*

föstudagur, 6. desember 2019
Heiðrún Lind Marteinsdót
20. júlí 2019 13:43

Jákvætt, já takk

Það verður að ráðast að loftslagsvandanum með fleiri en einum hætti.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi.
Haraldur Guðjónsson

Sjávarútvegur á Íslandi gerði fyrir um hálfum öðrum áratug samning við yfirvöld um að fyrirtæki í sjávarútvegi skyldu sjálf sjá um endurvinnslu, förgun og eyðingu notaðra veiðarfæra. Á móti féll niður svo kallað úrvinnslugjald. Tilgangurinn var að halda í lágmarki kostnaði sem fylgir förgun veiðarfæra. Af þeim veiðarfæraúrgangi, sem metið er að til falli á hverju ári, fara um 90% til endurvinnslu. Þetta er langt umfram það sem reiknað var með í upphafi.

 Dregið hefur stórlega úr olíunotkun í sjávarútvegi á undanförnum árum, en þrátt fyrir það hafa útflutningsverðmæti haldist nokkuð stöðug. Það þarf sem sagt sífellt færri lítra af olíu fyrir hvert veitt tonn af fiski. Það þarf að halda áfram að draga úr olíunotkun flotans og á sama tíma að reyna að kolefnisjafna notkunina. Freistnivandi stjórnvalda er hins vegar ætíð sá að laga hlutina með skattlagningu, að skattleggja notkun svo úr henni dragi. Það er tvíeggjað sverð í tilfelli sjávarútvegs, því tækniframfarir og fjárfestingar í þeim eru hluti af skýringunni á minni notkun á olíu. 

Til að hægt sé að styðja við tækniframfarir og fjárfestingar verður að vera svigrúm hjá fyrirtækjum. Fyrirtæki sem skattlögð eru umfram það sem eðlilegt getur talist hafa því minna svigrúm til fjárfestinga en ella. Það verður að ráðast að loftslagsvandanum með fleiri en einum hætti. Stjórnvöld segja að allir verði að koma að því borði, ekki síst atvinnulífið. Sjávarútvegurinn hefur fyrir sitt leyti nefnt að gerður verði samskonar samningur við hann og gerður var á sínum tíma við Úrvinnslusjóð um förgun veiðarfæra. Sjávarútvegurinn tæki svo sjálfur ábyrgð á því að kolefnisjafna sig, undir eftirliti stjórnvalda. Í staðinn myndi kolefnisgjald sjávarútvegs lækka um sömu upphæð og varið væri í jöfnunina. Þessi nálgun byggist á jákvæðum hvötum, sem allir myndu hagnast á. Ekki síst framtíðin.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.