*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Örn Arnarson
29. nóvember 2021 07:05

Jóla­haldi og bingó­kvöldi Sjó­manna­sam­bandsins af­lýst

Orð banda­ríska liðs­foringjans sem sagði að nauð­syn­legt hefði verið að eyða víet­nömsku þorpi til þess að bjarga því koma upp í hugann.

Það bar helst til tíðinda í síðustu viku að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hótaði þjóðinni rafmagnsleysi ef fólk vogaði sér út á götur til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Í viðtali sem birtist á fréttasíðu Morgunblaðsins sagði sóttvarnalæknir eftirfarandi:

„Ég vona svo sannarlega ekki. Íslendingar hafa séð alveg það er sem skiptir máli og ef menn fara að mótmæla og taka ekki þátt, þá fáum við bara faraldurinn yfir okkur. Þá fáum við aðra sviðsmynd með útbreiddum alvarlegum veikindum sem hefur áhrif á alla heilbrigðisþjónustuna við alla hópa. Fólk kemst ekki í aðgerðir eða hvað það nú er sem þarf að gera. Mikilvæg starfsemi lamast, eins og til dæmis hjá Orkuveitunni, rafmagnsveitum og ég veit ekki hvað og hvað. Allt sem við byggjum okkar líf á mun lamast út af útbreiddum veikindum. Þannig að fólk þarf aðeins að horfa á þetta."

Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um núverandi sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda þá er ekkert sem bendir til undirliggjandi ólgu í samfélaginu sem gæti brotist út í fjölmennum mótmælum og götuóeirðum á borð við það sem hefur sést undanfarið á meginlandi Evrópu. Í ljósi þess vekur furðu að sóttvarnalæknir stígi inn í umræðuna með þessum hætti og boði nánast eld og brennistein á aðventunni ef fólk nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn til þess að safnast saman í nafni einhvers málstaðar.

* * *

Það var fleira í þessu viðtali sem vakti furðu. Segja má að sóttvarnalæknir hafi sett ný viðmið í hræðsluáróðri með ummælum sínum. Í viðtalinu lætur hann í veðri vaka að umfang sóttvarnaaðgerða ráðist ekki eingöngu af bolmagni heilbrigðiskerfisins til þess að takast á við faraldurinn eins og oft hefur verið haldið fram af fyrirliðum sóttvarnayfirvalda. Fleiri þættir ráði för:

„Við sjáum bara hvað er að gerast í öðrum löndum sem eru með meira rými, þau eru líka með takmarkandi aðgerðir. Jú, auðvitað er það meginmarkmiðið að halda spítalanum á floti, að yfirkeyra hann ekki, en við erum líka að reyna að koma í veg fyrir alvarleg veikindi fólks sem getur lent í langvarandi veikindum í kjölfarið. Svo erum við líka að reyna að halda smitunum niðri því með fleiri alvarlega veikum þá bara lamast fyrirtæki. Fólk veikist og kemur ekki í vinnuna og þá lamast starfsemi úti um allt."

Bólusetning gegn Covid kemur ekki í veg fyrir smit en hún gerir að verkum að fæstir sem fá veiruna veikjast alvarlega. Fram hefur komið að um 97% þeirra sem eru bólusett finni fyrir engum eða litlum einkennum smitist þau af veirunni. Sést það meðal annars á þeirri staðreynd að meðaltal þeirra sem hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús er mun lægra í dag en til að mynda í sumar og fyrravetur þegar aðrar smitbylgjur riðu yfir og bólusetning var skemmra á veg komin.

Í ljósi þessa vekur það upp áleitnar spurningar að sóttvarnalæknir réttlæti harðar sóttvarnaaðgerðir nú með því að vísa til þess að verið sé að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtækjarekstur lamist í landinu. Orð bandaríska liðsforingjans sem sagði að nauðsynlegt hefði verið að eyða víetnömsku þorpi til þess að bjarga því koma upp í hugann í þessu samhengi. Og með sömu rökum ætti til að mynda leggja blátt bann við fyrirhuguðu Bingókvöldi Sjómannasambands Íslands svo að vetrarvertíðinni á loðnu verði ekki stefnt í hættu svo einhver dæmi séu tekin.

* * *

Á dögunum sagði fréttastofa Ríkisútvarpsins frá því að barn hefði verið tekið með keisaraskurði á Landspítalanum fyrr í mánuðinum vegna veikinda móður af völdum Covid. Í kjölfarið sagði svo Vísir frá því að móðirin væri af pólsku bergi brotin og hefði ekki verið bólusett vegna Covid. Velta má fyrir sér hvaða erindi þær upplýsingar eiga við almenning. Fréttaflutningur undanfarið um að stærsti hluti þeirra sem eru óbólusettir hér á landi sé af erlendu bergi brotinn réttlætir það að minnsta kosti ekki.

