Fátt er fegurra en barnsleg tilhlökkun til jólahátíðarinnar. Bið, endalaus bið sem bara styttist ei neitt. Með aldrinum breytist þessi endalausa bið hins vegar í endalausan lista af verkefnum sem þarf að klára áður en klukkan slær sex á aðfangadagskvöld. Jólagjafainnkaup, alþrif, skreytingar, þvottur, bakstur, innpökkun, jólakort og matarboð. Svo er það jólasveinninn, sem alls ekki má klikka.

Jóladagatölin eru sér kapítuli. Valið snýst ekki lengur eingöngu um mynd á Lions súkkulaðidagatalinu. Fyrir utan öll metnaðarfullu dagatölin frá helstu sælgætisframleiðendum heims eru nú til lego-, playmo-, minecraft og LOL surprise dagatöl, snyrtivörudagatöl, snakkdagatöl, bjórdagatöl og jafnvel hjálpartækjadagatöl. Ekki má heldur gleyma heimatilbúnu upplifunardagatölunum þar sem foreldrar lofa upp í ermina á sér daglega í desember.

Jólin eru hátíð barnanna og uppskrift að kvíðaröskun fyrir fullorðna. En þökk sé tilkomu netverslunar og alþjóðlegra útsöludaga fáum við nú aðstoð við að klára dæmið, snemma og komplett. Við látum hinn kínverska dag einhleypra ekki fram hjá okkur fara hér á skerinu, né heldur svartan fössara eða netmánudag. Nú skulu allar gjafir helst vera innpakkaðar listavel fyrir fyrsta des, svo virkilega megi njóta aðventunnar með öllu tilheyrandi; jólaföndri, jólaglöggi, litlu jólum, jólahlaðborðum og jólatónleikum. Á ensku er talað um Christmas creep, þar sem jólahátíðin og allt sem henni fylgir færist sífellt framar í dagatalinu. Hér mætti notast við orðið jólaskrið.

Ætlunin með þessum pistli er alls ekki að vera Trölli sem stal jólaskriðinu. Jólin geta auðvitað hvorki varað nógu lengi né komið nógu fljótt. Tökum börnin hins vegar til fyrirmyndar yfir hátíðirnar og töpum aldrei gleðinni, óháð stöðunni á verkefnalistanum endalausa. Hinn sanni andi jólanna krefst þess.

Gleðilega jólahátíð!