fleira starfsfólk, lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, til að sinna þessari þjónustu, sem hljóta að vera flestum ánægjulegar fréttir. Að lokum ber að ítreka það sem segir í fréttinni að skurðstofur á sjúkrahúsinu eru langt frá því að vera fullnýttar og má því segja að þar liggi fjárfestingin dauð eins og er. Með því að selja útlendingum þessa þjónustu væri verið að nýta þessa fjárfestingu. Hér er heldur ekki verið að tala um einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni, enda er sjúkrahúsið á Akureyri opinber stofnun.

Eins má gera ráð fyrir því að sjúkratryggingar erlendu sjúklinganna borgi brúsann. Það breytir því hins vegar ekki að með þessu væri hægt að fá hingað til lands mikilvægar tekjur og nýta betur þá fjárfestingu sem lagt hefur verið í á Akureyri. Vonandi mun andstæðingum einkareksturs í velferðarkerfinu ekki takast að bregða fæti fyrir þetta framtak norðanmanna, en nánast er öruggt að tilraun til þess verður gerð. Það er svo að margir virðast telja peninga saurga jafnvel saklausustu hluti og mun það eiga við um þessa tilraun.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bryddað hefur verið upp á því að selja útlendingum heilbrigðisþjónustu, en hugmyndir um sjúkrahótel á Suðurnesjum og í Mosfellsbæ runnu út í sandinn. Fyrir því voru nokkrar ástæður, en heiftarleg andstaða vinstrisinnaðra stjórnmálamanna vann að minnsta kosti ekki með verkefnunum. Það að halda úti heilbrigðiskerfi sem stenst kröfur nútímans er gríðarlega fjárfrekt og færa má fyrir því rök að fámenn þjóð eins og Íslendingar eigi hreinlega ekki möguleika á slíku. Ef hægt er að fá útlendinga til að fjármagna hluta þessarar uppbyggingar þá er það aðeins til þess að bæta og efla þá þjónustu sem hægt er að veita Íslendingum.

Það breytir því hins vegar ekki að æskilegt væri ef einkaaðilar hefðu aukna möguleika á aðkomu að heilbrigðiskerfinu. Afar jákvætt væri ef einkarekið sjúkrahús gæti keppt við þau opinberu og veitt þeim aðhald sem þau skortir nú. Slíkt sjúkrahús gæti t.d. farið þá leið sem sjúkrahúsið á Akureyri hefur nú til skoðunar og gert að hluta til út á erlenda sjúklinga til að gera reksturinn hagkvæmari og auðveldari.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.