*

sunnudagur, 20. júní 2021
Huginn og muninn
29. maí 2021 10:14

Kaldar kveðjur

Fyrrum formanni Viðreisnar var boðið neðsta sætið á lista flokksins sem hann þáði ekki en þar með var málinu ekki lokið.

Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar.
Haraldur Guðjónsson

Þær voru fremur kaldar kveðjurnar sem Benedikt Jóhannesson fékk frá samstarfsfólki sínu í Viðreisn á dögunum. Benedikt, sem er einn af stofnendum flokksins og var um tíma formaður hans og ráðherra, tilkynnti síðasta haust að hann gæfi kost á sér í oddvitasæti í suðvesturhorninu, sem þýðir Suðvesturkjördæmi eða Reykjavíkurkjördæmin. Tilkynningin var merkileg fyrir þær sakir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar, er oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Benedikt lagði til að haldið yrði prófkjör í Reykjavík en það varð ekki því Reykjavíkurráð flokksins ákvað að fara í uppstillingu og var Þorsteinn Pálsson fenginn til veita uppstillingarnefndinni forstöðu. Hrafnarnir hefðu viljað vera fluga vegg þegar Benedikt var kallaður á fund hjá Þorsteini í síðustu viku. Á fundinum tilkynnti Þorsteinn fyrrverandi formanni flokksins að honum byðist neðsta sætið á listanum. „Af augljósum ástæðum afþakkaði ég það,“ skrifaði Benedikt í færslu á Facebook. Hann sagðist þó enn styðja grunnstefnu Viðreisnar, „enda hygg ég að ég hafi skrifað megnið af henni“.

Benedikt er nú kominn í hóp fyrrverandi formanna sem hafnað hefur verið af sínum flokkum. Þar má meðal annars nefna Birgittu Jónsdóttur en sú var lengi vel nefnd í sömu andrá og Píratar en þar áður var hún í Samstöðu, Borgarahreyfingunni og Hreyfingunni sem og Guðmundur Steingrímsson. Í annan stað má rifja upp stutta, en afar eftirminnilega, formannstíð Höskuldar Þórs Þórhallssonar í Framsóknarflokknum. Brotthvarf Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson úr sama flokki ætti síðan að vera flestum í fersku minni. Hrafnarnir vilja benda Benedikt á að helmingur þeirra afréð að stofna nýjan flokk eftir að hafa hrökklast brott og enn ekki of seint að gera það fyrir kosningarnar í haust. Þar ætti fyrri reynsla hans að nýtast vel.

Skoðanapistillinn birtist í síðasta Viðskiptablaði. Eftir að pistillinn birtist upplýsti Þorgerður Katrín að Benedikt hefði verið boðið 2. sætið á lista flokksins í Reykjavík norður á mánudaginn en hafnað því. Benedikt sagði þetta ekki rétt hjá formanninum þvert á móti hefði hann fallist á beiðnina en óskað eftir afsökunarbeiðni.

Ég tók fram að þetta væri einungis til þess að ljúka þessum málum af minni hálfu og leggja grunn að góðu samstarfi. Ég myndi ekki gera þær afsakanir opinberar. Þorgerður svaraði eftir umhugsun að slík persónuleg afsökunarbeiðni væri ekki í boði. Því fór sem fór,“ skrifaði Benedikt á Facebook á fimmtudaginn. „Ég átti ýmis samtöl við formann flokksins, en við vorum sammála um að öll okkar samskipti væru trúnaðarmál. Ástæða þess að ég tala nú um þessi mál er að Þorgerður kýs að ræða þau opinberlega.“

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.