*

mánudagur, 28. september 2020
Leiðari
10. ágúst 2019 12:01

Jarðakaup og eignarfrelsið

Í markaðsþjóðfélagi myndast verð á markaði – ekki með tilskipunum eða inngripum ríkisins.

Haraldur Guðjónsson

Í markaðsþjóðfélagi myndast verð á markaði – ekki með tilskipunum eða inngripum ríkisins. Í því felst einnig að framleiðslutæki og landsins gæði séu í einkaeigu, þar sem einstaklingar og fyrirtæki ákveða hvernig þau verða best nýtt en lagaumgjörð hins opinbera tryggi eignarréttinn og að við samninga sé staðið. Markaðssamfélagið þarf virkan samkeppnismarkað og þróaðan fjármálamarkað, þar sem sækja má fjármagn gegn veðum, sem koma má í verð ef í harðbakkann slær. Sömuleiðis þarf það skilvirkan eignamarkað, þar sem má kaupa og selja fasteignir, leigja þær og leggja fram sem veð.

Til þess að sá markaður sé virkur má ekki setja hömlur eða handahófskenndar reglur um að sumar eignir eða gerðir eigna séu undanþegnar. Bújarðir og náttúrugæði eiga heima á þeim eignamarkaði, rétt eins og lóðir og byggingar til íbúðar eða atvinnustarfsemi í þéttbýli sem dreifbýli. Ella er frelsi manna til athafna og eigna skert, frjáls för vinnuafls, atvinnurekstrar og fjármagns takmarkað. Hömlur eru hömlur og þegar eignarhald eða leiga á sumum fasteignum er háð sérstökum skilyrðum er ekki aðeins verið að setja eignaréttindum sumra skorður, heldur verið að hefta búsetufrelsi allra.

Þetta varðar bæði hið almenna frelsi, sem við viljum búa við á Íslandi, í markaðslegu lýðræðisþjóðfélagi, en einnig þá skilmála sem lýðveldið hefur undirgengist á alþjóðlegum vettvangi, bæði með EES og í OECD, svo augljósustu dæmin séu nefnd.

Þetta er nefnt, þar sem kaup útlendinga á bújörðum hafa enn komið til umfjöllunar og gagnrýnt að heilu og hálfu sveitirnar (oftast með laxveiðihlunnindum) geti safnast á fárra hendur. Jafnvel erlendra auðkýfinga(!). Og enn á ný berast af því fregnir að í ríkisstjórn hafi menn af þessu þungar áhyggjur og vilji skakka leikinn á mjög óljósum forsendum. Undir þetta tekur svo grátkór Bændasamtakanna, sem virðist hafa það að stefnu að rýra eignir félagsmanna sinna. Það mætti einhver taka það að sér að segja þeim frá lögmálum frramboðs og eftirspurnar, nú eða eiga sögustund um vistarbandið og ánauðarbúskap.

Það er sjálfsagt að gefa eignarhaldi bújarða gaum, en það væri óraunhæft og ástæðulaust, að ekki sé sagt rangt, að taka fyrir kaup útlendinga á íslenskum landareignum og það af þjóðernisástæðum, sem varla eru minna en annarlegar. Auðvitað kemur til greina að setja hömlur á stöku jarðarkaup ef til þess standa sérstakar, málefnalegar og lögmætar ástæður, svo sem almannahagsmunir og öryggisjónarmið, umhverfisvernd og réttur annarra, jafnvel menningarsjónarmið. Slíkar takmarkanir þyrftu hins vegar að vera almennar og ná jafnt til Íslendinga sem útlendinga.

Hagkvæm viðskipti með jarðnæði og virkur markaður með jarðir skiptir miklu fyrir þróun og vöxt efnahagslífsins. Kaup og sala jarða – einnig þegar útlendingar eiga í hlut – eykur bæði uppbyggingu, framleiðni, aðgang að fjármagni, tækni og þekkingu, og stuðlar að betri nýtingu náttúruauðlinda og mannauðs. Allt örvar það þjóðarhag.

Það er hins vegar með þann markað sem aðra, að sérhver inngrip í hann eru til þess fallin að bjaga verðmætamat og auka sóun. Sjálfsagt munu einhverjir útlendingar sýta það ef þeim verða skorður settar um jarðakaup, en engir munu tapa á því eins og bændur. Eru þeir þó fæstir auðugir fyrir.

Eignarrétturinn er bundinn í stjórnarskrá og hann er ekki síður helgur en önnur mannréttindi. Ákvæði um frelsi borgaranna eru innantóm ef þeir mega ekki nýta eignir sínar eins og þeir helst kjósa, þar á meðal til þess að kaupa og selja jarðir óháð ætt og uppruna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.