COVID-faraldurinn hefur valdið og mun að öllum líkindum valda talsverðum röskunum í alþjóðaviðskiptum. Ekki er unnt að sjá fyrir allar aðstæður, sama hversu vönduð samningsgerðin er. Enginn les framtíðina þótt menn séu misjafnlega sannspáir.

Í alþjóðlegum samningarétti eru tvö hugtök sem ætlað er að taka á óvæntum eða ófyrirsjáanlegum aðstæðum: force majeure og hardship. Í meginatriðum vísar force majeure til ómöguleika, en hardship til brostinna forsendna. Ómöguleiki varðar þá samninga almennt, en brostnar forsendur einstaka samninga. Annars eru skilin á milli þessara tveggja hugtaka ekki skörp, þrátt fyrir ótal fræðiskrif um þau. Árétta ber að engin ein alþjóðleg regla gildir við þessar aðstæður; hvert ríki beitir sinni eigin löggjöf. Samningsaðilar geta þó samið um að beitt skuli stöðluðum alþjóðlegum reglum.

Alþjóðaverslunarráðið (International Chamber of Commerce) lagði fyrst drög að stöðluðum samningsákvæðum um þessi tvö hugtök árið 2003, sem endurskoðuð voru í mars 2020 í kjölfar heimsfaraldursins , þar sem kynntar voru þrjár mismunandi útfærslur af ákvæðunum.

Ein útfærslan var gerð einkum með tilliti til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en í meginatriðum felur hún í sér að samningsaðilar verða áfram samningsbundnir þótt það reynist þeim þungbært, erfitt eða jafnvel ómögulegt að efna samninginn. Við þessar aðstæður þurfa samningsaðilar að endursemja vegna þessara tilteknu þátta innan ákveðins tímafrests. Ef samningar nást ekki fyrir þann tíma, vísa aðilar ágreiningi til dóms og leggja hvor fyrir sig fram tillögu að sanngjarnri lausn eða aðlögun fyrri samnings að breyttum aðstæðum.

Aukin áhersla er því lögð á að viðhalda samningssambandinu í stað þess að slíta því með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir alla hlutaðeigandi. Sambærilegar breytingar hafa einnig verið gerðar á öðrum evrópskum stöðlum á sviði samningaréttar, sbr. 6.2.1-6.2.3 gr. UPICC (Unidroit Principles of International Commercial Contracts) og 6:111 gr. PECL (Principles of European Contract Law).

Alvarlegur ágreiningur samningsaðila leiðir oftast til loka viðskipta- og samningssambanda. Á tímum þar sem engin afmælisboð eða önnur vinaleg bréf berast inn um lúguna, heldur einkum innheimtubréf, koma áherslubreytingar sem þessar sem ferskur andblær inn í alþjóðlega samningagerð. Í gömlu máltæki segir að mögur sátt sé oft betri en feitur dómur.

Breytingarnar sem hér eru til skoðunar eru ætlaðar til lengri tíma og eru til þess fallnar að rækta samstarf, samvinnu og samkennd innan samningssambanda. Fyrir slíka nálgun og hegðun á að lofa fyrirtæki. Þetta kann að stuðla að örlítið heilbrigðara viðskiptalífi, sbr. hvatningarorð þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar í þjóðsöng okkar: „[…] verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár […]“.

Heimsfaraldurinn hefur einangrað okkur félagslega og grætt allt of marga. Það er kominn tími til þess að þerra tárin, græða sárin og endursemja af fullum heilindum, þar sem við á.

Höfundur er lögmaður og framkvæmdastjóri Cicero lögmannsstofu.