Frá því var sagt í vikunni að opinberir starfsmenn væru mun ánægðari með styttingu vinnuvikunnar en launþegar á almennum vinnumarkaði. Þannig segjast 64% opinberra starfsmanna frekar eða mjög ánægð með styttinguna en á einkamarkaðnum er hlutfallið 44%.

Þetta þarf ekki að koma á óvart í ljósi upplýsinga um að vinnustyttingin sé mun drýgri hjá opinberum stofnunum en einkafyrirtækjum. Bráðabirgðamat Hagstofunnar er að frá janúar 2020 og til maí 2021 hafi launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkað um 1,22% eingöngu vegna vinnutímastyttingarinnar en á opinbera markaðnum um 1,67%.

Þó eru áhrif styttingarinnar hjá opinberum starfsmönnum ekki komin fram að fullu. Hagstofan hefur tekið tillit til 65 mínútna styttingar vinnuvikunnar en ekki tæplega þriggja klukkustunda styttingar sem bætzt getur við ef samið er um niðurfellingu neyzluhléa. Raunar eru farnar að berast fregnir af tilvikum þar sem samið hefur verið um fulla styttingu en opinberir starfsmenn haldi engu að síður neyzluhléum. Það er ekki sama Jón og séra Jón.

Þegar samið var við opinbera starfsmenn var látið í það skína að kostnaður af samningnum væri sambærilegur og vegna lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Það verður æ skýrara að hann er mun meiri - opinberir starfsmenn fá svipaðar launahækkanir og almennir launþegar en auk þess drýgri vinnustyttingu. Við bætist gífurlegur kostnaðarauki vegna mönnunargats hjá mörgum stofnunum vegna styttingar vinnuviku vaktavinnufólks.

Enn og aftur er íslenzkur vinnumarkaður kominn í þá stöðu að hið opinbera hefur forystu um hækkun launakostnaðar - á sama tíma og samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja fer versnandi vegna miklu meiri launakostnaðarhækkana en í nágrannalöndunum. Hér þarf að taka mjög þétt í bremsuna ef ekki á að fara illa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.