*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Heiðrún Lind Marteinsdót
3. október 2019 16:05

Jarðvegur, kartöflur og kolefnisgjald

Aukin skattheimta mun aðeins hamla fjárfestingum og þannig rýra uppskeru.

Haraldur Guðjónsson

Á vefnum má finna ýmsar leiðbeiningar um hvernig best sé að standa að kartöflurækt. Það er gagnlegur lestur. Sé rétt með farið má vænta þess að uppskera geti verið allt að því tíföld eða 50 kartöflur fyrir hverjar 5 sem potað er niður. Uppskeran veltur þó á því hvernig hlúð er að því sem lagt er í jörð. Hygginn búandi leggur sig sjálfsagt fram um að vanda til verka í upphafi, enda verður virðisaukinn meiri eftir því sem uppskeran er betri.

Samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi á að hækka kolefnisgjald – enn eina ferðina. Íslenskur sjávarútvegur er stærsti greiðandi þessa gjalds og reikna má með að sjávarútvegurinn greiði um 1,7 milljarða króna í kolefnisgjald á næsta ári. Grænir skattar kunna að vera fýsilegir til að draga úr umhverfisáhrifum tilgreindrar hegðunar manna. Kolefnisgjaldið kann til að mynda að hvetja fólk til þess að skipta bensínbíl út fyrir rafmangsbíl. Að þessu verður hins vegar ekki hlaupið í sjávarútvegi, sér í lagi í fiskveiðum þar sem tæknin býður ekki á upp á skipti yfir í umhverfisvænni orkugjafa. Hvað sem því líður hefur hins vegar dregið úr olíunotkun í sjávarútvegi um tæp 50% frá árinu 1990. Það gerðist ekki með skattlagningu, aðrir þættir skýra það. Fjárfesting í nýrri tækni leikur þar stórt hlutverk. Ný skip nýta eldsneyti mun betur og dæmi eru um að einn nýr togari veiði á við tvo eldri, en brenni þriðjungi minni olíu. Þarna er til mikils að vinna.

Jarðvegur hefur mikið að segja fyrir uppskeru í kartöflurækt. Árangur í umhverfismálum lýtur sama lögmáli. Sjá jarðvegur sem stjórnvöld bjóða fyrirtækjum mun ráða því hvort árangur náist í umhverfismálum. Aukin skattheimta mun aðeins hamla fjárfestingum og þannig rýra uppskeru. Betur er þá heima setið en af stað farið.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.