*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Týr
28. mars 2021 15:04

Kapítallaus kapítalismi

„Ef við tökum kapítalið úr kapítalismanum stendur ekki mikið eftir, nema þægilegir kunningjaklúbbar.“

Eva Björk Ægisdóttir

Nú rennur upp tími ársfunda og aðalfunda fyrirtækja. Öllu jafna vekja þeir ekki mikla athygli, nema þá helst hjá viðskiptamiðlum. Þó eru undantekningar, til dæmis ef skráð fyrirtæki vogar sér að greiða út arð eða tekist er á um stjórnarsæti. Fjölmiðlar fylgdust vel með aðdraganda aðalfundar Icelandair Group af þeirri ástæðu. Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið á liðnu ári, þá voru það helst framboð í stjórn félagsins sem vöktu athygli. Það er í sjálfu sér eðlilegt, við höfum iðulega meiri áhuga á fólki en tölum.

                                                                       ***

Skráð fyrirtæki á Íslandi eru flest í nokkurri sérstöðu. Þau eru að stærstum hluta til í eigu lífeyrissjóðanna, sem yfirleitt hafa ekki sterkar skoðanir á því hvernig þau eru rekin eða af hverjum. Það sem þeir vilja helst er að ekki sé fjallað um starfsemi félaganna með neikvæðum hætti í fjölmiðlun. Erlendir hluthafar sem kunna að rata í hluthafahóp fyrirtækjanna vita ekki hverjum hægt er að treysta og hverjum ekki. Til að gera þetta allt einfaldara starfrækja flest fyrirtæki nú tilnefninganefndir. Nefndirnar tilefna aðila til að sitja í stjórnum og það er afar sjaldgæft að farið sé gegn þeim tilnefningum. Það eru þó dæmi um að nefndirnar hafi lagt til að stjórnarmönnum verði skipt út, en það byggir yfirleitt á einhvers konar mati nefndanna frekar en vilja hluthafa.

                                                                       ***

Stjórnarlaun óbreyttra stjórnarmanna eru yfirleitt um 350-500 þúsund krónur og því miður skiptir sú upphæð töluverðu máli fyrir marga þeirra sem sitja í stjórnum. Það heyrir þó til undantekninga að stjórnarmenn skráðra fyrirtækja eigi allt sitt undir því hvernig fyrirtækinu gengur. Í versta falli tapa þeir aukavinnunni sem gefur vel í aðra hönd. Það er áhyggjuefni ef þróunin er sú að eigendur skráðra fyrirtækja megi ekki hafa skoðun á rekstri þeirra. Enn verra er ef þeir hafa í raun engan áhuga á því. Ef við tökum kapítalið úr kapítalismanum stendur ekki mikið eftir, nema þægilegir kunningjaklúbbar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.