*

sunnudagur, 7. júní 2020
Andrés Magnússon
23. desember 2017 13:43

Jólakveðja

Yfirlýsing LR var ekki trúverðug í ljósi þeirra vandræða sem leikhúsið átti í við að svara einföldustu spurningum.

Aðsend mynd

Fréttir voru sagðar af því í vikunni að aðalleikaranum í fyrirhugaðri sýningu Borgarleikhússins hefði verið sagt upp störfum aðeins viku fyrir frumsýningu, eftir að fram hefðu komið ásakanir um kynferðislega áreitni af hans hálfu. Málið er að sjálfsögðu runnið af rótum #metoo byltingarinnar og hið afdrifaríkasta – enn sem komið er. 

Fjölmiðlar komust skjótt á snoðir um málið og DV gekk hart eftir því að fá frekari upplýsingar frá Borgarleikhúsinu um málið. Það er óhætt að segja að það hafi gengið stirðlega. Leikhússtjórinn var nánast á flótta undan blaðamönnum þess, en sérlegur talsmaður gat ekkert sagt annað en að hann gæti ekki tjáð sig. Kannski, jafnvel líklega, kæmi yfirlýsing síðar, en ekki að sinni. Og jafnvel um það ætti hann erfitt með að tjá sig. 

Þegar á leið kom aðeins meira á daginn, aðallega það að leikhúsið vildi ekki tjá sig um málið af því að það væri persónulegs eðlis. Sem bersýnilega er rangt. Fyrst það er verið að fresta frumsýningu á leikriti, sem án vafa hefur verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir leikhúsið og sennilega starfsmenn þess einnig, þá er það ekki persónulegs eðlis lengur. 

Síðar sagði Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, það í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að „leikhússtjóri, framkvæmdastjóri og stjórn Leikfélags Reykjavíkur [hefðu verið] einhuga um þessa ákvörðun og hún var tekin eftir mikla yfirlegu og að vandlega ígrunduðu máli“. 

Má vera, en það er ekki mjög trúverðugt í ljósi þeirra vandræða sem leikhúsið átti í við að svara einföldustu spurningum um málið. Þau viðbrögð báru öll vitni um að yfirlegan hefði ekki verið meiri en svo að stjórnendur leikhússins áttu engin góð svör.

Auðvitað er það skiljanlegt að menn eigi í vandræðum með að svara öllum spurningum á fæti í miðju vandræðamáli eins og þessu. En það réttlætir hins vegar ekki þennan flótta og hunsun. 

Leikhúsin leggja vanalega mikið upp úr góðu sambandi við fjölmiðla, enda eiga þeir mikið undir því að verk þeirra og starfsemi séu kynnt. En allt trúnaðarsamband af því tagi kallar á að menn taki ekki bara símann þegar allt er í lukkunnar velstandi og vilja plögga það sem er á fjölunum. Nei, þeir þurfa ekki síður að svara þegar vondu málin koma upp.

                                              ***

Síðastliðinn föstudag birti DV fregn um sorglegri hliðar jólaundirbúningsins undir fyrirsögninni „Þúsundir Íslendinga hafa ekki efni á að halda jól“.

Þar sagði frá því að ekki væru allir færir um að veita sér og sínum, eins og þeir helst vildu um jólin. Jólahald væri dýrt, ekki síst fyrir hina efnaminni. Uppistaðan í þessari frétt Auðar Aspar Guðmundsdóttur var viðtal við konu, sem býr við þröngan kost ásamt fjórum börnum. 

Umfjöllun af þessu tagi er þörf, en yfirleitt ber lítið á henni nema í stöku úttektum, helst fyrir stórhátíðar og þá oft að frumkvæði hjálparstofnana. Hún er einnig viðkvæm og vandmeðfarin, bæði gagnvart þeim sem um er fjallað og lesendum. Hún má ekki ganga of nærri umfjöllunarefnunum, ekki gera lítið úr þeim, en einnig gengur ekki að láta tilfinningarnar ráða ferðinni, þó vissulega megi líka leika á þær nótur.

Líkt og aðrar fréttir þarf slík umfjöllun að hvíla á staðreyndum. Þegar fjallað er um hið sértæka, eins og óhjákvæmilega gerist þegar greinin byggir mikið á reynsluviðtali, er sérstaklega nauðsynlegt að gæta þess að það sé ekki umhugsunarlaust notað til dæmis um hið almenna. Nema menn hafi eitthvað ákveðið fyrir sér um það. 

Það vantaði því miður í fréttina, því fyrrgreind fyrirsögn átti sér enga innistæðu í fréttinni, þó þar væri eitt og annað fullyrt: 

Fjöldi íslenskra fjölskyldna hefur ekki efni á að halda heilög jól nú í ár. Stór hluti hópsins eru mæður á örorkubótum […] 

Það er ekki ómögulegt að þetta sé rétt, en þá verður að tilgreina á hverju það sé byggt. Ef það eru þúsundir Íslendinga sem ekki hafa efni á því að halda jól, þá þarf blaðið að segja frá því hversu margar þúsundir það séu og á hverju sú tala sé byggð. Og fyrst það er fullyrt að „stór hluti hópsins“ sé einhvernveginn samsettur blasir við að einhver könnun á umfanginu býr að baki. Af hverju er þá ekki frá því greint í stað þess að tala svo almennt og loðið? 

                                              ***

Önnur mannauðsfrétt úr listageiranum vakti athygli fjölmiðlarýnis. Það var einstaklega löng og ýtarleg frétt, sem Anna Marsibil Clausen skrifaði í Morgunblaðið um ráðningu tónlistarmannsins Stefáns Hilmarssonar á skrifstofu STEFs, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar. Fréttin laut að því að fulltrúaráð STEFs hefði hafnað kæru á ráðningunni, sem Hjálmar H. Ragnarsson, fyrrverandi rektor Listaháskóla Íslands og fyrrverandi formaður Tónskáldafélags Íslands, lagði fram. Svo fylgdu með viðtöl við hina og þessa um málið, sem aumingja lesandinn skildi minna í eftir því sem hann las meira. 

Fréttin kann að vekja athygli í einhverjum kreðsum, en jafnvel innan tónlistargeirans er vafamál að margir hafi nennt að lesa þessa innansveitarkróniku. Sér í lagi þegar haft er í huga að fréttin hófst á því að greina frá því að kærunni hafi verið hafnað sem tilefnislausri, en eftir að hafa lesið þúsund orð í viðbót (ámóta langt eins og þessi grein) hafði ekkert breyst um það. Fréttir verða ekki skýrari við það eitt að verða lengri. 

                                              *** 

Fjármál Ríkisútvarpsins hafa verið lítillega til umfjöllunar að undanförnu, en þau hafa reynst stofnuninni þung og væru raunar í megnustu vandræðum ef ekki kæmi til ábatasamt fasteignabrask. Um þetta var m.a. fjallað í Staksteinum með þeim hætti að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri stakk niður penna til þess að mótmæla, bæði á síðum Morgunblaðsins og vefsíðu RÚV, þar sem hann talaði m.a. yfirlætislega að Staksteinahöfundi hætti „til að skjöplast nokkuð þegar stað- reyndir eru annars vegar“ og kom svo með ýmsar frumlegar skoðanir, ekki tæmandi þó, á rekstri og skuldastöðu RÚV. Er við hæfi að hinn hlutlausi útvarpsstjóri sé að standa í pólitískum skylmingum af þvi tagi? 

                                              ***

Lesandum er óskað gleðilegra jóla og farsæls nýs árs!

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.