Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á fimmtudag um nýtt handboltahús. Hann fjallaði um blaðamannafundina þar sem allt sem máli skipti kom fram utan þess hver ætti að borga. Hér má lesa pistilinn í heild sinni.

Árangursleysi íslenska landsliðsins á HM voru auðvitað mikil vonbrigði. Við gerum bara betur næst. En það er hins vegar ef til vill huggun harmi gegn að nú gleymast hugmyndir um handboltahöllina um sinn.

Óðinn tók eftir því að fjármálaráðherra var ekki blaðamannafundum og fjallaði sérstaklega um þann þátt.

Alþýðuhöll Katrínar

Það sem gladdi Óðinn hvað mest var að Bjarni Benediktsson var hvergi sjáanlegur á blaðamannafundunum tveimur. Því velti Óðinn því fyrir sér hvort Bjarni væri ef til vill búinn að átta sig á því að með 193 milljarða útgjaldaaukning ríkisins árið 2023 væri of langt gengið og rétt væri að halda aftur af sér í frekari útgjöldum.

En svo var því miður ekki.

***

Peningar ekki vandamálið

Ríkisútvarpið, sem kostar okkur skattgreiðendur 5,8 milljarða í ár, sá einnig að Bjarni var ekki á fundinum.

Aðspurður sagði Bjarni að peningar væru ekki vandamálið við nýja þjóðarhöll.

Ríkið getur vel tekið þátt í að byggja þjóðarhöll á þessu áætlanatímabili sem er framundan, það er engin spurning. En á endanum þá erum við alltaf að forgangsraða fjármunum og kannski þarf að tímasetja þetta vel, en það er engin spurning að við höfum getu og burði og fjármagn til þess að leysa þátt ríkisins í svona framkvæmd.

Óðinn skilur svarið ekki alveg. Það er gert ráð fyrir að höllin verði tekin i notkun 2025. Það þyrfti því að byrja að byggja á morgun til að það næðist. Hvað á Bjarni við að það þurfi að tímasetja þetta vel?

Er hann kannski að ýja að því að þessi tímasetning sé óskynsamleg. Svona í ljósi þess að verið sé að byggja þjóðarsjúkrahús sem sogar til sín mikinn fjölda starfsmanna í byggingariðnaðinum.

Svo má ekki gleyma gamla góða Keynes. Eins og Óðinn hefur bent á gekk kenning hans út á að ríkisvaldið eigi að auka útgjöld í kreppu og draga saman útgjöld í góðæri til að jafna sveiflur. Þjóðarhöllinn myndi setja enn meiri þrýsting á byggingariðnaðinn. Nógur er hann samt og þó er verið að byggja of fáar íbúðir.

***

Máni enginn bjáni

Máni Pétursson útvarpsmaður er einn fárra sem hafa mótmælt byggingu þjóðarhallar Katrínar. Það gerðir hann í tvíti á mánudag.

Það má gera ráð fyrir að fjölmiðlar klappi upp nýja þjóðarhöll. Engin mun spyrja hina nauðsynlegu spurninga „er ykkur alvara með þetta” og á hvaða fíkniefnum eruð þið?

Óðinn veit hvaða fíkniefni er að rugla ráðamenn í ríminu.

Það eru annarra manna peningar.