*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Leiðari
9. desember 2019 08:02

Kaflaskil í bankakerfinu

Umskipti Arion marka kaflaskil í sögu viðskiptabankanna þriggja sem eru skilgreindir.

Arion banki.
Haraldur Guðjónsson

Arion banki hefur tekið slíkum breytingum á árinu að það er nær lagi að tala um umskipti bankans frekar en endurskipulagningu og endurskoðun á markmiðum og áætlunum. Yfirstjórn bankans hefur verið endurnýjuð og þótt aðeins þrír mánuðir séu liðnir frá því að Benedikt Gíslason tók við bankastjórninni hefur hann nýtt tímann vel og keyrt umskiptin í gegn af krafti. Til marks um það má t.d. nefna stærstu hópuppsögn í íslenskri fjármálasögu frá upphafi (hrunið ekki undanskilið). Þá er engu líkara en að bankinn hafi tekið handbremsubeygju og gjörbreytt útlánastefnu sinni í einni svipan. Það kemur ef til vill ekki mjög á óvart þegar litið er tilbaka. Bankinn hefur verið með eindæmum „óheppinn“ í útlánum síðustu misseri og nægir þar að nefna United Silicon, Wow og Primera.

Umskipti Arion marka kaflaskil í sögu viðskiptabankanna þriggja sem eru skilgreindir „kerfislega mikilvægir bankar“ (KMB) af lánshæfismatsfyrirtækjum samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og viðmiðum. Þar til nýlega gengu íslensku KMB viðskiptabankarnir allir í takt að því sameiginlega markmiði að veita alhliða bankaþjónustu á öllum sviðum bankaviðskipta sem nöfnum tekur að nefna og vera jafnt fjárfestingarsjóðum innan handar um meiri gírun á stöðutökum sínum sem og að útvega unglingum sparireikning fyrir fermingarpeningana.

Við umskiptin í ár vék Arion af þessari sameiginlegu leiðarstjörnu bankanna, mögulega í átt að meiri sérhæfingu í starfsemi sinni og þjónustu. Breytingar eru sjaldan án sársauka og hvað þá umskipti eins og Arion banki hefur gengið í gegnum. Hins vegar eru miklar fórnir ekki heldur trygging fyrir því að breytt hafi verið til góðs. Eins og fjallað er um í blaðinu í dag eru uppi áhyggjur um að ákvörðun Arion um að minnka útlánasafn sitt til fyrirtækja um fimmtung fyrir árslok 2020 eigi eftir að dýpka niðursveifluna og draga hana á langinn. Óttinn er ekki úr lausi lofti gripinn enda gefur sagan ærið tilefni til að stíga varlega til jarðar þegar bankar og fjármálakerfið er annars vegar.

Kristrún M. Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku banka, hefur í fjölmiðlum að undanförnu reifað þá skoðun að kúvendingin sem orðið hefur á útlánastefnunni að undanförnu kunni að vera til marks um að útlánavöxtur bankanna hafi í góðærinu verið meiri en efni í hagkerfinu stóðu undir. Þessi umframvöxtur kalli á tiltekt í lánasafninu með tilheyrandi hækkun á vaxtaálagi og endurskoðun á lánasamningum. Þessu til viðbótar nefnir Kristrún einnig að áhættufælni innan lánastofnana hafi aukist í niðursveiflunni og að minni umsvif í útlánum bankanna endurspegli einfaldlega minni umsvif í hagkerfinu.

Það er fagnaðarefni ef bankarnir ráðast í þessa tiltekt hratt og hiklaust. Bankar sem draga hreingerninguna á langinn eiga á hættu að verða að uppvakningum sem lifandi dauðir eru hvorki hluthöfum sínum né viðskiptavinum sínum til góðs. Engu að síður er sú hætta fyrir hendi að ef allir bankarnir ráðast í tiltektina á sama tíma geti það magnað sveifluna niður á við. Miðað við stöðu mála í dag verður þó að teljast ólíklegt að það gerist, þar sem Landsbankinn og Íslandsbanki eru enn í eigu ríkisins og eiga því erfiðara um vik að skipta algjörlega um kúrs. Sérstaklega ef kúrsinn getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir hagkerfið.

Hvort umskipti Arion banka verði í framtíðinni talið happaskref í átt að betra bankakerfi veltur mjög á því hvort stjórnendum bankans takist í ferlinu framundan að finna jafnvægi sem tryggir að hagsmunir eigenda bankans fari saman með hagsmunum viðskiptavina hans. Verkefnið er ærið og enginn leiðarvísir til að þessu viðkvæma jafnvægi. Á hinn bóginn er nóg af gömlum kreddum, strámönnum og eftiráskrýringum sem rænt hafa bestu stjórnendum sýn á þeim hættum í bankakerfinu sem mestu máli skiptir að horft sé í augu við.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.