Yfirgnæfandi líkur eru á því að fréttamenn RÚV og Vísis hafi fengið þessar upplýsingar frá Landspítalanum með einum eða öðrum hætti. Stjórnendur spítalans hljóta að líta málið alvarlegum augum en ekki er langt síðan Landspítalinn tók ákvörðun um að veita ekki Morgunblaðinu upplýsingar um hlutfall óbólusettra af þeim sem lágu á spítalanum vegna veirunnar. Bar spítalinn þá fyrir sig persónuverndarsjónarmiðum.

* * *

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag fyrir viku var fjallað um ólíkar aðferðir seðlabanka heimsins í baráttunni við verðbólgu. Var þar dregið fram að Evrópski seðlabankinn hefði ekki brugðist við verðbólguþrýstingi að undanförnu með vaxtahækkunum ólíkt þeim íslenska. Niðurlag fréttarinnar vakti athygli. Það var eftirfarandi:

„Bankarnir hafa enn ekki uppfært vaxtatöflur sínar frá síðustu stýrivaxtaákvörðun en þess má vænta að það verði gert á næstu dögum. Þeir sem vilja nota tækifærið og festa vexti áður en hækkanir taka gildi ættu að hafa hraðar hendur, enda miðast vaxtastig nýrra lána við þann dag sem sótt er um."

Þeir sem eru læsir á fjármál sjá vafalaust margvísleg rök fyrir því að endurfjármagna fasteignalán sín um þessar mundir og sækjast eftir lánum með föstum vöxtum í þeim efnum. Eins og fram kemur í ágætri fréttaskýringu Þorsteins Friðriks Halldórssonar á Innherjavef Vísis þá kjósa langflestir fasteignalán með föstum vöxtum um þessar mundir. Hverju sem því líður er ekki hægt að líta á niðurlag fréttar RÚV öðruvísi en sem fjármálaráðgjöf fréttamanns og orkar það eðlilega tvímælis. Fréttamaðurinn hefur enga vissu frekar en nokkur annar hvernig vaxtastigið kemur til með þróast á næstu árum. Flestir myndu klóra sér í kollinum ef fréttir af gangi mála í Kauphöllinni myndu enda á ráðgjöf fréttamanna um fjárfestingakosti en á þessu er enginn eðlismunur.

* * *

Í framhaldi af þessu má benda á þá áhugaverðu staðreynd að nánast enginn munur er um þessar mundir á útlánavöxtum bankanna og vöxtum á sértryggðum skuldabréfum. Bankarnir fjármagna stærstan hluta íbúðarlánveitinga sinn með útgáfu á slíkum bréfum. Þessi veruleiki kemur ekki heim og saman við stutta og hnitmiðaða fréttaskýringu Kjarnans um að vaxtamunur í bankakerfinu hafi ekki minnkað við afnám bankaskattsins.

* * *

Í síðustu viku var á þessum vettvangi fjallað um þá staðreynd að fjölmiðlar virðast í auknum mæli leita eftir leiðsögn millistjórnenda og sérfræðinga í ríkisstofnunum um hvernig almenningur eigi að haga sínu daglega lífi. Tilefnið var viðtal sem birtist í Fréttablaðinu við sérfræðing hjá Umhverfisstofnun sem varaði við tilraunum einhleypra til að fylla upp í tómarúmið í lífi sínu með kaupum á einhverjum óþarfa. Það væri fullreynt og skilaði engum árangri. Og ef fólk væri tilneytt að kaupa sér eitthvað þá ætti það að kaupa sér tíma í nuddi!

Fréttablaðið hélt uppteknum hætti á þriðjudag í síðustu viku og fjallaði um tilmæli sérfræðinga Umhverfisstofnunar í aðdraganda aðventunnar. Efnislega eru þau að fólk eigi að forðast að halda jól. Rætt er við Ingibjörg Söndru Bakke, sérfræðing stofnunarinnar, í blaðinu og segja má að hún fylli lesendur af hinum eina sanna anda jólanna:

„Auðveldast er auðvitað að sleppa óþarfanum, hvort sem það eru gjafirnar sem enginn hefur óskað sér, maturinn sem endar í ruslinu, fötin sem verða aldrei notuð aftur eða rafmagnið sem fór í að halda raftækjum og ljósum í gangi sem enginn sér."

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.